Search
Close this search box.
Þriggja laga hnetugott

Þriggja laga hnetugott


Innihald:
 

Kremlag: 

  • 100-150 grömm af kasjúhnetum frá Himneskri Hollustu (lagðar í bleyti yfir nótt eða a.m.k. 4 klst)
  • 1/2 dl hlynsíróp frá Naturata
  • 1/2 dl fljótandi kókosolía frá Himneskri Hollustu
  • 1/2 dl af hafrahveiti (þ.e. hafrar hakkaðir niður í fínt duft eða möndluhveiti, þ.e. möndlur hakkaðar niður í fínt duft –  má sleppa ef vill)*

 

Hnetusmjörslag:

  • 10 döðlur frá Himneskri Hollustu (lagðar í heitt bleyti í 5 mínútur)
  • 3-4 vænar msk af hnetusmjöri frá Himneskri Hollustu (ég notaði gróft)
  • 1-2 msk af hlynsírópi frá Naturata 

 

Annað

  • Jarðhnetur frá Horizon (eftir smekk)
  • 100 grömm af þínu uppáhalds súkkulaði (ég notaði 85% súkkulaði)

 

Undirbúningur:

Byrjið á því að leggja kasjúhneturnar í kalt vatn og setjið þær inn í ísskáp yfir nótt eða a.m.k. í 4 klukkustundir. Ef þú hefur ekki tíma þá er hægt að fara krókaleið og setja kasjúhnetur í heitt bleyti í 30 mínútur en athugið að áferðin kann þó að vera öðruvísi.

Hnetugott_1

Hnetugott_2

Aðferð:

*Ef þið ætlið að setja hafrahveiti eða möndluhveiti í kremlagið þá mæli ég með að búa það til fyrst til að spara uppvaskið. Þið einfaldlega setjið hveiti/möndlur í matvinnsluvél og blandið saman þar til þið fáið fínt duft og setjið í skál til hliðar. Þessu má sleppa en mér finnst hafrahveiti/möndluhveiti bæta aðeins við áferðina í kremlaginu.

Þegar kasjúhneturnar eru búnar að liggja í bleyti skal skola þær og setja í matvinnsluvél ásamt kókosolíu og hlynsírópi og blanda öllu vel saman. Gott er að stoppa og skrapa deigið niður meðfram hliðunum svo allt blandist vel saman. 

*Næst skal bæta við hafrahveitinu/möndluhveitinu. Ekki er nauðsynlegt að nota matvinnsluvél í þessu skrefi þar sem að hafrahveiti/möndluhveiti er svo fíngert – það er nóg að hræra þessu öllu saman með sleif. 

Þegar kremlagið er tilbúið skal setja það í form – sjálf nota ég brauðform og legg bökunarpappír í brauðformið. Dreifið vel úr kremlaginu og passið að það sé slétt. Geymið svo inn í frysti í 30 mínútur. 

Á meðan skal þvo matvinnsluvélina og undirbúa hnetusmjörslagið. Byrjið á því að setja döðlurnar í sjóðandi heitt vatn í 5 mínútur en þetta mýkir döðlurnar talsvert. Að 5 mínútum loknum skal setja döðlurnar, hnetusmjörið og hlynsírópið í matvinnsluvél og hræra öllu vel saman. Í fyrstu þá kann vera að deigið virðist vera molnað en það mun haldast saman þökk sé döðlunum. Gætið bara að því að pressa það vel niður.

Næst skal setja hnetusmjörslagið yfir kremlagið. Hægt er að nota hendurnar eða sleif. 

Svo skal raða jarðhnetum yfir og pressa niður í hnetusmjörslagið ef vill. Setjið svo hnetugottið aftur inn í frysti í 30 mínútur. 

Að 30 mínútum loknum skal bræða uppáhalds súkkulaðið sitt. Hægt er að setja súkkulaðið beint ofan á hnetugottið en ég gerði það ekki. Ég skar hnetugottið niður í litla bita fyrst og setti bráðið súkkulaði svo ofan á. Það er jafnvel hægt að skera hnetugottið í langa, mjóa bita og dýfa ofan í súkkulaði, þá er hnetugottið svipað og snickers!

Geymið inn í ísskáp í allt að viku eða inn í frysti í allt að 2 vikur. Berið hnetugottið fram beint úr ísskápnum eða leyfið því að standa í nokkrar mínútur ef það er geymt í frystinum. Þetta hnetugott er alveg tilvalið til að eiga í frystinum ef manni langar í eitthvað sætt. Ég vill hins vegar taka það fram hér í lokin að hnetur og hnetusmjör innihalda jú góða og holla fitu (þ.e. einómettaðar fitusýrur) en það skal neyta hnetugottsins í hófi þrátt fyrir það. 

Njótið! 

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér hér á Instagram 

Þangað til næst, verið heil og sæl! 

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu, Horizon og Naturata

Höfundur: Asta Eats

 

 

NÝLEGT