Search
Close this search box.
Vegan afmælisveisla

Vegan afmælisveisla

Ég viðurkenni að ég hef dálítið gaman af því að státa mig af því þegar ég elda og býð uppá mat sem er 100% vegan og yfirleitt sykur- og glútenlaus. Ég heyri nefninlega alltof oft út undan mér að það krefjist svo mikillar fyrirhafnar að útbúa hollan, næringarríkan og ekki síst bragðgóðan mat sem inniheldur ekki dýraafurðir. Markmiðið er samt ekki að upphefja mínar matarvenjur og niðurlægja eða draga úr öðrum heldur frekar að sýna fram á að vegan matur og þá sérstaklega í áttina að ‘’plant based“ þurfi ekki að vera flókin og bragðlaus matargerð. Síðan er hægt að leika sér með uppstillingar á mat eins og maður vill og finnst mér sérstaklega gaman að láta matinn líta út eins og undirbúningurinn á bakvið hann hafi tekið allan daginn sem hann gerir í flestum tilfellum ekki. Þannig var reyndar ekki raunin um helgina enda var ég með nokkra rétti á boðstólnum.  Ég var nú samt heppin að vera með góðan aðstoðarkokk hana mömmu mína mér við hlið og pabbi fékk að fara í nokkrar búðarferðir fyrir dóttur sína. Maturinn vakti mikla lukku en ég bauð uppá eftirfarandi:

 • Pestó böku með klettasalati, avókadó og jarðaberjum toppuð með sriracha vegenaise
 • Ferskt heimalagað salsa
 • Sætkartöflu- og kínóasalat með sólþurkuðum tómötum og ólífum
 • Próteinpönnukökur með hnetusmjör- og heslihnetusósu og ferskum ávöxtum
 • Þrjár mismundandi gerðir af mínum uppáhalds hráfæðiskökum (snickers, lime og hindberja) 

Glútenlaus pestó baka

 

Botn

 • ½  bolli hörfræ
 • ½  bolli hörfræmjöl
 • ½  bolli hampfræ
 • ½ bolli sólblómafræ
 • ¼ bolli næringager
 • 1 ½ msk psyllium husk
 • 1 msk ítölsk kryddblanda
 • ½  tsk salt 

Þurrefnum blandað saman í skál.

 • ⅓ bolli sólþurrkaðir tómatar (olían sigtuð frá)
 • 1 stór tómatur
 • ½ rauð paprika
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 1 tsk fennel fræ
 • ¾ bolli vatn
 • Salt 

Allt sett í matvinnsluvél og maukað saman. Blandið saman við þurrefnin. Ef deigið er of þykkt er gott að bæta örlítið við af vatni. Mótið á bökunarpappír og skerið í 4 ferninga. Bakið við 180° í 30 mínútur.

Grænu eða rauðu pestói er dreift yfir botninn eftir að hann hefur bakast í ofni. Klettasalati, avókadó og jarðaberjum er þá dreift yfir. Punkturinn yfir i-ið er síðan bragðsterkt sriracha vegenaise (frá Follow your heart) sem fer vel með nánast öllu.

Snickers hráfæðiskaka

 

Botn 

 • 5 msk kakó
 • 12 ferskar döðlur
 • 1 bolli pekanhnetur
 • 1 bolli kókosmjöl
 • 1 tsk vanilla extract
 • ½ tsk salt

Hráefnunum er blandað saman í matvinnsluvél og þjappað í eitt stórt 22cm form eða tvo lítil 12cm form(ég notaði 12cm formin) og geymt í frysti á meðan karamellufylling er útbúin.

Karamellufylling

 • 10 döðlur (lagðar í bleyti í 10 mínútur)
 • 3 tsk kókosolía
 • 2 tsk vanilla extract
 • 3 msk möndlusmjör

Öllum hráefnum blandað saman í matvinnsluvél og fyllingunni dreift yfir neðsta lagið. Þá er kakan aftur geymd í frysti á meðan hnetusmjörsfylling er útbúin.

Hnetusmjörsfylling

 • 200ml kókosrjómi (ég notaði kókosrjómann frá Isola bio, fæst í lítilli fernu)
 • ¾ bolli hnetusmjör frá himneskri hollustu
 • 2 msk agave sýróp
 • 1/ tsk vanilla extract
 • ¼ tsk salt 

Öllum hráefnum blandað saman í matvinnsluvél og dreift ofan á kökuna. Færið kökuna í frysti og takið fram 20 mínútum áður hún er borin fram. Það góða við þessa köku er að hún er mjög massíf og seðjandi og því þarf maður ekki mikið af henni. Ég hef gert margar hráfæðiskökur en þessi uppskrift kemst í topp 3, þið bara verðið að prófa!

Próteinpönnukökur (uppskrift fyrir tvo)

 

 • 1 bolli haframjöl
 • 3 msk creamy vanilla protein (plant protein complex frá Now)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 2 1/2 bolli súkkulaðimjólk frá Rebel kitchen
 • 2-3 dropar english toffee stevía (Now)
 • 1 þroskaður banani
 • ½ tsk salt

Aðferð

Haframjölið er malað í matvinnsluvél þar til það er orðið að mjöli áður en restinni af hráefnunum er blandað saman við. Varist að hræra deigið of lengi til að halda pönnukökunum léttum og mjúkum. Ég notaði kókosolíu til steikingar. Hnetusmjörs- og eða nutella heslihnetusósu (uppskrift hér ) er dreift yfir ásamt ferskum berjum.

 Sigrún Birta

NÝLEGT