Hlauparinn Arnar Pétursson svaraði nokkrum spurningum um mataræðið, bætiefni og ýmislegu tengdu hlaupinu.
Hver er Arnar Péturs?
Í gegnun tíðina hefur mér oftast verið lýst sem duglegum. Annars er ég maraþonhlaupari sem spilaði áður fótbolta og körfubolta. Samhliða íþróttum hef ég verið í námi í Háskóla Íslands og hef lokið Bachelor gráðu í Hagfræði, meistaragráðu í Fjármálum fyrirtækja, meistaragráðu í Endurskoðun og Reikningsskilum og Kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla. Annars myndi ég lýsa mér í stuttu máli sem duglegum strák sem finnst gaman að gera hluti sem eru skemmtilegir. Þetta eru hlutir eins og að afreka eitthvað, læra nýja hluti, gefa af mér og segja hæ við vini mína.
Hvenær byrjaðir þú að hlaupa?
Ég byrjaði að æfa hlaup skipulega um tvítugt.
Hvaða aðrar Íþróttir hefur þú stundað?
Ég byrjaði í fimleikum og bý ennþá að því í dag. Ég var svo í fótbolta frá 5-16 ára og körfubolta frá 9-21 árs. Þó að ég væri líklega betri hlaupari í dag ef ég hefði byrjað fyrr að hlaupa þá er ég mjög þakklátur fyrir að hafa verið svona lengi í hópíþróttum því þær kenna manni svo margt.
Hvað kemur þér í gírinn?
Sjónrænar æfingar eins og að sjá fyrir mér hlaupið eða æfinguna, að horfa á gömul maraþonhlaup og að setja hlaupaplaylistann minn í gang. Svo fyrir stór hlaup er snilld að lesa skemmtileg hvatningarskilaboð frá fólkinu í kringum mig.
Hvernig er mataræðið þitt?
Frá degi til dags er svipað á boðstólunum en samt með fjölbreyttri fæðu. Með því móti get ég stjórnað því auðveldlega hversu mikla orku ég er að taka inn og passa þannig að borða hvorki of mikið né of lítið, þannig get ég líka stjórnað þyngdinni mun betur eftir því hvort ég er að lyfta og þyngja mig eins og á fyrri hluta æfingatímabilsins eða að komast í keppnisþyngd seinna á tímabilinu. Ég forðast unnar kjötvörur og unnin mat yfir höfuð eins og ég get. Ég er alltaf að færast meira og meira í áttina að grænmetisfæðunni en borða takmarkað af ávöxtum, er helst að vinna með banana, bláber, jarðaber, avocado og rúsínur. Brauð er svo nánast alltaf í morgunmat og skyr í kvöldsnarl.
Hlustar þú á eitthvað þegar þú ert að hlaupa, ef svo er hvað?
Ég elska að hlaupa með tónlist eða að hlusta á gott podcast. Ég tók til dæmis um daginn fyrsta þáttinn af Milliveginum sem var virkilega næs. Annars er það Doctor Victor sem ég hlusta mikið á og hann hefur séð um að gera fyrir mig hlaupaplaylista. Mér finnst gott að blanda rólegum lögum og svo mjög hvetjandi lögum. Ég mæli þess vegna með að allir setji þessi þrjú lög á hlaupaplaylistann sinn, Celine Dion – Ashes, Doctor Victor – Somebody Like You og Galantis – Runaway. Ég lofa að þið hlaupið hraðar.


Hvað tekur þú margar æfingar á viku?
Þegar mest lætur er ég að taka 13 æfingar í viku en ég tileinka að lágmarki þrjár klukkustundir á hverjum degi í æfingar. Þetta getur verið allt frá því að vera eingöngu hlaupaæfingar og í það að vera gufa, kaldur pottur, jóga og notkun á nuddrúllunni. Þrjár klukkustundir á dag er lágmarkið og og fimm klukkustundir hámarkið sem ég eyði í það á hverjum degi að verða betri íþróttamaður. Þetta eru alls ekki alltaf æfingar á hámarksákefð en þetta eru litlar æfingar, andlegar æfingar og æfingar sem snúa að endurheimt sem geta skipt öllu máli til að ná sem mestum árangri.
Hvaða vörur frá NOW notar þú og afhverju?
Íslenskan nær oft mjög fallega yfir hugtök. Þannig liggur það í orðanna hljóðan hvað fæðubótarefni tákna fyrir mig.
Ég er með mjög háleit markmið og að hlaupa 110-200km á viku setur mikið álag á líkamann þess vegna þarf næringin að vera í toppmálum ef allt á að ganga upp.
Ég reyni að fá sem mest af næringu úr fæðunni sem ég borða en nota NOW vörurnar til að sjá til þess að hver einasti dagur innihaldi þau næringarefni sem ég þarf til að hámarka líkurnar á árangri. Ég nota B-12 ultra til að hjálpa mér við endurheimt og svo er B-12 notað til að búa til rauð blóðkorn sem flytja súrefni. Green Phyto Foods finnst mér svo algjör snilld en það er ofurblanda úr jurtum sem hjálpar mér að fá nauðsynleg næringarefni en ég nota þetta sérstaklega á dögum sem ég næ ekki að borða nægilega mikið af grænmeti. Aðrar vörur eru svo Full Spectrum Mineral Caps fyrir steinefni og Probiotic-10 25 billion sem eru góðgerlar og hjálpa við að hafa góða þarmaflóru. Núna þegar ég verð í háfjallaæfingabúðum tek ég svo Iron Complex en járn inntaka hjálpar til við að aðlagast að hæðinni og er notað til að búa til hemóglóbín. Ég er einnig hrifinn af Kúrkúmín, MCT-olíunni og Odorless Garlic.


Þú færð NOW pakkann hans Arnars í H Verslun
Hvað hleypur þú mikið í hverri viku?
Það fer eftir því hvar ég er staddur í æfingatímabilinu. Í ár voru tvær vikur í röð þar sem ég hljóp 200km og 205km en þá var ég líka í æfingabúðum í Suður-Afríku. Venjulega er ég að hlaupa um 110-170km á viku. Með hlaupunum tek ég svo lyftingaæfingar og styrktaræfingar en sá þáttur á það til að gleymast hjá hlaupurum.
Hvað er það við hlaupið sem heillar þig?
Ég gæti þurft heilan podcast þátt til að fara nægilega vel yfir það. Orðatakið „þú uppskerð eins og þú sáir“ á rosalega vel við hlaupin. Svo lengi sem þú heldur stöðugleika í æfingum og forðast meiðsli þá muntu verða betri. Hlaup eru líka svo einföld íþrótt sem hægt er að stunda hvar sem er, einnig gefur þetta manni tíma til að vera einn með sjálfum sér og hugsa um daginn og veginn. Á sama tíma er hægt að fara saman með vini eða vinkonu og spjalla saman en samt taka nákvæmlega æfinguna sem þú áttir að taka. Þetta er félagsleg íþrótt sem samt gefur manni tíma með sjálfum sér. Þetta er hugarleikfimi á sama tíma og þetta þjálfar líkamann. Áður en ég byrjaði í hlaupum hefði ég átt erfitt með að svara þessari spurningu en í dag væri einfaldara að svara spurningunni um hvað það væri sem heillar ekki við hlaupin því það er ósköp fátt sem er ekki snilld við að hlaupa.
Hver er þín mesta fyrirmynd?
Ég hef alltaf reynt að hafa sem flestar fyrirmyndir á fjölbreyttum sviðum en bara tekið ákveðna þætti frá hverjum og einum. Í fljótu bragði myndi ég segja að mínar helstu fyrirmyndir væru Jim Carrey, Ricky Gervais, Eliud Kipchoge, Kenenisa Bekele, Kobe Bryant, Charles Barkley, Kanye West og Renato Canova.
Hvað er næst á döfinni hjá þér?
Ég er núna staddur í Bandaríkjunum þar sem ég verð í háfjallaæfingabúðum til 17. desember. Ég dvel á stað sem heitir Mammoth Lakes og er í 2100m hæð. Þegar þú æfir í svona hæð þá eykst súrefnisupptaka líkamans og auðveldar þér að hlaupa við sjávarmál. Þetta er allt liður í undirbúningi til að ná Ólympíulágmarkinu í maraþoni á næsta ári. Á milli æfinga mun ég svo vinna að bók sem ég er að skrifa og fjallar um allt sem viðkemur hlaupum og hugmyndafræðinni á bakvið æfingarnar. Með bókinni er markmiðið að sýna fólki alla leyndardómana á bakvið árangur í hlaupum og hvernig er hægt að verða góður hlaupari með tiltölulega einföldum hætti og án þess að meiðast.
Hvaða ráðleggingar hefur þú til þeirra sem eru að byrja að hlaupa?
Ég myndi mæla með því að setja sér markmið, mæta í hlaupahóp og fá einhvern í kringum sig með sér. Annars mæli ég líka með að hafa samband við mig á instagram á @arnarpetur og fá bara lauflétt byrjendaplan sem inniheldur grunnupplýsingar á bakvið það sem þarf til að bæta hlaupagetuna og hlaupastílinn. Ég vildi óska að ég hefði vitað allt sem ég veit núna áður en ég byrjaði að hlaupa svo maður hefði getað sleppt því að rekast á veggi eins og maður gerði í byrjun.
Hvað hefur þú orðið oft Íslandsmeistari og í hvaða greinum?
Ég hef orðið 24 sinnum Íslandsmeistari í frjálsum íþróttum og í fyrra varð ég fyrsti frjálsíþróttamaðurinn sem verður Íslandsmeistari í 9 mismunandi greinum á sama árinu. Þetta eru greinar eins og 1500m innanhús, 3000m innanhús, 3000m hindrunarhlaupi, 5000m á braut, 5km götuhlaupi, 10.000m á braut, 10km götuhlaupi, víðavangshlaupi, hálfu maraþoni og í heilu maraþoni. Áður en ég byrjaði í hlaupum varð ég Íslandsmeistari í yngri flokkum í fótbolta og körfubolta með Breiðablik.


Hvert stefnir þú?
Ég stefni lengst upp í átt að tunglinu…nei ok ég ætla að hætta með þetta…Næsta markmið hjá mér eru Ólympíuleikarnir 2020 í Tókýó í maraþoni. Á leiðinni þangað langar mig svo að slá Íslandsmetið í 5km götuhlaupi, 10km götuhlaupi, hálfu maraþoni og heilu maraþoni. Mig langar líka að gefa út bók um hlaup og svo er spurning hvort maður skelli sér ekki bara í doktorsnám. Að minnsta kosti ætla ég að halda áfram að gera skemmtilega hluti og reyna að hafa sem mest góð áhrif í leiðinni.
Hvað er árangur í þínum huga?
Ég horfi annarsvegar á árangur og hinsvegar á afrek. Árangur er persónubundinn á meðan afrek fer eftir árangri annarra. Að afreka eitthvað er það skemmtilegasta sem ég geri en að ná árangri er nátengt því. Hvort sem ég horfi á afrek eða árangur finnst mér öllu máli skipta að það sem ég geri hafi jákvæð áhrif á annað fólk. Ég vil að minn árangur hjálpi öðru fólki að ná sínum markmiðum. Það getur verið góður árangur að ná Ólympíulágmarkinu en það væri alvöru afrek ef þú getur í leiðinni átt þátt í því að hafa jákvæð og hvetjandi áhrif á annað fólk. Þess vegna reyni ég að horfa ekki eingöngu á árangurinn á pappírnum heldur líka að gefa af mér í leiðinni.
Hvað mótiverar þig?
Allt milli himins og jarðar. Ég gæti ábyggilega talið þrjátíu atriði sem mótivera mig því þegar þú ert að reyna að ná þínum markmiðum ættirðu að byrja á að átta þig á því hvað það er sem mótiverar þig. Því fleiri hlutir sem þú getur talið upp því líklegra er að þú náir þínum markmiðum. Hérna eru nokkrir persónulegir þættir sem mótivera mig á hverjum degi. Að gleðja mömmu og pabba, vera fyrirmynd fyrir tvíbura bróður míns, gera Andreu stolta af mér, hjálpa öðru fólki að ná sínum markmiðum og að hafa sem mest gaman í sem lengstan tíma.
Við þökkum Arnari kærlega fyrir spjallið!