,,Við horfum mikið á kostina hjá fólkinu í lífi okkar og reynum að tileinka okkur þá“

,,Við horfum mikið á kostina hjá fólkinu í lífi okkar og reynum að tileinka okkur þá“

Ingi Torfi og Linda Rakel eru að eigin sögn hálfgerðir íþróttaálfar og hafa alla tíð verið. ,,Við erum Akureyringar með þrjú börn, 6 ára, 13 ára og 20 ára. Líf og fjör á okkar heimili og aðalbúseta okkar þessa dagana er í litlum bústað í Fnjóskadal. Þar njótum við daganna í ró og næði og njótum lífsins með fólkinu okkar en það er einmitt eitt það skemmtilegasta sem við gerum, en þegar við erum tvö finnst okkur frábært að dunda saman, hanna, breyta og finna lausnir og leiðir til að gera umhverfið okkar enn betra og fallegra“.

Ingi Torfi kemur úr fótbolta og körfubolta ásamt því að hafa spilað golf í mörg ár. Á síðustu árum hafa svo fjallahjólreiðar, fjallgöngur og gönguskíði bæst við. Linda Rakel er með grunn úr fimleikum og fótbolta. Ásamt því hefur hún gegnum árin lagt stund á ýmiskonar útivist eins og snjóbretti, fjallgöngur, götuhjólreiðar, hlaup og gönguskíði.

,,Síðastliðin 10 ár hefur svo crossfit verið okkar íþrótt, bæði keppt á íslandsmótum og öðrum mótum ásamt því að æfa til gamans“, bæta Ingi Torfi og Linda Rakel við.

Ingi Torfi og Linda Rakel vilja viðhaldi góðu jafnvægi í lífinu.

Þau eru eigendur og stofnendur ITS macros sem þau stofnuðu árið 2020 eftir að hafa bæði hætt í störfum sínum til að láta drauminn um eigið fyrirtæki rætast, en þar starfa þau bæði sem næringaþjálfarar. ,,Það sem við höfum verið að gera tengt mataræði er að kenna fólki fyrst og fremst að vinna með magn og hlutföll þannig að hver og einn viðskiptavinur fær ákveðið magn af kolvetnum, próteinum og fitu til að stefna á að innbyrða yfir daginn. Þetta hefur reynst afar vel þar sem fólk á það til að ofhugsa allt sem snýr að mataræði í stað þess að nota tölur og staðreyndir. Við kennum fólki þetta“.

Ingi Torfi og Linda Rakel eru nýjustu pennarnir okkar á H Magasín og bjóðum við þau innilega velkomin í hópinn, að þessu tilefni heyrðum við í þeim og fengum að kynnast þeim og starfsemi ITS aðeins betur.

Ingi Torfi ásamt börnunum þeirra þremur

Fyrir hvað stendur ITS og hvert er megin markið ykkar með starfseminni?

,,ITS stendur fyrir margt, Skammstöfun Inga Torfa Sverrissonar en hugsuðum það líka sem It is… Þannig að við gætu bætt við þjónustuna í framtíðinni. Núna er það ITS macros, It´s Macros, It´s health, It´s lifestyle eða eitthvað í þeim stílnum. Við aðstoðum fólk við að bæta sinn lífsstíl með því að aðstoða það við æfingar, mataræði, markmiðasetningu, hugarfar og demba á það allskonar áskorunum og ögra sér.  Við erum bæði menntaðir viðskiptafræðingar og markþjálfar ásamt næringarþjálfaranámi hjá WAG og erum með brennandi áhuga á öllu sem tengist næringu og heilsu almennt. Í ITS samfélaginu leggjum við mesta áherslu á hvatningu, áskoranir, launsir, húmor og skemmtu. En hin gullna þrenning ITS er stöðugleiki, magn og hlutföll“.

Var það erfið ákvörðun að hætta í dagvinnunni og snúa ykkur alfarið að ITS?

,,Svarið er já og nei. Það er alltaf erfitt að kveðja góða vinnustaði og vinnufélaga en á sama tíma rosalega spennandi tækifæri sem við vorum með í höndunum. Það hefur alltaf verið draumur að vinna við það sem maður brennur fyrir og það er að hjálpa fólki og leiðbeina. Það hefur svo líka alltaf verið markmið að vinna í eigin fyrirtæki. Svo erum við búin að kynnast svo yndislegu fólki i gegnum þetta ævintýri og margir þeirra orðnir partur af okkar bestu vinum“.

Nú skrifuðuð þið bók hver var kveikjan að því og eru fleiri bækur væntanlegar?

,,Það hafði verið draumur Inga Torfa að skrifa bók en það átti nú að vera skáldsaga og plottið var klárt. En þegar við áttuðum okkur á því hvað við vorum með mikið af alveg frábæru fólki hjá okkur í þjálfun, sem hafði svo margt sniðugt fram að færa var hugmyndin komin. Bókin er full af peppi,hvatningu, hugmyndum og ráðum fyrir þá sem hafa áhuga á heilsu“.

,,Ingi Torfi er alltaf með nóg af hugmyndum og hann er alltaf með nýjar og nýjar pælingar sem mögulega verða að annarri bók“,bæti Linda Rakel við

,,Aldrei að segja Aldrei“.

Linda Rakel og Ingi Torfi ásamt börnunum sínum Kareni Ósk, Hafþóri Inga og Ólöfu Brögu

Hver er ykkar mesti sigur í lífinu?

,,Börnin okkar og fjölskyldan sem við erum búin að stofna saman“!

Setjið þið ykkur reglulega markmið?

,,Já við erum dugleg að setja okkur markmið! Höfum þau hnitmiðuð, raunhæf og tímasett. Þannig getur maður sett sér nýtt markmið þegar öðru er náð! Það er hvetjandi að setja sér markmið og styrkir sjálfstraustið þegar maður nær sínum markmiðum og því er mikilvægt að hafa það raunhæft svo það sé hægt að ná því. Það er samt pínu frasi hjá okkur “að setja hlutina á fimm ára planið” og svo gerast þeir á 5 vikum. Það hafa ótrúlegir hlutir gerst á einu ári hjá okkur en það er, að við teljum, af því að við erum dugleg að ræða allar hugmyndir okkar á milli og engin hugmynd er slæm. Við elskum að láta verkin tala“.

Hvað er það nýjasta sem er á döfinni hjá ykkur í dag?

,,Það nýjasta er vefverslunin okkar sem fer í loftið á næstu dögum með geggjuðum vörum. Einnig er matvæla bransinn búinn að fatta ITS áhrifin og allskonar hugmyndir og verkefni á teikniborðinu. Erum búin að framleiða ITS Macros ísinn með Ís og salatgerðinni á Akureyri og er hann seldur í öllum helstu verslunum landsins og framleiðandi hefur varla undan að anna eftirspurninni „.

Hvað viljið þið ráðleggja þeim sem langar að byrja en þora ekki að leggja af stað?

,,Fyrsta skrefið er alltaf að spyrja sig hversu mikið langar mig að ná árangri, sama hver hann er.  Annað skrefið er að finna sér leið sem hentar þér, hvað langar þig að gera“?

,,Þriðja skrefið er svo að fá aðstoð, hjálp, þjálfara, leiðbeinenda. Einhvern sem fylgist með þér og getur aðstoðað þig, hvatt þig og einhvern sem sér til þess að þú gerir það sem þú ætlaðir þér sama hvað það er.  Þannig færðu réttu verkfærin til að vinna með og læra af“.

Hver er ein mesta áskorun sem þið hafið tekist á við og hvernig tókst ykkur að yfirstíga hana?

,,Líklegast að skrifa bókina á sama tíma og fyrirtækið okkar var í fullum vexti. Það tókst með frábærri samvinnu sem hefur einkennt okkar samstarf og samband“.

Hvað er heilsusamlegt líf fyrir ykkur?

,,Þegar við erum með gott jafnvægi á milli næringar, hreyfingar, svefns og andlegrar heilsu. Þá líður okkur best“.

Ef þið ætlið að gera virkilega vel við ykkur, hvað gerið þið?

,,Þá setjum við eitthvað magurt gott kjöt á grillið, gerum góða macrofriendly sósu og grillað grænmeti með. Horfum á góða mynd og fáum okkur popp og Eitt sett“.

Uppáhalds matur?

,,Maturinn sem er okkar goto er Bolgnese“!

Hvaða 5 hluti eigið þið alltaf í ísskápnum?

,,Alltaf tilbúinn kjúkling og tilbúnar sætar kartöflur. Alltaf Teyg og Hleðslu og rauðrófusafa“.

Hver eru helstu áhugamálin?

,,Höfum áhuga á öllu sem tengt er heilsu, hvort sem það er til að bæta næringu, nýjar venjur, svefn, húð, hár eða hreyfingu almennt. Fylgjumst mikið með íþróttum og sérstaklega íþróttafólkinu okkar. Svo höfum við sameiginlegan áhuga á hönnun og arkitekt. Okkur finnst rosalega gaman að gera upp, breyta og bæta. Erum lausnarmiðuð og elskum að gefa gömlum hlutum nýtt líf með svartri málningu og svörtu spreyi“.

Hverjar er stærstu fyrirmyndirnar í ykkar lífi?

,,Við horfum mikið á kostina hjá fólkinu í lífi okkar sem er til fyrirmyndar og reynum að tileinka okkur þá. Hvort sem það er hugarfar, atferli, afrek eða persónuleikinn“.

Hvernig hugið þið að andlegu heilsunni?

,,Við förum upp í bústað og erum þar í kyrrðinni. Dundum þar og njótum þess að vera saman. Við erum líka dugleg að fara saman á nýja staði og rækta okkar samband.  Tölum mikið saman og erum miklir vinir. Það er mikilvægt til að halda andlegu heilsunni góðri“.

Að lokum:

Kaffi eða te?  Tea!

Mottó? Leyfðu þér að dreyma

Bók eða podcast? Hljóðbók

Instagram eða Facebook? Instagram

Hver væri titill ævisögu ykkar? 5ára plan= 5 vikna plan

Við þökkum Inga Torfa og Lindu Rakel kærlega fyrir spjallið og óskum þeim alls hins besta. Á næstunni munu lesendur H Magasín fá fyrstu pistlana frá þessu orkumikla og hressa kærustupari.

NÝLEGT