Þakklæti

Það hljómar kannski öfgakennt, en munurinn á því að vera þakklátur og vanþakklátur getur hreinlega verið munurinn á góðu og slæmu lífi í stóru myndinni. Það er sannarlega hægt að eiga mjög lítið og/eða búa við mjög erfiðar aðstæður, en ná samt að sjá fegurðina í því sem maður hefur, og eins er hægt að búa við allsnægtir, eiga og hafa allt til alls, en hafa samt allt á hornum sér. 

Ég skil mjög vel að mörgum finnist umræða um þakklæti og jákvæða hugsun oft á tíðum hljóma eins og innantómt rugl og stundum verða eins og eitthvað pollýönnu-kjaftæði. En það getur varla verið tilviljun að stór hluti fólks sem nær langt í lífinu og býr yfir mikilli lífsgleði hefur tileinkað sér að rækta þakklæti. „Þakklætisvöðvann“ má þjálfa rétt eins og hvað annað. Með því að minna sig á hluti sem maður getur verið þakklátur fyrir gerist tvennt. Í fyrsta lagi byrjar maður að taka eftir hlutum sem maður tók áður sem sjálfsögðum hlut en eru það alls ekki. Í öðru lagi byrja fleiri slíkir hlutir að eiga sér stað í lífi manns. Við eigum mjög auðvelt með að skilja að þegar kemur að líkamanum er eina leiðin til að bæta sig að æfa sig aftur og aftur. Hvort sem það er vöðvaþjálfun, hlaup, dans eða hvað annað. Hins vegar virðumst við halda að þakklæti og jákvætt hugarfar sé eitthvað sem við getum ekki æft á sama hátt. Það er einfaldlega rangt. Ástundun þakklætis skilar manni meira þakklæti í dagsins önn – það segir sig einginlega sjálft.

Heilinn okkar og hugur eru öflug verkfæri og það sem við beinum athyglinnni að vex, á meðan það sem við tökum ekki eftir er líklegra til að ná ekki að dafna. Þakklæti kemur vonandi sem mest af sjálfu sér í lífi fólks, en það er líka eitthvað sem ætti að vera jafn sjálfsagt að æfa og koma í vana eins og að rækta líkamann, taka til eða bursta tennurnar. Fyrir flesta er nóg að æfa sig í þakklæti í nokkrar mínútur á dag í nokkra daga til að byrja að taka eftir jákvæðum breytingum. Suma daga kemur þakklæti auðveldlega til manns og lítið þarf til að taka eftir öllu því jákvæða. Aðra daga er dýpra á þakklætinu, en þá er ekki síður mikilvægt að æfa sig í að finna það í litlu hlutunum. 

Mig langar að skora á ykkur öll að prófa að gera einfaldan þakklætislista á morgnana og kvöldin 10 daga í röð. Þrjú atriði á morgnana og þrjú atriði á kvöldin og sjá hvort þið finnið ekki mun að þessum dögum loknum.

Suma daga líður manni eins og listinn gæti verið ótæmandi, en aðra daga er dýpra á þakklætinu. Þá er gott að minna sig einfaldlega á grunnatriði sem maður tekur yfirleitt sem algjörlega sjálfsögðum en eru það ekki. Til dæmis það að eiga þak yfir höfuðið, rúm til að hvílast í, aðgang að hreinu drykkjarvatni og mat, það að eiga vini, fjölskyldu og svo framvegis. Þegar maður skrifar þakklætislista er gott að reyna að leitast við að skrifa ekki alltaf niður sömu atriðin dag eftir dag. Um leið og það kemst upp í vana koma sífellt upp ný og ný atriði sem maður getur þakkað fyrir.

Höfundur: Sölvi Tryggvason

https://www.facebook.com/solvitryggva

https://www.instagram.com/solvitrygg/

NÝLEGT