,,STEFNDU AÐ ÞVÍ AÐ GERA DAGINN Í DAG AÐEINS BETRI EN GÆRDAGINN“

,,STEFNDU AÐ ÞVÍ AÐ GERA DAGINN Í DAG AÐEINS BETRI EN GÆRDAGINN“

Höfundur: Beggi Ólafs


Ég sat á kaffihúsi um daginn og velti fyrir mér hvað væri besta og einfaldasta ráð sem ég gæti gefið fólki út frá sálfræðilegu sjónarmiði, burtséð frá aldri þess eða hvar það er statt í lífinu.

Ég komst tiltölulega fljótt að því að langbesta heilræðið sem ég gæti gefið væri að stefna markvisst að því að verða betri í dag en í gær. Þú hugsar eflaust: „Beggi, þú ert ekki að finna upp hjólið hérna.“ Ég er sammála því en leyfðu mér að útskýra fyrir þér af hverju ég hef svona mikla trú á þessu einstaka ráði.

Þegar þú stefnir markvisst að því að gera daginn í dag betri en gærdaginn er afar líklegt að þú bætir þig sem einstakling um leið. Og þegar þú miðar að því að bæta sjálfan þig tekurðu ósjálfsrátt annað fólk inn í myndina, þar sem við erum félagsverur. Því bætirðu fólkið í kringum þig og það gerist líka vegna þess að þú verður fyrir góðum áhrifum af því að sjá að þú hefur bætt þig.

Fjölskylda þín, vinir og jafnvel vinnufélagar verða fyrir góðum áhrifum frá þér og það flyst áfram yfir á fjölskyldur þeirra og vini og þannig smitast þetta áfram. Þannig hefur breytni þín bein jákvæð áhrif á samfélagið í heild sinni og heimurinn færist með því nær því góða og fjær því illa.

Þér finnst ég kannski vera fulldramatískur en mér er full alvara. Sumir falla í þá gryfju að hugsa sem svo að breytni þeirra dags daglega skipti ekki máli. Að þeir séu bara eitt sandkorn af sjö milljörðum og það hafi lítil áhrif hvað þeir geri eða láti ógert. Þá er stutt í þá hugsun að lífið sé tilgangslaust og tómhyggjan taki yfir. En ég tel þetta einfaldlega ekki rétt.

Þú hefur möguleika á því að hafa áhrif á að minnsta kosti þúsund manns í gegnum ævina. Þessir einstaklingar hafa svo möguleika á að hafa áhrif á önnur þúsund og ef sú yrði raunin værirðu aðeins einni manneskju frá einni milljón. Við erum miklu tengdari en við höldum. Við erum samofin í einhvers konar heild og hver einasta eining í þessari heild getur haft áhrif á aðrar einingar innan hennar. Það sem þú gerir dags daglega skiptir miklu meira máli en þú gerir þér grein fyrir.

Það er sannur tilgangur með lífinu og hlutverk þitt er mikilvægt. Hvernig maður byrjar að vinna að því að gera daginn í dag betri en gærdaginn er stór spurning sem engin einföld svör eru við.

Hvað myndi gera daginn þinn aðeins betri en daginn í gær eða aðeins minna slæman? Kannski að knúsa pabba þinn, fara hálftíma fyrr að sofa, skella þér í tuttugu mínútna göngutúr, segja maka þínum hvað þér þykir vænt um hann eða beina athygli þinni að barninu þínu í staðinn fyrir tækinu í hönd þér í aðeins lengri tíma í dag en í gær?

Möguleikarnir eru endalausir. Ef það virkar ekki að stefna að því að gera daginn í dag betri getur þú stefnt að því að gera hann ekki eins slæman og gærdaginn.

Beggi Ólafs

Kafli tekinn úr bók Begga 10 skref í átt að innihaldsríkara lífi

NÝLEGT