Svona tryggir þú langlífi við góða heilsu, samkvæmt nýlegri rannsókn

Svona tryggir þú langlífi við góða heilsu, samkvæmt nýlegri rannsókn

Á undanförnum árum og áratugum hefur hver rannsóknin á fætur annarri leitt í ljós mikilvægi þess að lifa heilsusamlegu lífi til þess að tryggja vellíðan, langlífi og minnka líkurnar á alvarlegum sjúkdómum. Skoðanir fólks um það sem telst heilsusamlegt líferni geta hins vegar verið mismunandi og þá eru margir sem e.t.v. huga lítið að heilsunni, hvort sem það er meðvituð eða ómeðvituð ákvörðun. Samkvæmt nýlegri rannsókn ættu hins vegar nokkrir lykilþættir að vera okkur ofarlega í huga, ef við viljum auka líkur okkar á langlífi við góða heilsu.

Rannsóknin, sem unnin var við Harvard háskólann í Bandaríkjunum og náði til 73.000 kvenna og 40.000 karla yfir 20 ára tímabil, sýndi fram á hvernig samspil þess að borða holla fæðu, hreyfa sig, halda sér í kjörþyngd, sleppa reykingum og drekka hóflega, getur aukið lífslíkur sem og haldið alvarlegum sjúkdómum í skefjum. Höfundar rannsóknarinnar vildu þannig veita því athygli hvernig allir þessir þættir vinna saman að því að auka bæði líkurnar á langlífi sem og draga úr líkum á alvarlegum sjúkdómum eins og krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki.

Hvaða þættir skipta mestu máli?

Eins og áður kom fram voru eftirfarandi þættir hafðir til hliðsjónar hjá þátttakendum:

  • Höfðu aldri reykt
  • Hreyfðu sig að lágmarki í 30 mínútur á dag
  • Drukku áfengi í hófi
  • Voru í hæfilegri kjörþyngd (BMI stuðull undir 25)
  • Borðuðu tiltölulega holla fæðu

Niðurstöðurnar sýndu að bæði konur og karlar sem fylgdu a.m.k fjórum af ofangreindum fimm þáttum, lifðu í um 7-10 ár lengur án krabbameins, laus við hjartasjúkdóma og sykursýki, samanborið við þá sem fylgdu ekki ofangreindum þáttum. Miðað var við 50 ára aldur þátttakenda og voru þeir allir lausir við sjúkdómana þegar rannsóknin hófst.

Niðurstöðurnar sýndu einnig að ef fólk vill fylgja einhverjum af þessum þáttum þá leiddi rannsóknin í ljós að þeir sem reyktu 15 eða fleiri sígarettur á dag, sem og þeir sem voru yfir kjörþyngd (BMI 30 eða hærra) áttu á mestri hættu á því að þjást af einhverjum af þremur áður nefndum sjúkdómum. Mikilvægi þess að halda sér í kjörþyngd og sleppa reykingum, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, skiptir því höfuðmáli.

Matarræðið einnig stór þáttur

Sérfræðingar sem vefurinn Healthline ræddi við, tengt niðurstöðum rannsóknarinnar, töldu einnig að matarræðið sé mjög mikilvægur þáttur, sérstaklega þegar kemur að sykursýki, blóðþrýsting og almennri hjartaheilsu. Sérstaklega var nefnd fæða sem inniheldur trefjar, til dæmis heilkorn, ávextir og grænmeti. Sömuleiðis var komið inn á mikilvægi þess að draga úr fæðu sem inniheldur hátt sykur- og salt magn, s.s. einföld kolvetni, ruslfæði og þar fram eftir götunum. Með góðu matarræði sé þannig hægt að draga úr líkum á ofþyngd, sem dregur aftur úr líkum á sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum.

Þessi grein byggir á áður útefnu efni:

http://press.psprings.co.uk/bmj/january/healthylifestyle.pdf

https://www.healthline.com/health-news/healthy-habits-add-a-decade-to-your-life

NÝLEGT