Sveitastelpan að norðan sem fann sig í faðmi Vestfirsku fjallanna

Sveitastelpan að norðan sem fann sig í faðmi Vestfirsku fjallanna

Á undanförnum tíu árum hefur Inga Fanney Sigurðardóttir byggt upp sitt eigið vörumerki og boðið upp á hlaupaferðamennsku hér á landi ásamt ferðum á Grænlandi og Færeyjum. Þá hefur hún samhliða því starfað í skútubransanum með Aurora Arktika á Ísafirði. Hún lýsir sjálfri sér sem mikilli fjallageit, móður, ævintýrakonu og frumkvöðli og á að baki einstaka reynslu þegar kemur að útivist, hlaupum, fjallaferðum og heilsutengdum túrisma.

Það er því ekki úr vegi að fá að kynnast þessari mögnuðu konu betur og fengum við hana því til þess að svara örfáum spurningum um sjálfa sig.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?

Brasa með börnunum mínum. Ég elska að útivistast með börnunum mínum, kenna þeim nýja hluti og uppgötva nýja hluti saman. Til dæmis fórum við öll saman á brimbrettanámskeið um daginn. En hversdagslega njótum við útiverunnar saman á skíðum, í hjólatúrum, förum í útilegur og skútulegur, hlaupakeppnir og veiðiferðir.

Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þig?

Fyrir mig virkar best að hafa gott jafnvægi í lífinu, milli vinnu, svefns og leiks. Það er
að hugsa vel um líkamann (æfa en ekki ofgera), borða fjölbreyttan mat, næra sálina, gefa sjálfum sér nægan svefn og útiloka þætti sem hafa neikvæð áhrif á lífið.

Nefndu þrennt sem nærir þig andlega?

Hlaup, sigla undir seglum og himbrimasöngur

Uppáhalds matur og uppáhalds skyndibiti?

Brakandi ferskt salat. Ég er lítið í skyndibitanum…

Varstu sjálf mikið í íþróttum sem barn?

Nei því miður. Ég ólst upp á sveitabæ þar sem var frekar langt að sækja íþróttaæfingar og ég hafði því ekki tækifæri til þess. Ég var aldrei neitt í íþróttum fyrr en ég byrjaði að hlaupa 2011 en var mikið í fjallgöngum fram að því.

Uppáhalds árstími?

Vor, þegar náttúran er að vakna eftir vetrardvala og allir fuglarnir að hreiðra um sig. En líka haust, þegar náttúran er sem litríkust og veðrið getur verið alls konar.

Skíði eða snjóbretti?

Skíði! Helst fjalla eða göngu

Uppáhalds hreyfing?

Fjallahlaup

Fjall eða sjór?

Bæði! Ég ólst upp á sveitabæ í Eyjafirði, hátt uppí Kötlufjalli, með útsýni yfir mestallan Eyjafjörð, þangað sem við sóttum sjóinn. Þess vegna eru hlaupaskútuferðir svo fullkomnar fyrir fólk eins og mig, ég hleyp upp og yfir fjöll og niður hinum megin til skútunnar.

Hvað myndir þú ráðleggja fólki sem er að taka sín fyrstu skref í skíðamennsku?

Njótið!

Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?

Ég hugleiði heima og úti. Ég fæ útrás fyrir íþyngjandi hugsanir með því að taka almennilega á því, fara út að hlaupa til dæmis.

Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana?

Ég get ómögulega svarað þessu án þess að vera að gera upp á milli áskorana en ég skal glöð deila með ykkur ýmsum uppákomum í framtíðinni… Það var vissulega áskorun þegar ég fékk Rob Krar sem gest í fyrstu hlaupaferð sumarsins eitt árið, en það var 2-3 mánuðum eftir
að ég hafði rifið liðbönd á báðum hnjám og liðþófa á fjallaskíðum. Ég fór strax á fullt sjúkraþjálfun og styrktaræfingar eftir slysið og hamaðist við að koma mér í lag. Ég veit ekki ennþá hvernig ég hélt í við hann en ætli við höfum ekki hlaupið að meðaltali svona 35km á dag í sex daga.

Hver væri titill ævisögu þinnar?

Mind of Runner

Podcast eða bók?

Bók

Kaffi eða te?

Kaffi

Síðasta sem þú gerir fyrir svefninn?

Þakka fyrir daginn og leyfi mér að hlakka til fyrsta kaffibolla næsta dags

Hvar sérðu þig eftir 5 ár?

á Ísafirði, með fullt af lífi í kringum mig og nóg að brasa

Eitthvað að lokum?

Já, ég hef prófað margt nýtt á “fullorðinsaldri”, margt sem hefði aldrei hvarflað að mér að ég gæti. Mig langar til að hvetja alla sem langar til að prófa eitthvað en eru smeykir, að kýla á það. Ef þið eruð alltaf að hlaupa á malbiki og hugsið að það væri nú gaman að hlaupa upp á fjöll en haldið að þið séuð ekki tilbúin, þá er eina vitið að prófa.

Við þökkum Ingu Fanney kærlega fyrir og óskum henni góðs gengis í ævintýrunum framundan.

NÝLEGT