Search
Close this search box.
Vegan kvöldverðar skál

Vegan kvöldverðar skál

Hvað á að vera í kvöldmatinn? Þetta er líklega sú spurning sem við spyrjum okkur sjálf og aðra hvað oftast frá degi til dags. Að gera sér skál er skotheld hugmynd og möguleikarnir eru óendanlegir. Hér er um að gera að nota hugmyndaflugið og leika sér hvað varðar innihald og samsetningar. Hér að neðan er ein hugmynd að samsetningu sem inniheldur líklega flest þau næringarefni sem einkenna góðan og heilsusamlegan kvöldverð. Gaman er að raða öllu innihaldinu fallega í skál og skreyta jafnvel með ferskum kryddjurtum eða fræjum.


Þessi skál hentar þeim sem borða hvorki kjöt né mjólkurafurðir (vegan) en auðvitað er hægt að bæta við t.d. feta osti eða sýrðum rjóma, allt eftir því hver löngunin er hverju sinni.

Kjúklingabaunir

1 krukka kjúklingabaunir
Krydd eftir smekk, t.d. salt og pipar, papriku krydd og chili krydd

Aðferð: Setjið baunirnar í sigti og skolið þar til vatnið rennur hreint í gegn. Setjið hitaþolna steikingarolíu eða bragð- og lyktarlausa kókosolíu á heita pönnu. Setjið baunirnar á pönnuna og kryddið. Veltið baununum um á pönnunni þar til þær eru orðnar gullinbrúnar og heitar í gegn.

Sætkartöfluteningar

1 stór sæt kartafla
Hitaþolin steikingarolía eða brædd bragð- og lyktarlaus kókosolía.
Krydd eftir smekk, t.d. salt og pipar, chili krydd og kóríander.

Aðferð: Stillið ofninn á 180° og blástur. Afhýðið kartöfluna og skerið í teninga. Setjið teningana í skál og setjið nógu mikla olíu þannig að þunnt lag sé á öllum bitunum. Kryddið eftir smekk. Leggið bátana á bökunarpappír á bökunarplötu og bakið þar til teningarnir eru mjúkir að innan og stökkir að utan.

Lárperumauk (e. guacamole)

2 þroskaðir avocado
Safi úr hálfri lime
Tómatur
Ferskur chili eða chili krydd (valfrjálst)
Ferskur kóríander eða kóríander krydd
Salt og pipar eftir smekk

Aðferð: Avocado stappað á bretti/disk eða í skál. Tómatur skorinn í litla teninga, chili saxað smátt og bætt við stöppuna ásamt restinni af hráefnunum.

Ferskt grænmeti að eigin vali, t.d.:

Tómatar
Paprika
Gúrka
Avocado
Spínat

NÝLEGT