Top Boy gerist í fátæktarhverfum Austur-London þar sem mikil spenna milli mismunandi gengja einkennir lífsskilyrði íbúa. Dushane og Sully vinna hörðum höndum að því að verða “top boy” í hverfinu sínu sem mætti þýða yfir á íslensku sem “aðalmaðurinn”, en orðið ber dýpri merkingu í breskri menningu. Ra’Nell kemur frá brotnu heimili og reynir að feta sig áfram í lífinu umkringdur hættulegu fólki í hættulegu hverfi.
Einn af mínum uppáhalds bresku röppurum, Kano , fer með hlutverk Sully og Ashley Walters , sem einhverjir ættu að muna eftir sem Antwan úr 50 Cent myndinni “Get Rich or Die Tryin’”, leikur Dushane.
Fyrsta serían kom út árið 2011 og sú seinni árið 2013. Eftir aðra seríu sagði Ashley Walters frá því að Top Boy myndi því miður ekki snúa aftur, þrátt fyrir gott áhorf og einróma lof frá gagnrýnendum. Í gegnum árin hefur Top Boy þróað með sér stóran “cult” aðdáendahóp og skemmtilegt er að segja frá því að stærsti rappari heims, Drake, er þar í broddi fylkingar.
Mikið hefur verið um orðróma varðandi endurlífgun Top Boy síðastliðna mánuði en loksins staðfesti Netflix að þau muni gefa út tvær nýjar seríur af Top Boy árið 2019. Framleiðendur þáttarins eru engir aðrir en Drake og LeBron James, en seríurnar tvær verða framleiddar í gegnum framleiðslufyrirtækið hans LeBron, Springhill Entertainment í samvinnu við Drake, sem mun sjálfur fara með hlutverk í þeim.
Samkvæmt gagnrýnendum og sérfræðingum fanga þættirnir raunveruleika breskra ungmenna í fátæktarhverfum London fullkomlega. Hinn sjálftitlaði „Top Boy“ hann Skepta lýsti þáttunum sem: “The whole style of what’s going on in London, the sound, everything about it is real. It’s an actual thing that actually happens, so it deserves to be on the telly.” Þættirnir eru frábærlega skrifaðir og söguþráðurinn heldur manni límdum við skjáinn, fyrstu tvær seríurnar eru inn á Netflix og hvet ég alla til þess að horfa á þær.