Search
Close this search box.
Það prumpar enginn regnbogum alla daga!

Það prumpar enginn regnbogum alla daga!

Höfundur: Ragga Nagli

Sumir dagar eru bara ömurlegir.

Þú svafst yfir þig.

Mættir of seint á fund.

Vinnufélagi tók allan heiðurinn af sameiginlegri vinnu ykkar, og þú barst ekki hönd fyrir höfuð þér.

Um kvöldið tók sig upp gamalkunnugt rifrildi við makann yfir ósanngjarnri verkaskiptingu við tæmingu uppþvottavélar.

Pollýönnu samfélag nútímans þar sem allir og frændi þeirra á Instagramm vökva túlípana í garðinum með börn í hörfatnaði valhoppandi eins og í Astrid Lindgren bók. Á meðan er það eðlilegt og mannlegt að vera stundum fúll á móti með gúmmíkjúkling í annarri og löngutöng á hinni.Við þurfum að fara í gegnum svekkelsi og súrmeti til að vera þakklát fyrir góðu stundirnar og fagnað velgengni.

Jákvæð upplifun er aukaverkun af strögglinu. Tilfinningar eru nefnilega upplýsingar. Það er barnaleikur að höndla þessar jákvæðu og skemmtilegu. En við nennum ekki að díla við þessar vondu.

Kvíðann.

Skömmina.

Sektarkenndina.

Ekki-nóguna.

Að hunsa tilfinningar gerir þig ekki að Leðurblökumanninum. Ofurmenni með skikkju. Að draga upp gervibrosið og klappa einhyrningum hindrar þig í að vaxa. Flestir vilja vogskorinn skrokk. En til þess þarftu að sáldra blóði, svita og tárum á gúmmílögðu gólfi ræktar eða spæna upp malbik með inngróna tánögl.

Svangur.

Þreyttur.

Harðsperrur.

Það þarf að sjoppa, preppa, mæla, græja og gera heimatilbúnar, útpældar máltiðir. Af litlum diski. Flestir vilja fjárhagslegt öryggi og sjálfstæði. En til að verða frumkvöðull þarftu fyrst að gera ótal mistök, stofna allskonar gjaldþrota fyrirtæki, upplifa hræðslu í fjárfestingum og vera með svefnpokapláss á skrifstofunni.

Kvíði.

Hræðsla.

Streita.

Allir vilja hamingjusamt hjónaband. En flestir þurfa að fara í gegnum kvíðahnútinn sem fylgir ósvöruðu sms-i, símtalin sem aldrei kemur. Rifrildi, ágreiningur og tilfinningarússíbani er oft ill nauðsyn til að finna sameiginlegan takt.

Óöryggi.

Áhyggjur.

Pirringur.

Það prumpar enginn regnbogum alla daga. Hvernig við höndlum hindranir, vesen, ströggl og streitu ákvarðar hvort við höldumst í ferlinu í átt að markmiðinu. Við vöxum og lærum þegar illa gengur, þegar við gerum mistök, í gegnum erfiðleikana, þegar við yfirstígum hindranir. Leyfðu þér að eiga ömurlegan dag. Þú þarft ekki að berjast í gegnum hann. Leyfðu þér að upplifa alla ömurðina sem fylgir því að eiga glataðan dag. Þú þarft ekki að vera hoppandi hamingjusamur, alltaf, alla daga.

Þú þarft heldur ekki að draga gardínurnar niður og sökkva þér í sófann með Kjörísboxið. Enginn er með bleikan einhyrning í garðinum. Sólin skín ekki alla daga. Ekki allir valhoppa saman í sænskum smábæ eins og í Astrid Lindgren bók. Þú þarft að fara upp brekkuna til að geta síðan rennt þér niður.

Hér má finna fleiri pistla eftir Röggu Nagla

NÝLEGT