Hinrik Ólafsson, leikari og leiðsögumaður, hefur stundað sjóböð og sjósund í um fimmtán ár. Hann segir sjóinn og sundið efla ónæmiskerfið um leið og það sé slakandi fyrir líkama og sál.
Hvers vegna stundar þú sjósund og hvenær byrjaðir þú á því?
„Sjósund er mjög heilsueflandi og með breiða virkni á líkama og sál. Það vinnur á hverskyns bólgum í líkamanum, framkallar andlega vellíðan, bætir öndun, er sjálfseflandi og veitir mikla frelsiskennd. Ég byrjaði að stunda sjósund reglulega fyrir um 15 árum.“
Hvað þarf til að stunda sjósund?
„Neopran hanskar og skór eru nauðsynlegir – sérstaklega á veturna. Hægt er að fá þá í mismunandi þykktum, eða 3 mm og 5 mm. Einnig er mikilvægt að vera með litríka sjósundhettu til að vera sýnilegur og sem einangrun. Svokallaðir flotkútar eða sundbaujur, sem maður dregur á eftir sér, er staðalbúnaður og veitir mikið öryggi. Í sumum þeirra er hægt að geyma síma og fleira. Sjósundgleraugu eru nauðsynleg fyrir þá sem leggja áherslu á að synda í sjónum.“
Hverjir eru kostirnir við sjósund?
„Flestir finna fljótt fyrir áhrifum sjóbaða á líkama og sál. Mjög breiðvirk lýðheilsa felst í sjóböðum og sundi. Þetta tvennt er eflandi fyrir ónæmiskerfið, húðina og er áhrifaríkur slökunargjafi, sem þarf ekki að kosta mikið. Svo má ekki gleyma fólkinu sem stundar sjósund sem virðist vera hressara og skemmtilegra en gengur og gerist!“


Hvaða staðir eru spennandi til að fara í sjóinn?
„Ég ráðlegg öllum sem eru að byrja að æfa sig að velja eingöngu þekkta sjósundstaði og í félagsskap með sér reyndara fólki. Þegar fólk er búið að ná upp kuldaþoli og kynnast sjálfu sér í aðstæðunum er hægt að fara í félagsskap „sjóaðra“ á aðra staði. Til eru margir spennandi og fallegir staðir á landinu. Nauthólsvík er einn besti sjósundstaður Íslands og þá fyrst og fremst vegna aðstöðunnar og þar er straumlaust í víkinni, sem er mjög mikið atriði að hafa í huga.“
Er hægt að iðka sjósund allt árið um kring eða er einhver árstíð betri en önnur?
„Hægt er að stunda sjósund og -böð allt árið, en fara verður varlega ef fólk byrjar að vetri og þá undir handleiðslu reyndra aðila. Ég ráðlegg öllum að leita sér að námskeiði eða hafa upp á reyndum sjósyndurum í byrjun og fá upplýsingar og leiðsögn. Að stunda sjósund krefst ákveðinnar þekkingar á eigin getu og þolmörkum, ásamt reynslu og hún fæst við ástundun og með nærgætnum og reyndum sjósyndara.“
Hvað gerir sjósund fyrir heilsuna?
„Þessi spurning er nánast of víðfeðm til að geta svarað henni tæmandi, því svo margt getur sjórinn gert fyrir heilsuna. Allur líkaminn og öll boðefni heilans eru virk meðan á sjóbaði eða -sundi stendur. Sjórinn er stærsti lífmassi jarðar og ég trúi að þar sé hægt að fá fullt af efnum sem eru góð fyrir sál og líkama. Þeir sem stunda sjósböð eða -sund hafa ýmsar sögur að segja varðandi hve heilsueflandi sjórinn er. Ég persónulega hef haldið niðri bólgum og slitgigt með frábærum árangri og svo má ekki gleyma andlega þættinum. Mikið af jákvæðum boðefnum frá heilanum í köldum sjónum spýtast út, svoleiðis að brosið og gleðin leikur um mann.“
Hvað þarf að varast þegar farið er í sjóinn?
„Mikilvægt er að halda sig við þekkta sjósundstaði. Ekki synda þar sem straumar eru. Ekki fara í sjóinn ein/n. Vertu alltaf með eða í nálægð við fólk. Vera vel nærð/ur og hvíld/ur. Gott er að fá sér ávexti eða orkugefandi fæðu rétt fyrir sjósund. Og notaðu þann búnað sem talinn er hér að ofan.
Eftir sjósund skal fara varlega í heitt vatn rétt á eftir. Gott er að ganga um í nokkrar mínútur og leyfa líkamanum að „jafna sig“ áður enn farið er í heitt vatn eða gufu.“
Nánar má lesa um sjósund á: