Höfundur: Íris Huld
Hvað er það sem gerist í kollinum á manni á leiðinni yfir Hellisheiðina. Eftir heilsusamlegan vetur er maður mættur í Bónus í Hveragerði og innkaupakerran fyllist allt í einu af óþekktum matvörum og öðrum varnigi sem maður varla getur kallað matvöru hvað þá næringu?
Hva, maður er nú einusinni á leiðinni í sumarfrí!
Ég hef lent í þessu, maðurinn minn þekkir þetta og ég hef heyrt að þetta hafi hent vinkonur mínar. Ætli þetta sér eitthvað Grafarvogs “thing”?!
Mig grunar að það séu einhverjir að tengja þarna úti hvort sem við viðurkennum það eða ekki.
Við höldum að við séum að gera vel við okkur þegar við erum í raun bara að gera ógagn. Ég er ekki að segja að það sé á bannlista að leyfa sér smá en það er óþarfi að setja góðar heilsusamlegar venjur “on hold” þó svo við séum á leiðinni í frí. Venjur sem þú hefur lagt mikið á þig að temja þér.
Hér eru nokkrar tillögur hvernig hægt er að njóta sumarfrísins, matar og drykkjar án þess að vera komin á byrjunarreit í haust með nagandi samviskubit:
Skipuleggðu innkaupin fyrirfram
Hafðu innkaupalista við höndina áður en þú þú ferð að raða í körfuna og versla fyrir fríið.
Eða enn betra, verslaðu á netinu eftir innkaupalistanum og fáðu sent heim. Á netinu þarftu ekki að ganga framhjá snakki og sælgætisrekkanum og berjast við freistingarnar.
Haltu góðri rútínu en sýndu sveigjanleika
Taktu ákvörðun um að hreyfa á þér koppinn áður en þú hendir þér í sólstólinn eða sófann með góða bók. En leyfðu þér nú samt að sofa lengur en vanalega. Aukinn svefn er líka bara af hinu góða.
Gerðu grillið hollt en heillandi
Veldu eða útbúðu hollari sósur með matnum. Gríptu gott salat og skreyttu það með ávöxtum og gefðu því sumarlegan blæ. Hollt þarf ekki að þýða leiðinlegt.
Hreyfðu þig úti
Finndu spennandi göngu- eða hjólaleiðir í nánd við áfangastaði þína. Mundu eftir hlaupaskóm, gönguskóm og léttum æfingatækjum sem nú leynast víða í bílskúrum landsmanna. Það er margt hægt að gera með teygjum og TRX böndum.
Sýnum börnum fyrirmynd og okkar fallega land
Ef börn eru með í för og þig langar að gera útivistina aðlaðandi þá þarf stundum að grípa til aðgerða. Gott er að nýta tæknina t.d. Wapp (gönguapp) og skipuleggja nestispásur eftir GPS punktum á gönguleiðinni. Það virkar ansi hvetjandi á litla liðið og kemur þeim í léttum leik á leiðarenda.
Sumarlegir eftirréttir
Grinilegt ávaxtasalat er tilvalið í stað þess að detta alfarið í Hraunkassann og klassíski grænmetisbakkinn með ídýfunni í skiptum fyrir snakkpokann. Þetta þarf ekki að vera flókið.
Sumarið er dásamlegur tími svo ekki gleyma að njóta.
Sjáumst glöð í bragði í ræktinni í haust!
Íris Huld er íþróttafræðingur og hefur lokið námi í markþjálfun, bæði heilsumarkþjálfun frá IIN (Institute for integrative nutrition) og stjórnendamarkþjálfun frá HR.
Íris Huld býður upp á heilsumakrþjálfun Lífsmarks í húsnæði Primal Iceland í Faxafeni 12.
Fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Írisi gegnum netfangið iris@primal.is.