Svikahrapps heilkennið, við erum okkar versti óvinur.

Svikahrapps heilkennið, við erum okkar versti óvinur.

Þú færð stöðuhækkun. Þú átt að halda kynningu í vinnunni. Þér er boðið að vera með erindi á ráðstefnu….

Lamandi kvíði hríslast um taugakerfið. Nonni niðurrif byrjar að garga í hausnum.

„Þú getur þetta ekki.“

„Þetta verður ekki nógu gott hjá þér.“

„Þú klúðrar þessu.“

„Núna kemst upp um mig.“

„Nú verð ég afhjúpuð sem brandari ársins.“

„Núna átta þau sig á því að ég veit ekki neitt.“

Núna finna þau að ég er ekki nógu klár. Ekki nógu vel að mér. Ekki nógu sniðug.

Ég er falsari. Ég er kóni. Svikahrappur. Loddari. Blekkingameistari. Sjónhverfingamaður.

Verð tjargaður og fiðraður á torgum.

Fæ hæðnisbréf frá Hagstofunni.

Nú þarf ég að taka andvökunætur og undirbúa mig svo enginn geti hankað mig á neinu. Svo ég haldi grímunni uppi. Svo enginn komist að vanhæfninni.

Eigin velgengni er yfirleitt skrifuð á einskæra heppni, góða tímasetningu og jafnvel misskilning.

Þeir eiga þessa velgengni engan vegin skilið.

Að fá atvinnutilboð hlýtur að þýðir að fáir aðrir sóttu um.

Tíu á prófi þýðir að prófið var mjög létt.

Velgengni annarra hinsvegar álitin afleiðing af stórkostlegum gáfum, hæfileikum, dugnaði og elju. Eigin mistök eru hinsvegar lóðrétt afleiðing af leti, aumingjagangi, heimsku og kæruleysi.

Ekki nógu samviskusamur.

Ekki nógu duglegur.

Ekki nógu gáfaður.

Ekki nógu undirbúinn.

Hrós eru tilraun annarra til að vera aumingjagóðir.

Meðaumkun. Vorkunn þeirra til þín fyrir að vera svona glataður.

Þú gerir lítið úr öllu hrósi.

Labbaði á Kilimanjaro…. æi það var fullt af gömlu fólki líka á fjallinu.

Þessi ræða var nú svosem ekki mín besta. Ég hikaði of oft.

Finnst þér ég líta vel út?? Æi ég svaf nú ekki vel í nótt.

Gagnrýni er hinsvegar staðfesting á hörmunginni sem þú ert sem mannskepna. 70% af fólki hefur upplifað svikahrappssyndróm eða loddaralíðan á einhverjum tímapunkti. Syndromið spyr ekki um stétt né stöðu, kyn né aldur.

Tilfinningarnar sem sósast um skrokkinn alla daga í tengslum við svikahrappsheilkennið Skömm. Sjálfstraust í molum. Sreita. Kvíði. Kulnun. Depurð.

Það takmarkar þig í að sækjast eftir tækifærum eða næra áhugasviðin.

Því þú ert auðvitað ekki nógu góður fyrir nokkurn skapaðan hlut

Til að komast yfir svikahrappsheilkennið.

Virkjaðu rökhugsunina og spurðu sjálfan þig á hvort þú værir að njóta velgengni í starfi, frama, eða vinskap fyrir einskæra tilviljun.

Myndirðu segja vinkonu þinni að hún væri gjörsneydd öllum hæfileikum, eiginleikum og styrkleikum og tækifæri í hennar lífii megi skrifa á hreinræktaða heppni. Talaðu þá eins við sjálfan þig.

Skrifaðu niður 5-10 hluti sem þú hefur afrekað og fylla þig stolti og lestu yfir daglega.

Skrifaðu niður hvað þér hefur verið hrósað fyrir og lestu yfir daglega.

Normaliseraðu tilfinningarnar með að segja þær upphátt.

Hafðu gott stuðningsnet og taktu upp tólið á vini og vandamenn og segðu þeim þegar þinn innri loddari er að garga bull og vitleysu.Þeir ættu að geta hrist hann af þér og minnt þig á að þú hefur hæfileika, eiginleika og styrkleika sem hafa stuðlað að þinni velgengni.

NÝLEGT