Search
Close this search box.
“Það er svo gaman að láta öðrum líða sem sigurvegara” – Erla Sigurlaug Sigurðardóttir í nærmynd

“Það er svo gaman að láta öðrum líða sem sigurvegara” – Erla Sigurlaug Sigurðardóttir í nærmynd

Erla Sigurlaug byrjaði að æfa markvisst hjólareiðar fyrir fimm árum og hefur unnið til margra verðlauna á því sviði, m.a. Íslandsmeistaratitil í fjalla- og götuhjólreiðum og fékk bæði silfur og brons á Smáþjóðaleikunum 2017.

Í dag er þetta hennar aðalstarf og áhugamál. “Ég starfa sem hjólaþjálfari á sumrin og hef einnig sinnt innihjólaþjálfun á veturna. Ég og Þóra Katrín vinkona mín erum með Hjólaskólann sem er á sína þriðja stafsári með hjólanámskeið og þjálfun”. Ásamt því hefur Erla Sigurlaug undanfarið setið á skólabekk og er í mastersnámi í forystu og stjórnun á Bifröst.

“Ánægjan við það að vinna við áhugamálið sitt er auðvitað frábært. Maður þarf hins vegar líka að passa að hafa tíma til að sinna hjólreiðunum fyrir sig, ekki bara alla aðra. Mér finnst gott og svakalega gaman að vera úti í náttúrunni. Svo er afar gefandi að kenna öðrum að ná færni og árangri á hjólinu. Það er svo gaman að láta öðrum líða sem sigurvegara!” Segir Erla Sigurlaug.

Leiddist óvart út í hjólreiðar

Aðspurð um hjólaáhugann segir hún frá því að hann hafi í raun kviknað fyrir algjöra tilviljun. “Ég fór óvænt í Cyclothonið 2014 með crossfitstöð sem ég æfði í þá. Einn í liðinu hafði rifbeinsbrotnað nokkrum dögum fyrir Cyclothonið og ég var kölluð inn, fékk lánshjól og alltof stóra skó og kunni ekki að skipta um gír. En þarna sá ég að ég gat hjólað og fannst þetta sjúklega gaman og lærði fullt. Ári síðar var ég svo alveg hætt í crossfittinu og byrjaði að æfa hjólreiðar á fullu og tveimur árum síðar sigraði ég nánast allar hjólakeppnirnar sem haldnar voru og varð t.d. fyrst Íslendinga til að lenda á palli á Smáþjóðaleikunum en ég náði öðru sæti í götuhjólreiðum og þriðja í fjallahjólreiðum.”

Hjólaskólinn góður grunnur

Hjólaskólinn sem þær stöllurnar starfrækja hefur vakið athygli og er vinsæll hjá öllum aldurshópum. Skólinn er fyrir alla þá sem vilja auka hjólafærni sína og verða öruggari á hjólinu, hvort sem er á götunni eða í náttúrunni. “Við höfum aðallega verið með fjallahjólanámskeið og æfingar. Einnig erum við með hjólanámskeið á sumrin fyrir börn, námskeið fyrir unglinga sem vilja æfa hjólreiðar á vorin og haustin og höfum einnig sinnt hjólatengdum verkefnum fyrir sveitarfélög, samtök, skóla og íþróttafélög.  

Aðspurð um það helsta sem þurfi til að geta byrjað á hjólaportinu segir hún að það sé raun bara hjólið og hjálmurinn. “Jafnframt er mjög gott að koma á byrjendanámskeið til að fá trikkin og tæknina strax beint í æð, til að geta svo æft sig áfram og byggt ofan á því. Það er alltof oft sem fólk byrjar á öfugum enda og meiðir sig, skellir sér svo eftir meiðslin á námskeið til að læra…” Segir Erla Sigurlaug og bætir við að aldur sé engin fyrirstaða þegar kemur að hjólreiðum;

“Elsta konan hjá okkur á götuhjólanámskeiði í sumar var 68 ára og sú elsta á fjallahjólanámskeiði var 62 ára og yngstu börnin eru 6 ára. Allir geta í raun hjólað, bara mismunandi hratt og langt og í mismunandi aðstæðum. En lærdómurinn er eilífur svo aldurinn á hjólinu er ekki aðalatriðið. Sér í lagi líka nú um mundir þegar rafmagsnhjólin eru að verða svona vinsæl, þá þarf jú ekki eins gott líkamlegt form til að geta hjólað lengra og í íslenska rokinu, til dæmis.”

Góð heilsa lykilatriði

Erla hugar vel að mataræðinu og almennri líðan á degi hverjum. “Ég tek alltaf Omega 3 og D vítamín á morgnanna og set plöntuprótein í boostið. Þá tek ég B12, magnesíum magtein og C-vítamín á kvöldin, en nógu mikið er víst galdurinn að því að tengja allt saman og láta alla næringuna ganga upp” segir Erla og bætir við að hún sé í einstaklega góðu formi núna og að heilsan sé toppstandi.

“Ég hef átt við ýmsa heilsukvilla að etja um árin en þeir haga sér vel núna og ég er hress sem aldrei fyrr. Ég passa sérstaklega upp á heilsuna með því að æfa reglulega og stefna að hægum og örugglegum bætingum, teygja og hafa gaman á æfingum. Þá hugsa ég mikið um að borða rétt og vel, það sem hentar mér og æfingunum, ég hugsa matinn ávallt sem bensín fyrir það sem ég þarf og er að gera. Ég skipti alveg yfir í veganfæði fyrir ári síðan og finn t.d. gríðarlegan mun á þoli, svefni og stöðugri líðan”. Rétt mataræði er mikilvægt og að hennar sögn mætti fleiri auka hlut grænmetis og bauna á disknum.

Andlega hliðin er ekki síður mikilvæg þegar kemur að heilsunni almennt og hefur Erla Sigurlaug tileinkað sér núvitund, að læra að njóta hvers augnabliks.  Að hennar sögn er hugurinn oft á fleygiferð og finnst henni oft á tíðum erfitt að slaka á og njóta en með hjálp núvitundar finnur hún kyrrð í huganum.

“Náttúran er mín núvitund, skýjamyndir, lyktin og slóðinn framundan sem ég er að hjóla. Þá prjóna ég oft og þá er það núvitundin í lykkju fyrir lykkju. Ég hlusta á tónlist til að setja ákveðna stemningu, bæði fyrir átök og eins fyrir slökun. Ég fer stundum í jóga nidra til að slaka og þá á ég líka svona gaddadýnu sem ég nota reglulega til að liggja á og stimpla hugann aðeins út og slaka. Þá syng ég í kór sem er mikil núvitund og í raun pása fyrir hausinn. Þá hugsa ég mikið um þakklæti og finn gleðina í litlum hughrifum ásamt því að skrifa ljóð og texta sem koma beint frá hjartanu. Svo reyni ég að fá reglulega hláturskast með mínum nánustu, ótrúlegt hvað það virkar fyrir gleðina og andlega líðan!“ Segir Erla Sigurlaug.

Allt á sinn tíma, líka heilsan

Árið 2017 lenti Erla Sigurlaug í alvarlegu hjólreiðarslysi vegna kindahliðs í götunni sem var ónýtt. Hún ásamt fleirum duttu og slösuðust nokkrir hjólarar alvarlega, þar á meðal Erla.  

Erla Sigurlaug var á hátindi ferilsins, viku áður varð hún Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og mánuði áður sigraði hún á Smáþjóðaleikunum, allt lék í lyndi en því miður er lífið hverfult og getur breyst á svipstundu.

“Mér fannst ég strax heppin að vera á lífi og ekki lömuð” segir hún en vegurinnn að batanum var erfiður og reyndi bæði á líkama og sál. „Ég hélt að þetta væri gott um það bil mánuði eftir slysið þótt öxlin væri enn mjög tjónuð, en svo fór allt niður á við nokkrum mánuðum eftir slysið. Á sama tíma stóð ég í skilnaði og var sagt upp í vinnunni. Ég fór í þrjár axlaraðgerðir og í tíu mánaða sjúkraleyfi og gat lítið gert nema bíða eftir að hlutirnir myndu rétta úr sér og lagast, öxlin og allt kerfið sem hafði krashað vel. Ég var mjög máttfarin og gat einhvern veginn hvorki sofið né verið spræk vakandi. Þegar ég svo losnaði við járn og skrúfur úr öxlinni að lokum var það eins og losna við vörubíl úr líkamanum og ég fór að verða líkari sjálfri mér í kjölfarið”.

Tíminn læknar öll sár og tók Erla Sigurlaug eitt skref í einu með jákvæðni og þolinmæði að leiðarljósi. ” Að lifna svo við og verða maður sjálfur aftur tveimur árum síðar var ólýsanleg tilfinning. Ég gerði allt sem ég gat til að vinna í batanum og heilsunni, píndi mig út í göngutúra og að hitta fólk þótt ég vildi það ekki. Hélt verkjalyfjum í eins miklu lágmarki og ég gat og skipti um matarræði. Fór í jóga og í leidda hugleiðslu. Andinn var lágt niðri. En að eignast svo orkuna sína aftur og geta hreyft sig án þess að örmagnast eða vera verkjaður er svo frábært. Svo kom svefninn loks líka þegar ég skipti um matarræði, svo leitin að heilsunni er einhvern veginn alltaf eilíf, á ólíkum tíma og aðstæðum. Mér líður frábærlega í dag, fyrir utan eina öxl, sem þó getur hjólað!” segir hún glöð í bragði.

Hjólasportið, fjölskyldan og fyrirmyndir

Erla Sigurlaug leggur áherslu á að fjölskyldan hennar taki líka þátt í hjólasportinu. “Börnin mín fá engan frið og það er mjög gaman að eiga þetta áhugamál saman. Dóttir mín er orðin 16 ára en þakkar mér í hvert sinn sem ég næ að draga hana út að fjallahjóla. Að taka hjólin með í sumarfríið er líka ákveðinn lífsstíll sem við höfum tileinkað okkur, maður þarf að prófa að hjóla alls staðar sem maður fer. Nýir staðir og slóðar eru mest spennandi” segir hún glöð í bragði og bætir við að virkni almennt í lífinu sé mikilvæg, til að auka lífsgæði og þar með gleði og hamingju en ella.

Eldmóðinn og kraftinn hefur Erla Sigurlaug ekki langt að sækja en amma hennar var afskaplega virk og synti 600 metra hvern dag í mörg ár á efri árum auk þess að hlaupa á sundbolnum tvo hringi í kringum laugina.  

“Ég hef oft þakkað henni í hljóði fyrir það sem ég fékk að gjöf og í raun fattaði ég ekki fyrr en síðar hversu mikill nagli hún var” segir hún og bætir við að jafnframt líti hún upp til allra þeirra gera hlutina vel og takast á við áskoranir á sínum forsendum. “Mér finnst allir sem vilja, reyna og gera það sem þeir geta – og aðeins meira en það – vera hetjur!” Segir Erla Sigurlaug.

Swiss Epic – fimm daga fjallahjólakeppni framundan

Síðustu mánuði hefur Erla Sigurlaug ásamt vinkonu sinni Þóru Katrínu verið að undirbúa sig fyrir fimm daga fjallahjólakeppni sem haldin er í Ölpunum nú um miðjan ágúst, en aðeins 3 dagar eru nú fram að keppni og eiga þær vinkonurnar flug út á morgun

„Grímurnar eru tilbúnar, við fylgjum ströngum Covid reglum á leiðinni og úti í keppninni sjálfri. Heimsheilsan er í fyrirrúmi. Það má aðeins taka grímuna af sér 60 sekúndum fyrir start.“ “Team Red – það eru við! Til að geta klárað slíkt afrek þarf gott form og heilmikla tækni og æfingu” segir hún og hafa þær verið að undirbúa sig vel í sumar.

„Það er algjörlega frábært að setja sér markmið sjálfur og vinna að því í eigin prógrammi. Aðdragandinn er svo skemmtilegur og þótt keppnin verði strembin og mikið „suffer“ eins og sagt er á hjólatungumálinu, þá get ég ekki beðið eftir að krúsa um Alpana, upp og niður, og uppskera í góðu formi og með brosið allan hringinn allan tímann.“

Í keppninni Swiss Epic sem fram fer núna 18. – 22. ágúst er 12,5 km hækkun þessa fimm hjóladaga og æfði Erla sig m.a. með því að hjóla nokkrum sinnum á Úlfarsfellið, Skálafellið og Esjuna. Þá fór hún með hjólið í frí í sumar og hjólaði upp að Snæfellsjökli

„Þetta eru brött klifur á hjólinu en í svona fjallaklifri á hjólinu æfist bæði þolinmæðin, þrautseigjan og lungun. Alparnir taka svo mjúklega á móti mér með geggjaðar hjólabrautir bæði upp og niður. Við Þóra Katrín í Team Red tæklum þetta saman með bros á vör. Aðalsigurinn er að hreinlega geta þetta, hafa getað æft fyrir þetta, haldið heilsu og formi í gegnum þetta. Slíkir heilsusigrar finnst mér bestir“, segir Erla að lokum.

Mottó og lokaorð frá Erlu

„Hugsaðu vel um heilsuna. Það er nefninlega svo fáránlega satt að ef maður hefur ekki heilsuna þá hefur maður sama og ekkert“.

Spred your wings and fly – það eru allir með vængi. Notaðu þá. Fljúgðu á þínum hraða og getu, en settu þér markmið um að fljúga aðeins hærra og lengra…

Ævisagan

Hjólalífið eða – hjólað í lífið!

Við þökkum Erlu Sigurlaugu fyrir áhugavert og skemmtilegt viðtal og óskum henni góðs gengis í hennar spennandi verkefnum.

NÝLEGT