Hverjar eru Elín Sóley og Thelma Lind og hvað eru þið að gera í lífinu?
Við erum 22 ára stelpur sem höfum mikinn áhuga á hlaupum og höfum verið að æfa fyrir fyrsta heila maraþonið sem fer fram í Munchen í byrjun október. Við stundum báðar nám við Háskóla Íslands. Elín stundar nám í lífefna- og sameindalíffræði og Thelma stundar nám í viðskiptafræði auk þess að vinna hjá Símanum.
Hvenær fengu þið áhuga á hlaupi og hvernig kom það til að þið byrjuðu að hlaupa saman?
Elín: Það má segja að sagan að baki þess að við byrjuðum að hlaupa saman sé frekar fyndin. Við kynntumst fyrir u.þ.b. ári síðan í partýi fyrir októberfest í Háskóla Íslands. Við vorum báðar á sama ári í Verzlunarskólanum og eigum mikið af sameiginlegum vinkonum, en höfðum einhverra hluta vegna lítið talað saman áður. Eftir einn, tvo…kannski þrjá kokteila í þessu partýi vorum við allt í einu búnar að ákveða að við ætluðum að byrja að hlaupa saman. Ótrúlegt en satt, þá létum við verða af því og tókum fyrsta hlaupið saman nokkrum dögum síðar og höfum hlaupið saman síðan. Það má því segja að við séum þakklátar vinkonum okkar fyrir að halda þetta partý! Ég hafði ekki hlaupið mikið áður en við Thelma byrjuðum að hlaupa saman. Mitt fyrsta skipulagða götuhlaup var t.a.m. með Thelmu. Segja má að það sé ekki aftur snúið hjá hvorugri okkar og höfum við verið duglegar að mæta saman í þau götuhlaup sem hafa verið í boði í sumar.
Thelma: Við vorum ekki að hlaupa af neinu ráði áður en við kynntumst, en hlaupaáhuginn blundaði greinilega í okkur báðum. Ég hafði þó verið að hlaupa að meðaltali eitt stutt hlaup í viku frá byrjun sumars 2016 með ræktinni. Ég endaði svo sumarið á því að hlaupa hálfmaraþon í Reykjarvíkurmaraþoninu en það tók virkilega mikið á enda hafði ég aðeins einu sinni áður hlaupið meira en 10 km fyrir það. Ég tók þó þátt í nokkrum skipulögðum 5-10 km götuhlaupum um sumarið sem mér fannst virkilega skemmtileg og það mætti segja að götuhlaupin hafi kveikt á hlaupaáhuganum hjá mér. Mig þyrsti í að bæta tímana mína og var ég þá eingöngu að keppa við mig sjálfa enda á ég enn töluvert langt í land upp á að geta farið að keppa um efstu sætin í götuhlaupunum. Fyrst um sinn vorum við Elín að hittast 1-2 sinnum í viku og hlaupa saman. Síðan flutti ég til Kaupmannahafnar í söngnám frá febrúar til maí og þá reyndum við að vera duglegar að hlaupa í sitthvoru lagi. Við vorum á þessu tímabili að hlaupa 2-3 sinnum í viku en aðeins 5-10 km í senn. Þegar ég kem svo heim um miðjan maí vissum við að nú þyrftum við að fara að spýta í lófana varðandi það að hefja maraþon-undirbúning.
Hér er hægt að skoða flest öll hlaup sem fara fram á landinu og það er öllum velkomið að taka þátt! Við mælum eindregið með Powerade vetrarhlaupunum sem hefjast núna 12. október og eru alltaf annan fimmtudag í hverjum mánuði fram að vori. Þá taka Powerade sumarhlaupin við sem eru svo sannarlega ekki síðri. Powerade vetrarhlaupin eru alltaf 10 km og það er hlaupið sama hvernig viðrar.
Eru þið með einhvern íþróttabakgrunn?
Elín: Ég æfði fótbolta í níu ár eða þangað til ég varð sautján ára. Þegar ég hætti í fótboltanum byrjaði ég í ræktinni þar sem ég var aðallega að lyfta og gera æfingar sjálf. Svo vorum við nokkrar vinkonur duglegar að fara saman í hóptíma eins og spinning og yoga sem var mjög skemmtilegt
Thelma: Ég æfði fimleika í níu ár eða þangað til ég varð sextán ára. Eftir að ég hætti í fimleikum byrjaði ég að mæta reglulega í ræktina og gerði það næstu fimm árin. Ég var aðallega á brennslutækjunum, gerði mikið af styrktaræfingum, fór í mismunandi hóptíma og lyfti inná milli. Maður fær góðan grunn í fimleikunum hvað styrktaræfingar varðar en ég er með lítinn sem engan grunn þegar kemur að hlaupum eftir árin í fimleikunum.
Stundið þið einhverja aðra íþrótt samhliða hlaupum?
Thelma: Nei, ég stunda enga íþrótt samhliða hlaupunum en stefni á að vera duglegri að mæta í ræktina eftir maraþonið og lyfta með hlaupunum. Ég hef varla mætt í ræktina á þessu ári.
Á síðasta ári „æfðum“ ég og kærastinn minn tennis eitt kvöld í viku í um fjóra mánuði í Tennishöllinni. Það var virkilega skemmtilegt og mæli ég mikið með því.
Elín: Nei, ég stunda engar aðrar íþróttir. Ég reyni hins vegar að finna tíma til að lyfta og gera styrktaræfingar samhliða hlaupunum.
Hvað eruð þið búnar að undirbúa ykkur lengi fyrir maraþonið í Munchen og hvernig undirbýr maður sig fyrir svona langt hlaup?
Við skráðum okkur í maraþonið ásamt því að bóka flug í lok mars en við byrjuðum almennilega að æfa fyrir hlaupið um miðjan júní. Við höfðum samband við hlaupaþjálfarann Sigga P sem lét okkur fá 4 mánaða æfingaáætlun. Æfingaáætlunin hljóðar upp á 3-4 hlaup á virkum dögum sem eru oftast 6-12 km hvert og síðan langhlaup á laugardögum. Það lengsta sem við höfum hlaupið hingað til eru 32 km en við munum ekki hlaupa lengra en það fram að maraþoninu. Hér er hægt að panta hlaupaáætlun hjá reynsluboltanum Sigga P ef áhugi liggur fyrir.
Andlegi þátturinn í löngu hlaupi, hversu mikilvægur finnst ykkur hann vera í samanburði við líkamlega þáttinn?
Vissulega spilar andlegi þátturinn stórt hlutverk í langhlaupum. Þegar maður fer að finna fyrir þreytunni í líkamanum og langar ekkert meira en að stoppa, þá er mjög mikilvægt að temja sér jákvætt hugarfar og reyna að hugsa um eitthvað annað en hlaupið í bili. Oftast gengur þreytan yfir á skömmum tíma. Við myndum segja að andlegi þátturinn spili jafn stórt hlutverk og sá líkamlegi ef ekki stærra. Líkamlegi þátturinn er auðvitað mikilvægur en þá skila allar æfingarnar sér og oftast uppsker maður eins og maður sáir í þeim efnum.
Hafið þið sett ykkur markmið fyrir hlaupið í Munchen?
Markmið númer 1, 2 og 3 er auðvitað að klára hlaupið, en það væri náttúrulega bónus að hlaupa á þokkalega góðum tíma. En þetta er jú aðeins fyrsta maraþon okkar og því nóg eftir til þess að bæta.
Fylgið þið einhverju sérstöku matarplani fyrir hlaupið?
Thelma: Nei, ég get ekki sagt það. Ég reyni að borða frekar hollt, er þó mikill sælkeri að eðlisfari en finn að sælgætisþörfin hefur minnkað töluvert eftir að ég byrjaði að hlaupa meira.
Elín: Nei, get ekki heldur sagt það. Mér finnst mikilvægast að maturinn sem ég borða sé góður á bragðið ásamt því að vera næringarríkur og láti mér líða vel.
Fylgið þið einhverri ákveðinni rútínu daginn fyrir hlaup og á hlaupadegi?
Elín: Maður er ennþá að prófa sig áfram og finna hvað hentar manni best. Allir eru ólíkir og það sama hentar ekki endilega hverjum og einum. En ég reyni að borða alltaf svipað fyrir keppnishlaup. Núna upp á síðkastið hafa t.d. ristaðar brauðsneiðar með möndlusmjöri og banana ásamt grænu tei verið fyrir valinu. Svo reyni ég að borða kolvetnaríka máltíð í kvöldmat daginn fyrir hlaupið.
Thelma: Eina rútínan sem ég fylgi nánast undantekningarlaust er á hlaupadegi, en þá borða ég tvær til þrjár ristaðar brauðsneiðar með banana og sultu. Það borða ég um einum og hálfum tíma fyrir hlaup og hefur reynst mér vel. Síðan reyni ég eins og Elín sagði að borða kolvetnaríkan kvöldmat kvöldið fyrir hlaup t.d. pasta eða núðlur.
Eru þið búnar að ákveða hlaupafatnað, hlaupabúnað og hlaupaskó fyrir hlaupið?
Já, svona nokkurn veginn. Við hlaupum báðar í Adidas Ultra Boost skóm og fílum þá báðar mjög vel fyrir langhlaupin. Við gerðum okkur síðan ferð saman um daginn og keyptum eins Nike pro boli sem við ætlum að hlaupa í. Við hlaupum báðar með hlaupabelti með brúsum og geli. Við erum ekki búnar að ákveða hvort síðbuxur eða stuttbuxur verði fyrir valinu en Zonal strength hlaupabuxurnar frá Nike eru í uppáhaldi og verða þær að öllum líkindum fyrir valinu ef við ætlum að hlaupa í síðbuxum en við verðum að leyfa veðrinu að ráða því.
Hvaða ráð hafið þið fyrir þá sem langar að byrja að hlaupa og eins þá sem hafa verið að hlaupa hingað til en langar að taka næsta skref í átt að heilu maraþoni?
Bara endilega láta vaða ef heilsan er til staðar! Gefa sér samt góðan tíma til þess að æfa fyrir hlaupið. Það er mjög mikilvægt að gefa líkamanum tíma til að venjast hlaupaálaginu hægt og rólega til að komast hjá meiðslum. Mikilvægast er líka að hafa gaman að þessu og setja sér raunhæf markmið og ekki skemmir fyrir að hafa skemmtilegan hlaupafélaga með sér!