Höfundur: Beggi Ólafs
Þegar ég held fyrirlestra spyr ég oft fólk á aldrinum 16 til 30 ára hversu miklum tíma það sói á dag samkvæmt eigin skilgreiningu þess á tímasóun. Algengasta svarið sem ég fæ er í kringum sex tímar. Slugs við lærdóm eða vinnu, tilgangslaust skroll í símanum, sjónvarpsgláp eða Youtube-áhorf sem átti bara að vera í tíu mínútur en endaði einhvern veginn á þriðja tíma þar sem þú stóðst þig að því að horfa á tilgangslausa hluti sem þú vildir jafnvel ekkert horfa á. Verst er að þér líður hræðilega eftir á.
Eftir spurninguna fer ég yfir nokkra útreikninga til að setja þennan tíma í samhengi. Sex tímar á dag eru 42 klukkutímar á viku, sem eru 2.148 klukkutímar á ári, sem jafngildir 91 sólarhring. Þar af leiðandi má færa rök fyrir því að ef þú sóar sex tímum á dag sértu að sóa tæplega fjórðungi ársins og með sama áframhaldi lífi þínu. Hakan á flestum sígur yfirleitt neðar og neðar því lengra sem líður á útreikningana. Fólk trúir hreinlega ekki að það verji svona miklum tíma í einskisverða hluti. Það virðist eins og það hafi aldrei heyrt um mikilvægi þess að axla ábyrgð á eigin lífi, að lífið sé undir því komið og ekki neinum öðrum. Að það geti fengið svo margt af því sem það þráir og vilja ef það leggur alvöru vinnu í það.
Ef líf þitt er ekki eins gott og það gæti verið geturðu spurt sjálfan þig hvað myndi gerast ef þú hættir að sóa tækifærunum sem blasa við þér. Ímyndaðu þér hvernig þú gætir nýtt þér til góðs þennan tíma sem þú sóar og hversu mikið þú gætir eflt sjálfan þig fyrir vikið. Það er enginn sem getur sagt til um það. Það er ekki skrifað í skýin hversu mikið þú getur bætt þig sem einstaklingur. Það eru engin takmörk fyrir því hversu öflugur þú getur orðið. Fyrir mér ert þú skyldugur til þess að virkja það sem í þér býr og hámarka það sem þér er mögulegt í lífinu. Það búa ótal möguleikar í þér. Verkefni þitt er að efla þá og nýta þér til góðs.


Góðu fréttirnar eru þær að þú getur byrjað á því strax í dag. Þegar þú vaknar á morgnana og sérð fyrir þér daginn getur hann farið á marga vegu. En þú getur haft svo mikil áhrif á hvernig dagurinn mun spilast fyrir þér. Það er í þínu valdi að gera daginn eins góðan og hann getur orðið fyrir þig. „Hvers vegna?“ spyrðu, og ég spyr þig á móti: „Hvers vegna ekki? Hverju hefur þú að tapa?“ Athafnir sem þú endurtekur daglega eru líf þitt. Hvort sem það fer klukkutími á dag í að svæfa barnið þitt, tuttugu mínútur í að rökræða við maka þinn eða fjórir klukkutímar í skroll í símanum þínum, þá verða þetta hlutirnir sem líf þitt snýst um. Orðum þetta á aðeins nákvæmari máta: Hlutirnir sem þú endurtekur á hverjum degi geta gert líf þitt að helvíti eða himnaríki og trúðu mér, geta þín til að láta hvort tveggja verða að raunveruleika er til staðar.
Um höfundinn: Bergsveinn eða Beggi Ólafs er mastersnemi í hagnýtri jákvæðari sálfræði og þjálfunarsálfræði, fyrirlesari, bloggari og rithöfundur. Kaflinn hér að ofan er úr bók Begga; Tíu skref í átt að innihaldsríku lífi.
Skemmtilegt viðtal við Begga má lesa hér.