Verum hress, ekkert stress pýramídaæfing

Verum hress, ekkert stress pýramídaæfing

Nú er jólamánuðurinn nýliðinn og margir að koma sér af stað í upphafi árs með því að huga að hreyfingu og hollara mataræði. Desember getur verið stressandi fyrir marga sem eru þá líklega alsælir að vera komnir inn í janúar rútínuna. Það getur gert kraftaverk að kúpla sig út úr öllu stressi og fylla á orkustöðvarnar og hamingjuhormónin með stuttri en árangursmiðaðri æfingu. Æfingarnar þurfa nefnilega alls ekki að vara í klukkutíma eða lengur til þess að gagn sé af þeim. Það er raunar þannig þegar streitustigið er hátt og álagið mikið að líkaminn bregst oft á tíðum betur við 3-4 stuttum æfingum í viku frekar en 1-2 lengri.

Æfingin hér að neðan er frábær streitubani og tekur c.a. 35 mínútur með upphitun. Um er að ræða pýramídaæfingu (öfugur pýramídi) þar sem við vinnum okkur frá 50 endurtekningum niður í 10 endurtekningar af 5 ólíkum æfingum og svo frá 10 endurtekningum upp í 50 endurtekningar af öðrum 5 æfingum. Á milli pýramídaæfinganna erum við með einnar handar ketilbjöllu Snatch og ketilbjöllu Clean & Press sem við skiptumst á að gera 10 endurtekningar af eða 5 á hvorn handlegg.

Ég vona innilega að þið prófið þessa æfingu en það eina sem þarf er ein ketilbjalla eða handlóð. Þá vona ég líka að þrátt fyrir að sólarhringurinn virðist alltaf einhvern veginn 2-3 tímum styttri á þessum dimma árstíma að þið setjið sjálf ykkur í forgang og hugið að andlegri og líkamlegri heilsu og reglubundinni hreyfingu. Á þann háttinn verður veturinn einfaldlega miklu gleðiríkari og bjartari fyrir alla, hvort sem er okkur sjálf, börnin okkar eða annað samferðafólk.

Í góðri heilsu og hamingju.

Biggi og Linda

Verum hress, ekkert stress pýramídaæfing:

Upphitun:

600-1000m skokk eða róður eða 4-5 km hjól

Myndband með æfingunum

Þegar upphituninni er lokið vindum við okkur beint í æfinguna sem er á þennan máta:

50 Hnébeygjur (án þyngda)

10 Einnar handar ketilbjöllu Snatch (5 hægri/5 vinstri)

40 Uppsetur með snúningi

10 Einnar handar ketilbjöllu Clean and Press (5 hægri/5 vinstri)

30 Mjaðmalyftur á upphækkun

10 Einnar handar ketilbjöllu Snatch (5 hægri/5 vinstri)

20 Armbeygjur

10 Einnar handar ketilbjöllu Clean and Press (5 hægri/5 vinstri)

10 Hnébeygjuhopp

10 Einnar handar ketilbjöllu Snatch (5 hægri/5 vinstri)

10 Hnébeygjuhopp

10 Einnar handar ketilbjöllu Clean and Press (5 hægri/5 vinstri)

20 V-Ups

10 Einnar handar ketilbjöllu Snatch (5 hægri/5 vinstri)

30 Hliðarskref í hnébeygjustöðu

10 Einnar handar ketilbjöllu Clean and Press (5 hægri/5 vinstri)

40 Dýfur

10 Einnar handar ketilbjöllu Snatch (5 hægri/5 vinstri)

50 Hraðir Mountain Climbers

Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

Hér má sjá fleiri pistla frá Bigga og Lindu

NÝLEGT