Haustveðrið hefur svo sannarlega verið dásamlegt að undanförnu og hef ég líkt og aðrir heldur betur nýtt mér það með góðum göngutúrum. Útivist, göngutúrar og fjallgöngur er frábær heilsurækt sem næra bæði líkama og sál. Útiveran í náttúrunni er mér sérstaklega mikilvæg því þar næ ég að hreinsa hugann, núllstilla mig eftir vinnu dagsins og byggja mig upp fyrir næstu verkefni. Mér finnst frábært að sjá á þessum tímum hvað við Íslendingar erum dugleg að nýta náttúruna sem eigum.
Mig langaði að deila með ykkur mínum þremur uppáhalds fjallgönguleiðum þessa dagana. Þessar gönguleiðir eiga það allar sameiginlegt að vera rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Gönguleiðirnar eru miserfiðar og getur þú kæri lesandi valið þá gönguleið sem hentar þér best.
Það eru nokkrir hlutir sem þarf að huga að þegar maður gengur fell eða fjöll í fyrsta sinn. Til dæmis er gott að láta einhvern vita að maður sé að fara í fjallgöngu og þá sérstaklega ef maður er einn á ferð. Það getur einnig verið gott að taka með sér bakpoka til að vera við öllu búinn. Því við vitum öll að veðrið á Íslandi getur verið óútreiknanlegt og breyst á svipstundu.


Þegar ég fer í fjallgöngu þá met ég eftir aðstæðum hvað af eftirfarandi hlutum ég mun taka með mér í bakpokann:
- Auka peysa/primaloft jakka
- Regnbuxur
- Regnjakka
- Orkustykki eða hnetur
- Flatkökur með osti og appelsínusafa
- Fullan vatnsbrúsa
- Húfu/Vettlinga
- Höfuðljós
- Brodda
- Göngustafi (Vífilsfell)
Þegar kalt er í veðri þá klæði ég mig í ullarföt sem innsta lag.
Munum að hitinn kemur að innan svo það er betra að geta haldið á sér hita en að verða kalt. Við getum alltaf fækkað klæðnaði.
Mosfell – Mosfellsbær á nokkur góð fell til að klífa og er Mosfellið eitt þeirra. Mosfell er skammt frá Mosfellsbæ og keyrt er inn í mosfellsdal til að komast að fellinu. Ef keyrt er frá Mosfellsbæ þá má finna Mosfellskirkju á vinstri hönd, þar er beygt inn og lagt fyrir utan kirkjuna. Fellið er ágætlega bratt og um 200m í upphækkun en toppurinn sjálfur er breiður og aflangur. Gangan tekur um það bil 1-2 tíma. En þegar á toppinn er náð tekur við fallegt útsýni yfir Mosfellsbæ, Mosfellsdalinn og Esjuna. Það er frábært að ganga þetta fell í ljósaskiptum og/eða í þessu dásamlega haustveðri með allri sinni ljósadýrð.
Grímannsfell – er annað frábært fell sem tilheyrir Mosfellsbænum. Það er staðsett á Mosfellsheiðinni. Það er hægt að ganga nokkrar leiðir upp Grímannsfell. Ég ætla að segja ykkur frá leiðinni sem ég hef gengið. En það er keyrt inn í Mosfellsdalinn, fram hjá Gljúfrasteini og beygt inn næsta afleggjara til hægri eða hjá Helgufossi. Það er síðan gengið frá bílastæðinu í átt að Helgufossi. Haldið er áfram upp með fossinum og meðfram ánni. Það kemur síðan brú sem gengið er yfir í átt að fellinu og þá hefst uppgangan. Þessi leið er örlítið lengri ganga en Mosfellið. Gangan tekur um það bil 2 tíma. Þetta er þó mjög skemmtileg og góð leið. Hafa skal í huga að það getur verið snjór á leiðinni. Fyrir þá sem þora þá er hægt að enda gönguna á því að kæla sig í Helgufossi.
Vífilsfell – Að lokum er það fellið sem flest okkar hafa keyrt fram hjá þar sem Vífilsfell er staðsett á Hellisheiðinni. Þetta er ganga fyrir þá sem vilja ævintýri. Þessi ganga er aðeins meira krefjandi en hinar tvær. Til þess að komast að Vífilsfelli þá er keyrt Suðurlandsveginn þar til komið er að Litlu Kaffistofunni. Þá er beygt inn afleggjarann til hægri hjá malarnámunni inn í Jóspesdalinn. Bílnum er síðan lagt við malarnámuna og þá hefst rúmlega 1 km ganga í átt að fellinu. Þegar komið er að fellinu byrjar strax mjög brött uppganga. Þar er því mikilvægt að fara varlega af stað. Það gæti verið gott að taka með sér göngustafi í þennan leiðangur. Þegar upp er komið þá tekur við létt klifur til að komast alla leið upp á topp. Það eru kaðlar á öllum þeim stöðum sem þarf að klifra. Í þessari gönguferð gæti verið skemmtilegt að taka með sér smá nesti og njóta útsýnisins á toppnum ef veður leyfir. Mér finnst nefnilega mikilvægt að muna að „njóta en ekki þjóta“. Gangan er rúmlega 6 km í heildina og getur því tekið um 3 klst að ganga með nokkrum stoppum.
Að lokum vil ég nefna forritið Wapp-Walking app sem geymir safn fjölbreyttra gönguleiða sem er auðvelt að niðurhala í snjallsímann. Það er hægt að hlaða niður leiðum fyrirfram og nota kort án þess að þurfa nota gagnasamband. Wapp er með um 100 fríar gönguleiðir og hafa þeir ákveðið vegna hertra samgöngutakmarkana að gefa auka 30 fríar leiðir fram til áramóta.
Ég vona að þetta komi þér að góðum notum!
P.s
Þá vildi ég segja þér að það er hægt að fá góð útvistarföt frá Houdini í Hverslun
Og það er hægt að fylgjast með mér hér á Instagram.