Search
Close this search box.
Skelltu þér á æfingu og auktu heila- og taugastarfsemina!

Skelltu þér á æfingu og auktu heila- og taugastarfsemina!

Flest höfum við frekar fastmótaðar hugmyndir um þau jákvæðu áhrif sem æfingar og reglubundin hreyfing hefur á heilsu okkar, þyngd og orkustig. Við æfum í flestum tilvikum til þess að styrkjast, grennast, verða hraðari, kraftmeiri eða til þess að bæta líkamlega heilsu og hreysti með einum eða öðrum hætti. En þekkir þú einhvern sem æfir aðallega til þess að hafa jákvæð áhrif á heilastarfsemina, taugarnar og taugaboðin?

Slík áhrif og ávinningur eru nefnilega bæði skýr og verulegur og hafa verið rannsökuð niður í kjölinn sl. ár. Það sem helst ber að nefna í þessu samhengi og sýnt hefur verið fram á í fjölda rannsókna er:

• Minni streita (aukin færni til þess að takast á við og vinna úr streitu)

• Minni félagsfælni

• Bætt úrvinnsla tilfinninga, þá sérstaklega neikvæðra tilfinninga

• Forvarnir gegn taugasjúkdómum

• Tímabundin vellíðan, sökum góðs hormónaflæðis sem losnar úr læðingi

• Aukin orka, einbeiting og athygli

• Hægari líkamleg öldrun

• Minni verður betra

• Bætt blóðrásarstarfsemi

• Skýrari hugsun og minni heilaþoka.

Hvernig hafa æfingarnar raunverulega áhrif á heilann?

Wendy Suzuki prófessor í taugafræði hefur tileinkað líf sitt því að rannsaka tengslin milli hreyfingar og bættrar heilastarfsemi og benda rannsóknir hennar til að því meira og reglubundið sem við æfum, því stærri og sterkari verða heilastöðvarnar drekinn (hippocampus), sem hefur að gera með minni okkar og getu til að læra og heilabörkurinn en í honum liggja meðal annars stjórnstöðvarnar fyrir hreyfingu og skynjun. Bæði þessi svæði eru einna næmust þegar kemur að taugasjúkdómum og vitrænnar hnignunar sökum öldrunar.

Bendir hún á að þótt reglubundin hreyfing geti vissulega ekki komið í veg fyrir ákveðna taugasjúkdóma eins og heilabilun og Alzheimer þá styrkjum við þessar heilastöðvar mikið með æfingunum og verjumst þannig hrörnunarferlinu og hægjum á alvarlegum einkennum þessara sjúkdóma til muna.

Hverjar eru bestu æfingarnar til að byggja upp heilaheilsu?

Samkvæmt European Heart Journal þá eru jákvæðu áhrifin á heilan mismunandi eftir því hvaða æfingar við stundum hverju sinni. Ekki er til nein ein æfingategund sem virkjar allar stöðvarnar samtímis og því mikilvægt að stunda fjölbreyttar æfingar en þannig virðast áhrifin á heilastarfsemina verða mest og best.

  • Til að hægja á öldrunarferlinu er mælt með þolæfingum og/eða æfingum sem keyrðar eru á háu álagi.
  • Gegn heilaþoku og aukinni einbeitingu er mælt með  æfingum eins og jóga, pilates eða þolfimitímum.
  • Til að efla minnið er mælt með þolþjálfun á borð við göngu, skokki, róðri og/eða hjólreiðum.
  • Til að bæta blóðrásina er mælt með þolæfingum eins og hlaupum, hjóli, sundi, sippi, skíðum og svo framvegis.
  • Gegn streitu og kvíða er mælt með æfingum á borð við jóga, pilates, flæðiæfingum og svo framvegis.
  • Gegn þunglyndi er mælt með góðri blöndu af þol og styrktaræfingum sem t.d. er hægt að finna í hópatímum á borð við Crossfit, Club fit, Infra power, Boot Camp, Ultraform, MGT, eða sambærilegu.

Hversu mikið og hversu oft eigum við að æfa?

Svarið við þessu er afar einstaklingsbundið og fer eftir þáttum eins og hvernig hreyfingu þú kýst að stunda, hvernig er líkamlegt ástand þit og heilsufar, á hvaða aldri ertu auk fleiri þátta.

Almennt er ráðlagt að allir stundi a.m.k 120-150 mínútna hóflega hreyfingu á viku sem samsvarar til þriggja 40-50 æfinga í viku. Öll ættum við þó að hafa það sem markmið að hreyfa okkur í 30 mínútur á hverjum degi og getur sú hreyfing verið með ólíku sniði hverju sinni. Við getum gengið eða skokkað, stundað styrktaræfingar eða jóga, leikið við börnin okkar utandyra eða þrifið húsið af krafti. Allt er þetta hreyfing sem hefur í för með sér aukin hjartslátt, svitamyndun og hraðara blóðflæði.

Aðalatriðið er að halda æfingunum inn í okkar daglegur rútínu til frambúðar og muna eftir orðum Wendy Suzuki: „Hugsum um heilann eins og vöðva. Ef við höldum honum ekki virkum, stórum og sterkum mun hann með tímanum hrörna og virknin minnka. Alveg eins og með alla aðra vöðva líkamans!

Með góðri heilsu frá þjálfaranum ykkar í Köben

Hér má finna fleiri fróðlega pistla og æfingar frá Coach Birgi

Í nýrri og endurbættri vefverslun H Verslunar má finna allt fyrir æfinguna og útivistina. Meðlimir í H klúbbnum fá 15% afslátt af fyrstu pöntun og fría heimsendingu.

NÝLEGT