Höfundur: Ragga Nagli
Vikan eftir versló er oft ansi þrotuð.
Hausinn er límdur við koddann þegar vekjaraklukkan gargar.
Stírur líma glyrnurnar saman.
Orkan er í tojlettinu.
Nennan er í núlli.
Að fara í ræktina er á pari við að ganga berfættur á Legókubbum. Samviskan segir þér að hunskast en hver einasta fruma líkamans gargar eins og krakki sem fær ekki sleikjó í búðinni.
Þú meikar ekki óþægindi núna. Lækkaðu þá þröskuldinn svo þú labbir örugglega í gegnum dyrnar. Fjandakornið, þú mátt skríða þar í gegn ef þú vilt. Leyfðu þér að lækka þyngdir, taka styttri æfingu, færri sett, færri endurtekningar bara til að æfingin sé yfirstíganleg í hausnum.
Lykillinn að langtímaárangri liggur nefnilega í því að halda sig við efnið dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Það þýðir að stundum mætirðu bara til að haka í boxið. Suma daga mætirðu bara til að halda heilsuvenjunni gangandi. Suma daga þarftu að knúsa „nógu-gott“ hugarfarið.
Eitthvað er alltaf betra en ekkert.
Fimm mínútna æfing er betra en núll mínútur.
Eitt sett af beygjum er betra en núll sett.
Tíu froskahopp eru betra en engin.
Létt bekkpressa er betri en engin.
Þú getur alltaf komið seinna og jarðað æfinguna þegar fítonskraftur flæðir um æðar og blóði smurt á tennur. Suma daga mætirðu með heimsyfirráð í huga og gætir skorið í sundur gler með augnráðinu. Aðra daga þarftu að drattast inn með „nógu-gott“ hugarfarið að vopni, lítill í þér með signar axlir.
Með því að heiðra og búa þig undir allar útgáfur af æfingum heldurðu neistanum á lífi í heilsuvenjunni og mætir þrátt fyrir þrotið…
þannig skapar þú raunverulegan langtímaárangur.
Hér má finna fleiri áhugaverða pistla eftir Röggu Nagla.

