Search
Close this search box.
Vegan sunnudagsbrunch

Vegan sunnudagsbrunch

Tófú scramble ofan á ristuðu súrdeigsbrauði 

Tófú scramble er nýja uppáhaldið mitt þessa dagana en hingað til hef ég verið smeyk við að elda tófú. Það er samt allt að koma og þetta Tófú scramble er svakalega gott og ofureinfalt í framkvæmd. 

200 gr tófú
8 kirsuberjatómatar (skornir til helminga)
2 hvítlauksrif
4 sveppir
2 lúkur af spínati
1 tsk karrý
1 msk tamari
¼ tsk chillikrydd
Salt & pipar

 Aðferð:

Pressið Tófu kubb í nokkrar mínútur og rífið niður í litlar ræmur eða bita. Steikið sveppina og bætið svo pressuðum hvítlauk og tómötum og kryddið til. Því næst fer tófú útá pönnuna. Spínatinu er svo bætt við rétt í lokin.

Hummus með grillaðri papriku ofan á ristað súrdeigsbrauð

1 dós kjúklingabaunir
1 dós grilluð paprika (olían sigtuð frá)
2 hvítlauksrif
2 msk tahini
Safi úr einni límónu
½ tsk paprikuduft
1 tsk cumin
Ögn af salti

Aðferð:

Skolið kjúklingabaunir uppúr köldu vatni. Hráefnunum blandað saman í matvinnsluvél. Þynnt til með vatni eftir smekk.

Lárperumauk(guacamole) ofan á ristað súrdeigsbrauð

1 lárpera(avocado)
½ rauðlaukur
1 lúka kóríander
Hálfur rauður chilli(saxaður smátt)
Safi úr hálfri límónu
Salt & pipar

Aðferð:

Rauðlaukur er skorinn niður í mjög fína bita. Stappið lárperu og blandið hráefnum saman. Gott er að leyfa maukinu að standa í ísskáp í smá tíma og þá getur verið sniðugt að setja steininn af lárperunni í blönduna en þá helst lárperumaukið lengur grænt.

(Mér finnst einnig gott að hafa tómata með í lárperumaukinu en þar sem að þeir fengu að fljóta með í tófú scramble þá lét ég þá nægja þar)

Ég er sérstaklega hrifin af spírum. Þær eru góðar í salat og fara vel ofan á brauð og eru alveg einstaklega fallegar fyrir utan hvað þær eru hollar.

Pönnukökur með Nutella súkkulaðisósu

2 bollar haframjöl
1 ½ bolli möndlumjólk
1 maukaður banani
1 tsk kanill
1 tsk vanilludropar
Salt

Aðferð:

Setjið haframjöl í blandara þangað til það er orðið að mjöli. Því næst er öllum hráefnum blandað saman við haframjölið og þykktin á deiginu stjórnað með því að bæta við möndlumjólk eftir smekk. Pönnukökurnar eru steiktar á meðalhita eða þar til þær eru orðnar fallega gullinbrúnar.

Nutella súkkulaðisósa

2 msk heslihnetusmjör(sjá uppskrift fyrir neðan)
3 döðlur(lagðar í bleyti í 15 mínútur)
1 msk kakó
Vatn

Aðferð:

Öllum hráefnum blandað saman með töfrasprota eða lítilli matvinnsluvél og þynnt til með vatni eftir því hversu þykk sósan á að vera.

Heslihnetusmjör

200 gr heslihnetur
2 msk kakó
¾ dl hlynsýróp
1 tsk vanilla
Ögn af sjávarsalti

Aðferð:

Heslihneturnar ristaðar í ofni á 180° í 10 mínútur. Kælið hneturnar og færið á hreint viskustykki og nuddið hýðið af. Því næst eru heslihneturnar malaðar í matvinnsluvél í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til þær hafa brotnað niður. Hlynsýrópi, kakó og vanilludropum bætt við blönduna og blandað saman í 2 mínútur eða þar til smjörið er orðið silkimjúkt. Þynnt til með vatni eftir smekk.

Njótið vel og lengi!

Sigrún Birta

NÝLEGT