Sykurlausir kanilsnúðar

Sykurlausir kanilsnúðar

Höfundur: Ragga nagli

Eru ekki allir komnir með ógeð af bananabrauði?
Upp í kok af því að vökva súrdeigið í ísskápnum?

Hvernig væri þá að skella í sykurlausa kanilsnúða sem eru margfalt betri en dísæta bakarísstöffið. Betri næring fyrir skrokkinn og algjört gúrmeti fyrir bragðlaukana.

Innihald

  • 3 dl ósætuð möndlumjólk (t.d Isola)
  • 50g kókosolía (t.d Himnesk hollusta)
  • 20g ger
  • 1/2 tsk kardimommuduft eða dropar
  • 1 egg
  • 1/2 dl sykurlaust síróp (t.d Good Good)
  • klípa Lífsalt
  • 100g haframjöl (mala niður í púður í blandara/matvinnsluvél)
  • 200g kókoshnetuhveiti

Kanilkrem

  • 1 dl sykurlaust síróp (má líka nota 120g döðlur)
  • 50g möndlur
  • 25g kókosolía
  • 2 tsk kanill

Aðferð

Hita ofn í 180°

Hita mjólk og kókosolíu saman þar til volgt

Leystu gerið upp.

Blanda vel saman möluðu haframjöli, sírópi, kardimommum, egg og salti og uppleystu gerinu ásamt vökvanum.

Láttu hefast í 30 mínútur.

Á meðan geturðu klístrað saman kanilgúrmetinu.
Hakkaðu möndlurnar
Blandaðu síðan öllu saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til komin gott klístrað kanilkrem.

Rúllaðu deiginu út í 30*40 cm ferhyrning.
Löðraðu kanilkreminu yfir og rúlla saman.
Skerðu svo 2-3 cm stóra snúða, c.a 12-15 stk
Penslaðu eggi yfir og baka í 12-15 mínútur.

Náðu svo í glas af ískaldri mjólk og gúffaðu þessum unaði í ginið í gæðastund og fullkominni núvitund.

Þessa má eiga í frysti og eina sem þarf að gera er að kippa út og þrykkja í örrann fyrir sykurlaust gúrmeti.

NÝLEGT