Search
Close this search box.
Snyrtibuddan: Elísabet Gunnars

Snyrtibuddan: Elísabet Gunnars

Geturðu líst þinni daglegu húð og snyrtirútínu? 

Mín daglega rútína er alls ekki nógu mikil rútína og það er eitthvað sem ég þarf að breyta.
Ég mála mig lítið dagsdaglega enda sit ég oftast við tölvuna og þarf ekki að gera mig neitt sérstaklega til fyrir vinnudaginn. Ég set á mig dagkrem alla morgna, baugafela því það er algjört must fyrir þreyttar mömmur sem sofa lítið, og varasalva. 

Þegar ég hef góðan tíma eða þegar ég er að fara eitthvað fínna þá set ég á mig andlitsfarða, púðra smá yfir andlitið, set á mig  kinnalit og maskara. Ég er líka voða dugleg að vera með varalit og finnst mér hann vera mesti galdurinn til að fríska uppá lúkkið.

Semsagt – less is more er kannski mitt mottó í snyrtirútínunni 🙂

Hvaða snyrtivörur ertu alltaf með í veskinu? 

Baugahyljara og varalit. Þessa dagana er það Burts Bees varalitur (SEDONA SANDS) og Mac penni. 

Hvaða húðvörur notarðu?

Ég nota andlitskrem frá Bláa Lóninu daglega. Það vekur mig á morgnanna – dásamlega frískandi og gefur minni húð mikið. Ég set rakakrem á líkamann einstaka sinnum en það er ekkert ákveðið merki í uppáhaldi heldur er ég dugleg að skipta á milli. Mikilvægt á sumrin þegar maður er meira í sólinni og þornar upp. Svo er það auðvitað sólavörnin sem er húðvara sem ég vona að allir noti óspart til að passa húðina. Í fyrra notaði ég frá La Roche-Posay – fannst hún mjög góð.

Sterk lykt af snyrtivörum fæla mig frá, ég reyni að nota án ilmefna og það selur mér enn betur vöruna þegar hún er unnin úr náttúrulegum efnum. Ég set á mig maska nokkuð reglulega.

Prófarðu reglulega nýjar snyrtivörur?

Já, ég geri það. Stundum fæ ég sendar prufur og stundum kaupi ég eitthvað sem aðrir hafa mælt með. Snyrtivörubransinn er mikill frumskógur og ég hef því reynt að velja mér eitthvað sem mér finnst ég geta treyst, ég finn meiri mun á góðum snyrtivörum í dag en ég gerði áður. Þegar húðin eldist þá meðtekur hún öðruvísi. 

Ég reyni að prófa mig áfram og verð líklega einn daginn voðalega fær 🙂 

Hverjar eru uppáhalds snyrtivörurnar þínar?

Mac pennann (prep+prime) hef ég keypt í nokkur ár ásamt Maybelline maskaranum mínum. Þegar kemur að húðinni þá finnst mér allt sem er unnið úr náttúrulegum efnum góðs viti og það verða oft þær vörur sem fara í uppáhalds flokkinn minn.  

Áttu þér uppáhalds merki? 

Bláa Lóns vörurnar mínar eru í uppáhaldi því það eru vörur sem ég kaupi alltaf aftur og aftur – kannski er það líka vegna þess að ég elska að nota og kynna íslenskt þegar ég er búsett erlendis. 


Hvar verslarðu helst snyrtivörur?

Þó ég eigi heima í útlöndum þá kaupi ég flestar mínar snyrtivörur á Íslandi – yfirleitt í Hagkaup þegar það eru TaxFree dagar. Það kemur á óvart að verðið er oftar en ekki betra á klakanum okkar góða.  

Áttu gott ráð til að deila með lesendum H Magasín? 

Fáið ráð í ykkar snyrtivörukaupum, helst frá óháðum sérfræðingum. Snyrtivörur geta oft á tíðum verið dýrar og úrvalið er gríðarlegt, það virðast allir vera með besta kremið. Það er því mikilvægt að reyna að hitta á réttu vörurnar sem henta hverjum og einum. 

Ég er enn að læra á mína húð og er alls enginn sérfræðingur, ég er opinn fyrir því að prufa eitthvað nýtt og síðan eru það alltaf ein og ein vara sem rata í snyttibudduna.

Það hefur verið áramótaheit hjá mér í nokkur ár að huga betur að húðinni. Ég hef með tímanum lært að það er svo mikilvægt en samt virðist ég ekki gefa mér nægilega góðan tíma í verkið.

Höfundur: H Talari/ Elísabet Gunnars

www.trendnet.is 

NÝLEGT