Veittu þér vellíðan

Veittu þér vellíðan

Höfundur: Berta Þórhalladóttir

Við erum heldur betur að upplifa breytta tíma þar sem mikil óvissa ríkir. Þá er mikilvægt að við hlúum vel að okkur sjálfum. Hvernig getum við hjálpað okkur að auka hamingjuna og lífsánægjuna? Hér að neðan koma fimm einföld ráð sem byggð eru á vísindalegum grunni.

Ræktum tengslin

Þrátt fyrir að geta ekki faðmað eða hitt alla þá sem okkur langar, þá er tími til að rækta tengslin. Finnum okkur nýjar leiðir til að búa til minningar. Með því að rækta tengslin við aðra getum við aukið vellíðan okkar. Til að rækta tengsl á tímum COVID, er sem dæmi hægt að hringja myndsímtöl eða hafa úti hittinga með vinum og slá þar með tvær flugur í einu höggi og hreyfa sig í leiðinni.

Hreyfum okkur

Dönsum við skemmtilega tónlist eða skellum okkur í sund. Förum í hjólatúra eða fjallgöngur. Njótum þess að vera úti í náttúrunni. Hreyfing veitir okkur aukna vellíðan. Öll hreyfing er góð. Það er þó mikilvægt að finna hreyfingu sem okkur þykir skemmtileg. 

Tökum eftir

Verum til staðar hér og nú. Tökum eftir því hvernig litirnir á himninum eru þegar sólin sest. Eða þegar haustið breytir um lit. Höldum í forvitnina og njótum þess að vera til.

Höldum áfram að læra

Það er hollt fyrir okkur að fara reglulega út fyrir þægindarammann. Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt? Skrá sig á námskeið. Rifja upp gömul áhugamál. Læra nýtt tungumál eða prófa nýja uppskrift. Setjum okkur skemmtileg markmið. Finnum eldmóðinn og höldum ótrauð áfram að vaxa.

Gefum af okkur

Það þarf ekki að kosta neitt að gefa af sér. Það er frítt að brosa. Hrósum þeim sem eiga það skilið. Gefum af tíma okkar. Tökum þátt í félagsstörfum eða sjálfboðaliðastörfum. Það eflir okkur að gefa af okkur.

Hlúum vel að okkur á þessum skrítnu tímum. Við komust í gegnum þetta saman. Höldum áfram að gera það sem veitir okkur ánægju.

Berta Þórhalladóttir

Þjálfa fólk á besta aldri í Mosfellsbænum, hóptímakennari hjá World Class og meistaranemi í Jákvæðri sálfræði.

Við gerð þessarar greinar var stuðst við: https://www.mind.org.uk/workplace/mental-health-at-work/taking-care-of-yourself/five-ways-to-wellbeing/

NÝLEGT