Sykur í öllu sínu veldi

Hversu oft höfum við lent í því að verða sykurpúkanum að bráð í amstri dagsins og sporðrennt heilu súkkulaðistykki á núll einni án þess að hendi væri veifað. Margir eiga í vandræðum með sykurinn í mataræði sínu og sækja í sykur daginn inn og út. Þetta veldur miklum sveiflum á blóðsykri en við viljum reyna halda blóðsykri í góðu jafnvægi. Sykur getur haft margvísleg neikvæð áhrif á okkur ef við gætum okkar ekki á inntökunni. Fyrsta skrefið í átt að bættri heilsu er því að taka út sykurinn eða a.m.k. draga verulega úr honum vegna þess að þannig fæst mesti ávinningurinn fyrir heilsuna okkar. Með því að taka á sykrinum í mataræðinu okkar megum við búast við meiri orku, minni bólgum, sterkara ónæmiskerfi, hreinni húð og öflugri þarmaflóru. Það sem við vitum í dag er að sykur getur raskað þarmaflórunni okkar og ýtt undir vöxt á óæskilegum örverum svo sem ýmsum bakteríum og sveppum en heilbrigð þarmaflóra er talin lykilinn að góðri heilsu. Það er einnig klárt mál að sykur getur haft áhrif á geðheilsuna en ójafnvægi á blóðsykri getur valdið því að skapsveiflur geta orðið tíðari vegna of mikillar sykurneyslu.Við getum vissulega gert okkur dagamun þegar þannig ber undir en þurfum að vanda valið og tilefnin og notað t.d. í staðinn hollari valkosti í stað sykurs sem hafa mun vægari áhrif á blóðsykur. Við þurfum að læra að umgangast sykur og átta okkur á skaðlegurm áhrifum þess að borða of mikinn sykur og kolvetni á heilsu okkar og efnaskipti, en óhófleg sykurneysla getur ýtt undir þróun á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Huga þarf einnig að ýmsum öðrum grunnþáttum í lífsstíl okkar sem skipta miklu máli þegar kemur að því að viðhalda blóðsykri í jafnvægi og halda okkur við efnið í mataræðinu svo sem regluleg hreyfing, slökun og góður svefn, en allir þessir þættir hafa mikil áhrif á blóðsykursjafnvægi okkar og líðan.

3 einföld ráð gegn sykurlöngun

  • Byrjaðu daginn á próteinríkri máltíð með góðri fitu og trefjum, td eggjahræru með avókadó, tómötum og ólífuolíu eða próteinríkan nærandi þeyting.
  • Fókuseraðu á svefninn því þegar við erum vansvefta eykst löngun í sætindi og kolvetni til muna og insúlínnæmni frumnanna er minnii, sem veldur auknu ójafnvægi á blóðsykri.
  • Notaðu heilnæm krydd sem jafna blóðsykur og slá á sykurlöngun og gefa náttúrulega sætu eins og kanil, kardimommur, múskat, negul og vanillu.

Á námskeiðinu ‘Sykurlaus lífsstíll’, sem er mánudaginn 14.okt nk, mun Ásdís grasalæknir fara vel yfir hvernig sykur hefur áhrif á heilsuna okkar, efnaskipti, bólgumyndun, hormónastarfssemi o.fl. Á námskeiðinu fá þáttakendur verkfæri og skotheld ráð til að vinna á sykurlöngun og koma blóðsykri í jafnvægi fyrir bættari heilsu.

Hægt að nálgast miða á námskeiðið hér.