,,Það er alltaf lærdómur í öllum áskorunum og tækifæri til að vaxa“ Sara Barðdal á persónulegum nótum.

,,Það er alltaf lærdómur í öllum áskorunum og tækifæri til að vaxa“ Sara Barðdal á persónulegum nótum.

Sara Barðdal er einkaþjálfari, heilsumarkþjálfi, viðskiptafræðingur og eigandii HIITFIT. Auk þess er hún gift Hákoni Víði og saman eiga þau synina Alexander Úlfar og Balstasar Mána. Sara stofnaði HIITFIT með það markmið í huga að allir hafi tækifæri á að upplifa þá vellíðan og kraft sem fylgir hreyfingu og að sinna heilsunni. Hennar mottó er  heilbrigð sál í heilbrigðum líkama. Sara er nýr pistlahöfundur á H Magasín. Við fengum hana í skemmtilegt viðtal á dögunum þar sem hún deilir með okkur svörum á persónulegu nótunum.

Hvaða menntun hefur þú og við hvað starfar þú í dag?

Ég kláraði B.S í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og byrjaði að vinna í banka. Lífið hafði síðan önnur plön fyrir mig og ég svissaði alveg yfir í heilsudeildina, tók heilsumarkþjálfun frá Institute of Integrative Nutrition og síðan ÍAK einkaþjálfarann. Síðastliðin ár hef ég síðan sökkt mér ofaní efni tengt hugarfarinu, hegðunarbreytingum, hamingju og vellíðan. Farið á fjölmargar ráðstefnur, sótt námskeið og lesið mikið. Ég tel gríðarlega mikilvægt að vera sífellt að læra eitthvað nýtt og dýpka þekkingu mína á efni sem tengist andlegri og líkamlegri heilsu, en ég starfa við að hjálpa konum að breyta um lífsstíl og líða betur, andlega og líkamlega. Í dag vinn ég alfarið við að skapa efni, hugaræfingar, hugleiðslur, fræðslu, uppskriftir, æfingar og fleira sem konurnar í Valkyrjusamfélaginu fá aðgang að. Ég elska að hvetja og hjálpa konum ná fram jákvæðum breytingum í sínu lífi og vinn ásamt teyminu mínu í HIITFIT við að styðja okkar skjólstæðinga.

Núna nýleg tók ég síðan YIN fascia yoga nám og stefni á að klára 200 einingar í jógakennaranámi sem snýr m.a að taugakerfinu, úrvinnslu úr áföllum úr líkamanum og streitu.

Sara ásamt sonum sínum tveimur

Hver er uppáhalds hreyfingin þín?

Ég hef tekið eftir því að maður fer í gegnum tímabil. Í 7 á hef ég stundað heimaæfingar, sem færði mér hugmyndina að HIITFIT. Síðan fyrir 2-3 árum byrjaði ég að æfa Crossfit á fullu og elskaði það, tók síðan pásu frá því og byrjaði að hlaupa og hjóla mikið. Núna finn ég köllun í meira yoga. Ég elska einnig að dansa, synda og fara í göngutúra. Þannig það má segja að ég elski flest alla hreyfingu, en það sem ég reyni að gera núna er að hlusta á þarfir mínar útfrá aðstæðum og fylgja þeim eftir.

Ég hef lært að það er gott að taka mið af því hvað er að gerast í lífinu á hverjum tímapunkti fyrir sig. Ef maður er undir mikilli streitu og það er margt að gerast í lífinu, þá er oft betra að fókusa á göngutúra og yoga t.d, eitthvað sem minnkar álagið á líkamann og styður við meira jafnvægi.

Hver er þinn bakgrunnur í íþróttum?

Ég var alltaf aktíf á yngri árum og í íþróttum sem barn eins og frjálsum, körfubolta og fimleikum. Einnig synti ég mikið með ömmu minni. Síðan þegar ég varð unglingur varð þetta eitthvað gloppóttara og ég byrjaði og hætti í ræktinni reglulega. Það var ekki fyrr en ég uppgötvaði HIIT (e. High intensity interval trainig) heimaæfingarnar þegar ég var 25 ára að ég náði að setja hreyfinguni inní lífsstílinn og horfi núna á hana sem sjálfsagðan hlut af rútínunni, eins og að tannbursta.

Hverjir eru grunnþættir góðrar heilsu að þínu mati?

Eins og hefur kannski komið fram hér að ofan þá skiptir andleg heilsa gríðarlega miklu máli. Heilsa er ekki bara líkamleg og þú getur verið að „checka“ í öll boxin þegar kemur að hreyfingu og mataræði, en ef þú ert í vítahring sjálfshaturs, niðurrifs, kvíða og vanlíðan, þá er erfitt að upplifa sig sem heilbirgða manneskju. Hamingja, gleði og vellíðan eru stór partur af góðri heilsu og mínu mati. Síðan er það ákveðnar þumalputtreglur sem koma þér mjög langt, eins og góður svefn, fjölbreyttur og heilbrigður matur, regluleg hreyfing, muna eftir vatninu, ekki sitja of lengi, minnka sykurinn, núvitund og djúp öndun reglulega yfir daginn, jákvæðni, góð tengsl og samskipti. Þetta mundi ég segja að væri góður grunnur sem styður við heilsuna þína.

Hvað viltu ráðleggja fólki sem er alltaf að koma sér af stað en dettur svo úr lestinni?

Að byrja á hugarfarinu. Ég var einu sinni alltaf að byrja og hætta og það gerðist ekkert fyrr en ég fór að breyta sjálfstalinu, hugsununum og hvernig ég horfði á heilbrigðan lífsstíl. Þess vegna er hugarvinnan risa stór partur í öllu sem við gerum hjá HIITFIT og í Valkyrjunum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Sjálfsrækt! Allt sem tengist andlegri og líkamlegri heilsu og uppbyggingu. Ég er hálfgert nörd þegar kemur að því að pæla í hvernig maður getur upplifað sitt draumlíf, verið hamingjusamur og náð markmiðnum sínum og gæti líklega talað um það allan daginn. Þetta er risa áhugamál, því þarna kemur inn svo margt, eins og samskipti, mannleg hegðun, tilfinningavinna, hugleiðsla, hreyfing, mataræði, sjálfstal, skipulagning og áfram mætti telja.

Þetta er í rauninni áhugamál og lífsstíll, eitthvað sem á risastóran sess í lífinu, þar sem ég er svo heppin að vinna við þetta líka. 🙂

En svo hef ég líka gaman af útivist, samveru með góðu fólki, tónlist, dansi og ferðalögum.

Hugleiðsla er einn mikilvægur þáttur í andlegri heilsu

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?

Lenda í ævintýrum og upplifa nýja hluti. Ég elska að stíga út fyrir þægindaramman og prófa eitthvað nýtt. Að ferðast gefur mér rosalega mikið, en ég bjó í Danmörku í 5 ár og við vorum mjög dugleg að ferðast. Það jafnast ekkert á við tilfinninguna að stíga uppí bíl, keyra í gegnum Evrópu, sjá nýjar borgir og upplifa aðra menningu.

Einnig finnst mér geggjað að fara á ráðstefnur og námskeið þar sem ég er að stunda mitt aðal áhugamál, læra eitthvað nýtt og gera sjálfsvinnuna. En síðustu ár hef ég farið á ráðstefnur með Tony Robbins, Brendon Burchard og Dean Graziosi svo eitthvað sé nefnt, ásamt því að fara á hugleiðslu retriet á Indlandi. Þessi ferðalög gefa mér mjög mikið og ég fæ bara spenning í magan við að rifja þetta upp.

Ég elska líka að skapa nýja hluti og láta hugmyndir verða að veruleika. Að brainstorma með góðu fólki og setja góðar hugmyndir í framkvæmd er hrikalega skemmtilegt!

Hver er ein stærsta áskorun sem þú hefur staðið frammi fyrir og hvernig tókst þér að yfirstíga það?

Vá þetta er stór spurning. Ég hef staðið frammi fyrir mörgum áskorunum síðustu ár, m.a missir á ástvinum, að vera ekki fylgin sjálfri mér og standa ekki við gefin loforð, áskoranir í samskiptum og samböndum og ýmis mál sem hafa komið upp, eins og hjá flestum.

Það sem hefur hjálpað mér lang mest í gegnum allt saman er hugarfarið. Ég hef þá lífssýn að það sé ástæða fyrir öllu og allt sem kemur uppá í okkar lífi sé lærdómur og karma. Eitthvað sem ég átti að fara í gegnum og læra af og meira að segja stundum eitthvað sem ég hef skapað sjálf, meðvitað eða ómeðvitað. Með því að taka fulla ábyrgð á áskorunum sem koma upp í lífinu mínu er ég í betri stöðu til að tækla og komast í gegnum þær. Það er nefnilega erfitt að komast í gegnum áskoranir þegar maður er fastur í fórnarlambshlutverkinu. Ég horfi stundum á lífið sem eitt stórt leikrit og við erum leikararnir. Hvernig við leikum okkar hlutverk er algjörlega uppá okkur komið. Við erum nefnilega kröftugri og sterkari en við höldum og hugsanir okkar hafa sköpunarkraft. Það að muna hver ég er í grunninn hefur hjálpað mér gríðarlega, að við séum meira en þessir líkamar og hlutverkin okkar, að við séum meðvitund sem deyr aldrei, sálir sem eru tengdar einhverju stærra. 

Hvað óttastu mest?

Að upplifa eftirsjá, að horfa til baka og finnast ég ekki hafa lifað lífinu sönn sjálfri mér, ekki fylgt draumunum mínum eftir, ekki þorað, ekki elskað, ekki framkvæmt, ekki lifað, ekki notið. Það er versta tilhugsunin. 

Hvernig væri drauma dagurinn fyrir þig?

Ú stór og spennandi spurning, ég elska svona pælingar. Það eru klárlega nokkrar útgáfur af honum, færi eftir því hvort það sé vikudagur eða helgi, vetur eða sumar og hvort ég væri á Íslandi eða erlendis. En ef við málum einn venjulegan virkan dag á Íslandi mundi hann líklega hljóma eitthvað á eftirfarandi hátt:

Ég mundi vakna á undan öllum og eiga huggulega morgunstund með sjálfri mér. Þar sem ég mundi fá mér hollan og góðan morgunmat, hlusta á eitthvað hvetjandi og taka síðan hugleiðslu til að stilla mig inná góðan dag. Síðan mundi ég græja strákana mína í skólann og fara og hreyfa mig. Síðan mundi ég kíkja á gott kaffihús og vinna, skrifa og skapa efni. Í hádeginu mundi ég síðan fá mér hádegismat með kallinum eða góðri vinkonu og jafnvel göngutúr eða einhverskonar hreyfingu eftirá. Eftir hádegi væri ég síðan að skapa og vinna að einhverju spennandi verkefni með öðru fólki, brainstorma og láta hugmyndir verða að veruleika. Vinnudagurinn einkennist af gleði, spenningi og jafnvægi. Eftir vinnudaginn myndum við fjölskyldan síðan gera eitthvað skemmtilegt saman, fara í sund, hjólatúr eða einhverskonar útiveru og enda síðan kvöldið út að borða á einhverjum rosalega góðum (og hollum) stað. Um kvöldið færi ég síðan í yoga, cacao, slökun eða að hitta vinkonur, eitthvað sem nærir mig. Í gegnum daginn finn ég fyrir hamingju og vissu um að ég sé að fylgja því sem ég á að vera gera í þessu lífi. Ég upplifi friðsæld, sjálfsöryggi og á sama tíma mikla gleði. Ég er spennt fyrir öllum verkefnunum sem ég tek mér fyrir hendur og finn fyrir miklum tilgangi, stolti og innri styrk.

Mikilvægt er að láta fylgja svona skrifum hvernig manni vill líða. Hvernig maður vill upplifa þessa draumadaga, því það er alveg hægt að fara í gegnum svona dag annarshugar, með áhyggjur eða bara til að „checka af“ í boxin. Ég gerði svona draumadag fyrir mörgum árum og nokkrum árum seinna var ég komin á þann stað, þannig þetta virkar. En ég gleymdi að hugsa útí hvernig líðan átti að vera og ég komst að því að það er sama á hvaða stað þú kemst, það breytist ekkert innra með þér nema þú hugir að því að næra andlegu hliðina og innri veruleika þinn. Það er alveg hægt að gráta í Teslu. Sumir festast í því að elta veraldleg gæði og halda að það muni færa þeim hamingju, en ég trúi því að þá sé fólk að leita á röngum stað. Hamingjan og allar þessar góðu tilfinningar búa innra með þér í dag, það er bara spurning um að finna þær og vinna með allt draslið sem við höfum pikkað upp síðan við vorum börn. Þannig getum við fundið fyrir kjarnanum okkar, sem er friður, kærleikur og hamingja. Ég mæli með fyrir alla að gera svona draumadagsæfingu, en hvet fólk til þess að skoða vel og vandlega hvort draumurinn sé eitthvað sem muni virkilega gefa þeim þessa innri fyllingu sem allir leitast að, eða hvort þetta sé bara enn eitt markmiðið til að „checka af“ listanum.

Hreyfing er stór hluti af lífi Söru

Hvað kanntu helst að meta í fari fólks?

Umhyggju, kærleik og hjálpsemi. Þegar ég bjó í Danmörku þá kynntist ég mörgum stelpum frá Suður Ameríku og þær urðu góðar vinkonur mínar. Mér fannst svo frábært hvað einkenndi þær mikil umhyggja fyrir náunganum og hvað þær sýndu mér mikla hlýju og hjálpsemi. Þegar maður býr erlendis verða vinir þínir eins og fjölskylda og það er svo mikilvægt að hafa einhverja að sem fylla uppí skarðið þegar maður hefur ekki sitt nánasta tengslanet. Þessar stelpur kenndu mér svo mikið og þetta er eitt af því sem stendur mest uppúr og ég kann ótrúlega mikið að meta.

Hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?

Þetta er risa stór partur af mínu daglega lífi, því ég veit að ef ég er ekki á góðum stað þá get ég ekki verið almennilega til staðar fyrir aðra. Þar sem ég vinn við að hjálpa og styðja við aðra er þetta gríðarlega mikilvægt. Einnig sem móðir finnst mér skipta öllu máli að mæta sem góð fyrirmynd og geta gefið sonum mínum alla mínu bestu eiginleika. Ég hef unnið í mörg ár við að sjá það jákvæða í fari annarra og aðstæðum. Að sjá lausnir og vera bjartsýn er eitthvað sem hefur hjálpað mér rosalega mikið. Að vera með opið hugarfar en ekki lokað (growt mindset vs. fixed mindset). Tólin sem ég nota til að styðja við andlegu hliðina er hreyfing, hugleiðsla og almennar heilbrigðar venjur. Síðan er ég alltaf að læra eitthvað nýtt, hlusta á efni sem dýpkar þekkingu mína á andlegum efnum. Ég er mikið að taka námskeið frá Mindvalley sem er algjör snilld. Hlusta á podköst, hljóðbækur og lesa eitthvað uppbyggilegt. Síðan er mikilvægt að gera það sem veitir gleði, hitta fólk, sinna áhugamálum og fara útí náttúruna sem dæmi.

Hvað er dýrmætast í lífinu?

Kærleikurinn! Að vinna útfrá kærleika, að eiga samskipti útfrá kærleika, að gefa kærleika, að veita sjálfum sér kærleika. Þetta er það dýrmætasta og gefur langmest til allra í kringum þig og til þín.  

Lifir þú eftir einhverju mottói?

Hmmm, já í raun alveg nokkrum. Maður setur sér ákveðin viðmið sem styðja við eigin farsæld og vellíðan og svo reyni ég að fylgja þeim. Eins og t.d.

Hugsaðu vel um líkama og sál. 

Þú skiptir máli og þú ert nóg.

Það er alltaf lærdómur í öllum áskorunum og tækifæri til að vaxa.

Líkaminn þinn leitast við að vera heilbrigður og það er þitt hlutverk að styðja við hann og skapa það umhverfi.

Þú hefur alltaf val.

Þú ert sterk og kemst í gegnum hvað sem er.

Þú ert örugg og það verður alltaf allt í lagi.

Veit ekki hvort þetta kallist „mottó“ en ég hef skapað mér alls konar jákvæðar staðhæfingar sem styðja við mig í lífinu.

Áttu þér fyrirmyndir í lífinu?

Já báðir foreldrar mínir hafa gefið mér ótrúlega mikið, en þau eru bæði látin í dag.

Fjölskyldan mín hefur haft mest mótandi áhrif á mig og mína sýn á lífið. Mér finnst ég hafa verið með svo marga snillinga í kringum mig sem hafa gefið mér mismunandi gjafir inní lífið. Afi kom með Dale Carnegie til landsins hérna fyrir mörgum árum og ég lærði því mikið um mannleg samskipti og hugarfar sem barn. Afi, amma og frændi minn hafa verið miklar fyrirmyndir þegar kemur að því að fylgja draumunum sínum og láta hluti verða að veruleika. Stjúppabbi minn sýndi mér mikla umhyggju og dekraði mig mikið. Pabbi kom síðan sterkur inn síðustu ár sem andleg fyrirmynd og gaf mér dýpri skilning á lífinu. Mamma gaf mér síðan mikilvægustu gjöfina, en hún umvaf mig kærleika og ást þegar ég var að alast upp, sem skiptir svo rosalega miklu máli og er gjöf sem heldur áfram að gefa. Allir hafa því sinn sess í að vera fyrirmyndir á mismunandi sviðum lífsins. Síðan eru margir einstaklingar að gera góða hluti þarna úti, en því eldri sem ég verð því skýrari sé ég að við erum öll bara mannleg, og þó svo að einhver sé að skara framúr á einu sviði í lífinu þá getur viðkomandi verið með allt niður um sig á öðru sviði. Það er því engin ein manneskja sem ég get sagt að sé „fullkomin fyrirmynd“ í öllu. Held það sé líka ekkert endilega málið að stefna að fullkomleika og líklega óraunhæft markmið. 

Sara ásamt Baltasar Mána

Hvað ertu að lesa þessa dagana og getur þú nefnt bók sem hafði sérstök áhrif á þig?

Vá svo margar góðar bækur sem hafa gefið mér mikið, það sem mér dettur í hug er The power of now, High performance habits, Becoming supernatural, The code of the extaordinary, Girl wash you face, Rich dad Poor dad. Ég er byrjuð á Spirit Hacking sem lofaði góðu og svo var ég að kaupa mér nýju bókina, Heilsubók Jóhönnu, eiturefnin og plastið í daglegu lífi okkar, sem ég er spennt að sökkva mér í.

Hvað er spennandi framundan hjá þér?

Jii alltaf eitthvað spennandi! Þetta hefur verið mjög viðburðaríkt ár hjá mér og þó svo að ég hafi flutt til Íslands í sumar þá er ég í rauninni að lenda í fyrsta skipti núna og get loksins komið mér fyrir. Ég ætla því að nota restina af árinu til að hlúa svolítið að mér og fjölskyldunni, ég missti pabba minn fyrir stuttu, þannig þetta hafa verið erfiðir mánuðir.

Við hjá HIITFIT erum alltaf að vinna að því að byggja upp heilsusamfélagið okkar sem við köllum Valkyrjurnar, þróa og skapa nýtt efni, næra og hvetja samfélagið. Við erum reglulega með vinnustofur, LIVE viðburði á netinu, áskoranir og ýmislegt skemmtilegt. Við munum halda því áfram og stefnum einnig á að kynna spennandi nýjungar á næstu mánuðum, eins og yoga. Nýlega bættum við við dansi og við erum alltaf að pæla og brainstorma hvað geti stutt við konurnar sem eru hjá okkur. Ég er síðan með margar hugmyndir að nýjum verkefnum sem mig langar að hrinda í framkvæmt á næsta ári og er alltaf með augun opin fyrir nýjum tækifærum. Ég treysti því að réttu verkefnin munu lenda á borðinu hjá mér.

Hvaða 5 hluti áttu alltaf í ísskápnum?

Haframjólk, egg, spínat eða eitthvað grænt, gúrku og lýsi, haha. Þetta er eitthvað sem er nánast alltaf til, en að sjálfsögðu margt fleira líka. 🙂  Ég skrifaði einmitt stutta grein um 10 fæðutegundir sem allir ættu að eiga sem lesendur hefðu jafnvel áhuga á að sjá: https://hiitfit.is/10-faedutegundir-sem-thu-aettir-alltaf-ad-eiga-til/

Podcast eða bók?

Bæði! Elska að hlusta á podcast þegar ég er að stússast, keyra eða gera eitthvað með höndunum, eins og að borða eða brjóta saman þvott. En svo er yndislegt að lesa góða bók uppí sófa á kvöldin þegar það er komin ró.

Instagram eða Facebook?

Má segja bæði? haha.. Ég nota báða miðlana í vinnunni jafn mikið. Á facebook erum við með Valkyrjugrúbbuna okkar sem er æðisleg, grúbbuna HIITFIT samfélagið og LIKE síðuna auðvitað. En á Instagram er maður með story og það er skemmtilegra að setja fram skilaboðin þar finnst mér. Erfitt að gera uppá milli þar sem bæði er ómissandi í því sem ég geri.

Kaffi eða te?

Kaffi á daginn, te á kvöldin.

Eitthvað sem þú vilt deila með lesendum að lokum?

Já, mundu að trúa á sjálfa þig, þú ert sterkari en þú heldur. Ekki gefast upp á markmiðunum þínum og draumum. Ef þú vilt lifa heilbrigðari lífsstíl farðu og finndu tólin og það sem þú þarft til að ná árangri. Það eru alltaf til lausnir, þú þarft bara að finna ÞÍNA lausn og það sem virkar fyrir þig. Fyrst að ég gat það, þá getur þú það líka.

Við hjá H Magasín þökkum Söru kærlega fyrir spjallið og bjóða hana velkomna til okkar á H Magasín.

Hér er hlekkur á síðuna henna Söru https://hiitfit.is/

NÝLEGT