Nú er genginn í garð sá tími ársins þar sem við njótum samverustunda með vinum, borðum góðan mat og njótum alls þess besta sem hátíðin hefur upp á að bjóða. Jólin eru sannarlega skemmtilegur tími þar sem okkur gefst tækifæri til þess að gleðja aðra sem og okkur sjálf. Jólin eru líka frábær tími til þess að staldra við, líta í kringum okkur og sjá allt það góða í okkar lífi sem við getum verið þakklát fyrir.
Það getur nefnilega verið auðvelt að missa sig í hraðanum sem einkennir okkar samfélag og sífellt vera að elta markmið, drauma og veraldlega hluti. Í slíkum aðstæðum gleymum við oft að huga að því sem við eigum nú þegar, hversu stórt eða smátt sem það kann að vera. Þakklæti er ekki eitthvað sem við eigum að geyma djúpt inn í geymslu hugans, þvert á móti eigum við sífellt að minna okkur á hvað við erum þakklát fyrir í okkar lífi. Með þakklæti eflum við geðheilsuna og sköpum jákvæð hugrenningartengsl gagnvart hinum ýmsu hlutum í okkar lífi.
Til þess að hjálpa þér á veg þakklátsseminnar eru hér að neðan nokkur góð ráð sem minna þig á þakklætið.
Ekki vera vandfýsin/n: sýndu öllu þakklæti
Þakklæti er ekki eitthvað sem við eigum að spara fyrir „stóru“ hlutina í lífinu. Þegar við venjum okkur á að vera þakklát þurfum við að horfa til allra átta og þakka fyrir allt það góða sem okkur er gefið. Jafnvel þó það sé bara að þakka fyrir veðrið, matinn, fólkið eða heilsuna okkar.
Vertu í núvitund
Sestu daglega niður og skrifaðu niður fimm til tíu hluti sem þú ert þakklát/ur fyrir. Reyndu að sjá fyrir þér þessa hluti og finna tilfinninguna sem þeir gefa þér. Með tímanum nærðu að endurstilla hugann og þróa með þér aukna þakklætiskennd sem leiðir af sér jákvæðar upplifanir og tilfinningar. Rannsóknir hafa sýnt að það tekur fólk allra jafna um 8 vikur að sjá árangur af slíkri iðju, þ.e. árangur sem felur í sér jákvæðara hugarfar og aukna hamingju.
Haltu dagbók
Samhliða því að setjast niður og huga að því sem við getum verið þakklát fyrir, er gott að skrifa niður þessar hugsanir. Með því er hægt að halda til haga öllu því sem upp kemur og hægt að horfa tilbaka og sjá þá ótal hluti sem við getum verið þakklát fyrir.
Taktu þátt í hjálparstarfi
Fyrir marga snýst aukið þakklæti um það að gefa tilbaka til náungans í okkar nær samfélagi. Rannsóknir hafa sýnt að með því að taka þátt í hjálparstarfi aukum við okkar eigin vellíðan og lífshamingju, sem aftur eykur þakklátssemi okkar. Þar að auki geta slíkar upplifanir hjálað okkur að sjá hversu gott við höfum það og hversu margt við getum verið þakklát fyrir í okkar eigin lífi.
Finndu þakklæti í áskorununum
Þakklæti felst ekki bara í því að þakka fyrir allar jákvæðu upplifanirnar í okkar lífi. Flest okkar hafa gengið í gegnum erfiðleika sem sannarlega hafa reynt á taugarnar og sálartetrið. Sum okkar eru eflaust að kljást við stórar áskoranir þessa dagana, til dæmis heilsubrest eða aðra erfiðleika. Það getur hins vegar verið gott að horfa yfir farinn veg og sjá hvernig erfiðleikar og áskoranir hjálpa okkar að þroskast og verða betri og hæfari manneskjur.
Tjáðu þakklæti þitt öðrum
Stundum er ekki nóg að halda öllum þeim hlutum sem við erum þakklát fyrir einungis fyrir okkar sjálf. Hægt er að auka upplifunina með því að tjá þakklæti gagnvart því fólki sem við erum þakklát fyrir að hafa í okkar lífi. Ein rannsókn sem dæmi leiddi í ljós að þegar við hringjum í þá viðkomandi einstaklinga sem við erum þakklát fyrir að eiga í okkar lífi, og tjáum þeim það í orðum, aukum við vellíðan okkar umtalsvert. Þannig getum við glatt aðra, sem og okkur sjálf, með því að sýna öðrum þakklæti.
Eyddu tíma með þeim sem þér þykir vænt um
Ef þú átt erfitt með að finna fyrir þakklæti getur verið gott að eyða tíma með vinum og fjölskyldu. Það mun að sjálfsögðu styrkja tengslin ykkar á milli en það mun líka gefa þér tækifæri til þess að æfa þig að sýna þakklæti gagnvart þessu sama fólki.
Aukin hamingja gerir þig þakklátari
Það að vera þakklát gefur okkur aukna hamingju en aukin hamingja getur einnig hjálpað okkur að vera þakklátari. Reyndu því eftir fremsta megni að tileinka þér iðjur sem veita þér einhverskonar hamingju, til dæmis áhugamál, samvera með vinum og fjölskyldu, útivist, hreyfing o.s.fr. Um leið og þú finnur fyrir auknu flæði endorfíns verður auðveldara fyrir þig að sýna og upplifa aukið þakklæti.