Snorri Björns: Ferðin í kringum heiminn á átta dögum

Snorri Björns: Ferðin í kringum heiminn á átta dögum

Hver fór með þér í ferðalagið?

Sveinn Breki, góðvinur minn úr menntaskóla, fór með mér í ferðina. Sveinn er einhver ævintýragjarnasti og hvatvísasti maður sem ég þekki og ég vissi að ef við gerðum þetta saman væri ekki í boði að slóra eða sleppa úr minnsta tækifæri til þess að gera eitthvað úr dauðum tíma.

Á hvaða staði fóruð þið?

Ég flaug frá Keflavík til Amsterdam, keyrði þaðan til Maastricht og sótti Svein þar sem hann er í námi. Saman keyrðum við til Brussel og flugum svo til Kýpur, Egyptalands, Indlands, Kuala Lumpur, Thailands, Ástralíu, Hawaii og San Diego þar sem við löbbuðum yfir til Mexíkó og keyrðum svo upp til Los Angeles í síðasta flugið okkar til Keflavíkur.

Hvað voru þetta margir dagar?

8 dagar. Ish.

Hvað haldiði að þið hafið sofið í marga klukkutíma á ferðalaginu?

Ég get ómögulega giskað á það. Þetta er sambland af lögnum hér og þar í leigubílum og flugvöllum ásamt nokkurra klukkustunda svefni sitjandi í flugvél. Þetta var í heildina mjög lítill svefn en orkustigið var svo hátt að við fundum báðir lítið fyrir þreytu og almennu orkuleysi. Það kom hinsvegar harkalega í bakið á okkur þegar heim var komið.

Hvað var skemmtilegast?

Fallhlífarstökkið á Hawaii. Engin spurning.

Hver var það sem planaði ferðina?

Tripical ferðaskrifstofa hefur upprunalega samband við mig og vill gera eitthvað nýtt og spennandi fyrir opnunina sína. Ég áttaði mig ekki á því að þeir voru raunverulega að tala um eitthvað glænýtt og spennandi þegar þeir báru undir mig þessa hringferð. Þeir eiga allan heiður af hugmyndinni og skipulaginu.

Var allt planað frá  A-Ö af þeim?

Já og nei. Við vorum í miklu bandi við þá on-the-go um hvað væri hægt að gera í hverju landi. Þegar við lentum í Kýpur vorum við sóttir af köfunarkennara og fórum beint í köfun sem var planað nokkrum vikum fyrirfram. Deginum eftir leigðum við okkur svo mótorhjól og keyrðum um alla eyjuna í leit að ævintýrum sem var engan veginn planað. Þetta var mjög góður millivegur skipulags og óskipulags.

Var mikill munur á menningunni á milli heimsálfna?

Klárlega. Ég hafði komið áður til Asíu en menningarmunurinn var miklu skýrari þegar maður var nýkominn frá annarri heimsálfu og á leiðinni yfir í aðra. Fólkið, siðir og almenn hegðun er mjög breytileg á milli landa.

Hversu líkamlega erfitt var að fljúga svona mikið?

Maður fagnaði því svolítið að komast í flugvél. Öll óvissa var úti og maður vissi hvar maður yrði næstu klukkutímana. Það var samt andlegi parturinn. Það var ömurlegt að sofa sitjandi með hálsríg frá fluginu áður en maður var búinn að byggja upp svo góða þreytu eftir alla keyrsluna að það var ekkert annað í boði en að loka augunum og sofna.

Svo við hlaupum aftur inn í kennslustundina, náum síðustu mínútunni af kennslumyndbandi í fallhlífarstökki og erum svo komnir í loftið nokkrum mínútum seinna.

Hver er besta sagan til að segja úr ferðinni?

Líklega fallhlífarstökkið. Við lendum á Hawaii og áttum að fá pick-up frá staðnum sem sá um fallhlífarstökkið en það forfallaðist. Við leigjum okkur því bílaleigubíl og keyrum yfir á hinn enda eyjunnar Honolulu. Við hringdum í Tripical heima og þurftum að fá þá til að fresta fallhlífarstökkinu tvisvar því við vorum svo seinir og á tímapunkti vorum við mjög smeykir um að missa alveg af því. Við mætum loksins á staðinn eftir að hafa keyrt í gegnum fallegasta landslag og veðurfar sem ég hef orðið vitni af, förum beint í afgreiðsluna og okkur er vísað inn í kennslustund sem er löngu byrjuð. Ég sé einhvern miða á veggnum sem segir að enginn einstaklingur er með öruggan brottfarartíma í stökkið og biðin gæti endað í 4 klukkustundum. Þá hélt ég endanlega að við værum búnir að missa af stökkinu því við áttum svo ótrúlega lítinn tíma til að eyða í hverju landi. Ég var raunverulega búinn að sannfæra mig um að hápunktur Hawaii yrði þegar ég labbaði inn í apótek, keypti mér sköfu og rakaði mig.
 Við tökum samt sénsinn og tætum í okkur einhverja pappíra með endalaust af skilmálum um það hvernig við værum ótryggðir fyrir öllu sem gæti komið fyrir. Ég held ég skrifaði undirskriftina mína 50 sinnum á þetta hefti. Við skilum því inn og tölum konuna í afgreiðslunni til, segjum henni að við séum að fara hringinn í kringum heiminn á 200 klukkutímum og 4 klukkutíma bið er það síðasta sem við máttum við. Hún tekur greinilega mark á okkur, segir að við förum fremstir í röðina svo við hlaupum aftur inn í kennslustundina, náum síðustu mínútunni af kennslumyndbandi í fallhlífarstökki og erum svo komnir í loftið nokkrum mínútum seinna. Þegar við erum komnir í óþægilega mikla hæð yfir Honolulu spyr Sveinn hversu hátt við séum yfir eyjunni og fær svarið 5.000 fet. Kennarinn bætir því svo við að við förum upp í 15.000 fet því Sveinn bað óvart um Advanced jump – hæsta mögulega stökk úr flugvél án þess að nota súrefnisgrímu. Ég man ekki alveg hvort ég hafi orðið smeykur á þeim tímapunkti, maður var svo týndur í augnablikinu. Horfandi út um gluggann með fallegasta útsýni sem ég hef séð, en á sama tíma var hurðin á flugvélinni opinn og ég var við það að stökkva út úr henni og taka frjálst fall í heila mínútu. Sem ég gerði. Klikkaðasta upplifun lífs míns. Get ekki útskýrt það betur, þessi eina sekúnda þar sem það er stokkið með þig út og eyjan sem við keyrðum klukkutíma áður var lítill flötur í sjónum í kring. Besta sem ég hef gert.

NÝLEGT