Þú ferð út að borða með Nonna frænda og þið pantið aðalrétt og desert. Þú segir: „Ojj þú ert meira svínið Nonni að borða svona mikið. Þú ætlaðir ekki að fá þér köku en fékkst þér samt af því þú ert svo veikgeðja og stenst engar freistingar.“ Dóra vinkona biður þig að koma í Kringluna að finna gallabuxur. Þið standið saman í mátunarklefanum og þú segir við Dóru: “Ojjj. Sjá þennan feita maga þinn. Og risastór símastauralærin í þessum buxum eru viðbjóður. Keyptu bara leggings”. Dóra segir að hún sé að reyna að grenna sig. Þú svarar: “Enn ein megrunin? Skil ekki af hverju þú rembist í þessu. Þér mistekst hvort sem er alltaf. Þú verður alltaf feit”.
Gunni í bókhaldinu segir þér niðurlútur að hann hafi sleppt æfingu í morgun. Þú stillir þér upp við hliðina á Konna og hvíslar í eyra hans allan daginn: „Þú verður alltaf feitur. þú ert letingi. Þú hefðir átt að fara á æfingu. Nú er allt ónýtt. Þú getur aldrei látið sjá þig aftur í ræktinni. Það vita allir að þú ert letihaugur. Þú hefur enga stjórn. Þú ert viljalaust verkfæri og fíkill. Þú getur þetta ekki“.
Svona talar enginn við vini sína. Þá ættum við enga vini. Við hrósum vinum okkar og hvetjum. Við sýnum samúð og samkennd þegar þeir hrasa eða illa gengur og hvetjum til að halda áfram. En við eigum ekki í neinum erfiðleikum með að tæta okkur sjálf niður í hausnum allan daginn. Við teljum að með því að krefjast eigin fullkomnunar í öllum verkefnum og beita hörkunni sjö þegar það er ekki uppfyllt sé merki um góðan gamaldags íslenskan drengskap og dugnað.
En ómakleg sjálfsgagnrýni og andúð rífur niður sjálfstraustið og svekkir sjálfsmyndina. Sjálfsgagnrýni eykur á neikvæðar tilfinningar og í slíku ástandi fýkur rökhugsun oft út í veður og vind. Sjálfshatur tætir upp sjálfstraustið til að gera nokkuð í vandamálinu og við erum ólíklegri til að tileinka okkur lausnamiðaðri hugsun. Sjálfsniðurrif sannfærir niðurtætta sjálfsmynd að það þýðir ekkert að reyna jákvæðari hegðun, eða lausnamiðaða aðferð því „feitabolla, græðgissvín og letihaugur“ eru ekki líkleg til að njóta velgengni á nokkru sviði.
Við getum ekki orðið besta útgáfan af okkur sjálfum ef við erum alltaf að tæta okkur niður.
Við getum ekki orðið besta útgáfan af okkur sjálfum ef við erum alltaf að tæta okkur niður. Hreyfing og hollt mataræði á að gera lífið betra með aukinni vellíðan og streitulosun. Það á ekki að vera uppspretta samviskubits og sjálfshaturs yfir því sem við gerðum eða gerðum ekki.
Ókei þú misstir af æfingu. Ókei þú borðaðir aðeins meira en ætlaðir þér. Þú dast á bossann eins og barnið obbossí. Það var óheppilegt en það gerist fyrir alla. Haltu samt áfram að skakklappast. Lífið er ekki beinn og breiður vegur sem við krúsum með aðra hönd á stýri eins og Bjössi að keyra út mjólkina. Lífið er alíslenskur malarvegur fullur af holum, steinvölum. Við hrösum. Við dettum. Það springur á dekki. Hvað gerum við? Við sýnum samkennd með sjálfinu.
Sýndu sjálfum þér skilning en ekki gagnrýni.
Veittu athygli að þér líði illa yfir atvikinu. Sýndu samkennd að slíkt gerist fyrir fleiri. Óþægindi og ströggl eru hluti af lífinu og margir ganga í gegnum mun verra. Að lokum fyrirgefðu sjálfum þér. Alveg eins og þú myndir fyrirgefa vini þínum í sömu sporum. Sýndu sjálfum þér skilning en ekki gagnrýni. Þegar þú heyrir þig innra með þér svína sjálfið út fyrir eitthvað sem þú gerðir, já eða gerðir ekki, ímyndaðu þér að þú talir við barn. Á hvað horfir þú þegar barn lærir að labba? Skammar þú fyrir hverja hrösun og hik? Ávítarðu þegar það riðar á litlu óstyrku fótunum. Eða hrósar þú og klappar saman höndum fyrir hverju skrefi. Þegar barnið dettur á bossann huggar þú með samkennd og skilningi, og hvetur til að halda áfram að reyna.
Sjálfssamkennd:
- Veitir betri líðan.
- Bætir sjálfstraust.
- Leiðir til hugmynda um hjálplegri hegðun.
- Stuðlar að sterkari lausnamiðaðri hæfni.
Þannig eykst trúin á að við getum sigrað hvaða hindrun sem er og komist í gegnum öll óþægindi lífsins. Sjálfssamkennd er öflugasta verkfærið til að verða besta útgáfan af sjálfum sér.
Heilsubók Röggu Nagla kom út í janúar 2015, hún hefur fengið frábærar viðtökur og fór strax á topp metsölulista. Heilsubókin er fáanleg í öllum helstu bókaverslunum.
Höfundur: Ragga Nagli