Þann 10. september síðastliðinn tókust hinar landsþekktu marglyttur á við verðugt verkefni þegar þær syntu yfir Ermasundið í boðsundi. Markmiðið með sundinu var að vekja athygli á plastmengun í sjó en þær stöllur söfnuðu áheitum fyrir Bláa herinn.
En hverjar eru marglytturnar?
Hópurinn samanstendur af sex afrekskonum sem allar eiga það sameiginlegt að hafa mikla ástríðu fyrir útivist og fjölbreyttum íþróttum í náttúrunni. Marglytturnar skipa þær Birna Bragadóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Brynhildur Ólafsdóttir, Sigurlaug María Jónsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir og Halldóra Gyða Matthíasdóttir.
Við tókum létt spjall við hópinn um sundið, undirbúninginn og hverju þær vilja skila til samfélagsins.
Hvað fannst ykkur standa upp úr við þetta magnaða afrek?
Brynhildur: Samstaðan og vináttan í hópnum. Það lögðust allar á eitt með að hjálpast að og láta þetta ganga upp, hvort sem það var biðin í Dover, dvölin á bátnum eða sundið sjálft. Svo verð ég að viðurkenna að það kom mér á óvart að hvað þetta var erfitt. Það er engu logið upp á þetta Ermarsund. Þetta er Everest sjósundsfólks og við fengum alveg að finna fyrir skapsveiflum hafsins þessar 15 klukkustundir.
Sigrún: Það sem stendur upp úr er að við kláruðum sundið því það er ekki sjálfgefið, það er svo margt sem getur farið úrskeiðis eins og veikindi og veður. Einnig var hópurinn mjög góður og mikil samheldni og jákvæðni. Ef að horft er á stóra samhengið þá er allur undirbúningurinn ofarlega í huga, einnig að hafa tekið þá ákvörðun að styrkja Bláa herinn og vekja athygli á plastmengun. Hvað mig varðar þá hefur þetta verkefni hreyft við mér og ég hef gert ýmislegt heima við til að draga úr plastnotkun.
Silla: Hvað hugurinn er ótrúlega öflugur og kemur manni langt þegar á þarf að halda. Um leið og ég fór að raula lag í huganum („Lífið er yndislegt“) þegar neikvæðar hugsanir sóttu á mig í sjónum þá breyttist líðanin og tempóið og það varð mun léttara að synda í öldunum. Samvinna hugar og líkama er alveg magnað fyrirbæri. Það var líka dásamlegt og stóð auðvitað upp úr að veðurglugginn skildi opnast fyrir okkur á síðasta degi sundréttarins okkar og að við skildum ná að klára sundið á sléttum 15 klst. Og svo auðvitað samstaðan, jákvæðnin og gleðin hjá Marglyttuhópnum í heild sinni, bæði Marglyttum í sjó og á þurru landi. Hvatningin og samhugurinn sem við fundum fyrir hjá þjóðinni. Og síðast en ekki síst: þakklæti!


Ég er ennþá að ná því að við höfum í alvörunni gert þetta, synt yfir Ermarsundið, frá Englandi til Frakklands. Þetta er búið að vera mikill lærdómur sem maður fer í gegnum og ómetanlegt að fara í gegnum þetta með svona frábæru liði og eiga þessa ógleymanlegu lífsreynslu með þeim. Ég er virkilega stolt af því að við settum okkur svona metnaðarfullt markmið og unnum streitulaust að því að ná því í 2 ár. Það komu ýmsar hindranir upp á leiðinni. Ég t.d. axlarbrotnaði í byrjun maí og sem er mjög erfitt brot þegar ég ætlaði að fara að gefa allt í sundæfingarnar. Með þrjósku og þrautseigju og góðum stuðningi frá liðinu komst í gegnum það. Það var algerlega þannig þegar á reyndi, þá vorum við í þessu saman. Okkar slagorð er: ein fyrir allar, allar fyrir eina! Það reyndi líka á þolinmæðina að bíða af sér bræðluna. En þegar upp var staðið þá gátum við nýtt tímann til að þétta teymið enn frekar og við vorum fullkomnlega tilbúnar og spenntar þegar kallið kom. Hugurinn ber mann hálfa leið og maður getur miklu meira en maður heldur. Þegar þetta verður virkilega erfitt þá þarf maður að selja sjálfum sér að maður geti þetta. Sjósundið reynir virkilega á andlegan styrk, sérstaklega í langsundi og miklum kulda. Maður þarf að velja hugsanirnar vel.
Birna: Það er einfaldlega ekki í boðið að hætt eða gefast upp. Stuðningur frá Marglyttunum var ómetanlegt, bæði í aðdragandanum og sundinu sjálfu. Með gleðina og þrautseigjuna að vopni sigruðum við Ermarsundið saman.
Í hverju syntuð þið og hvernig reyndist það?
Sigrún: Við syntum allar í sundbolum frá Speedo og vorum einnig með sundgleraugu og sundhettu frá þeim. Þetta voru mjög fallegir bolir en henta kannski ekki fyrir langsund. Það var mjög gaman við vorum allar í eins sundbolum en við skiptum um sundboli fyrir hvern sundprett. Við notuðum þrjá mismunandi sundboli og eru þeir allir búnir að fá nöfn J Sundgleraugun voru mjög fín en ég notaði minni útgáfuna af þeim þar sem þau henta mínu andliti betur. Sundhettan var mjög flott á litin og var auðvelt að sjá hana í sjónum sem er mjög gott upp á öryggið.


Halldóra: Það eru mjög skýrar reglur varðandi Ermasundið það má bara synda í sundbol með hefðbundna sundhettu og sundgleraugu (ekki neoprene galli, sokkar, hanskar eða sunhetta). Við syntum í SPEEDO sundbolum, vorum með fjórar mismunandi boli ef við hefðum þurft að fara út í fjórum sinnum. Fórum alltaf í þurran bol eftir hvert sund. Fyrst syndum við í nýjasta bolnum, skærblái, en hann er mjög þægilegur og virkilega fallegur. Svo syntum við í Viðeyjarbolnum, svartur, með kraga og renndur að aftan. Í þriðja skiptið sem við fórum út, fórum við í forsetabolnum sem við vorum í þegar fyrstu myndirnar voru teknar af okkur. Speedo sundbolirnir voru allir mjög þægilegir, en ég var sérstaklega ánægð með Viðeyjarbolinn, sem er renndur að aftan og með kraga upp í háls, hann er bara einstaklega þægilegur. Vorum með stóru Speedo sjósundgleraugun, bæði með lituðu gleri og glæru, sem var líka nauðsynlegt. Notaði lituðu glerin í sólinni um daginn, en þessi glæru í myrkrinu um kvöldið. Mjög góð gleraugu og það lak aldrei inní þau hjá mér. Var líka með SPEEDO sundhettu, sem er mjög góð sérstaklega þar sem ég er með sítt hár, og ég elska Speedo sund-skrúurnar sem ég nota í eyrun og get ekki verið án.
Birna: Reglurnar í Ermarsundinu eru þær að sundfólk má einungis synda í hefðbundum sundfötum með sundgleraugu og sundhettu. Við vorum virkilega ánægðar með að vera aðeins í því besta og syntum í Speedo sundbolum. Við vorum með fjóra sundboli með okkur sem við notuðum bæði á æfingum og í Ermarsundinu sjálfu, þar sem eftir hverjan sundsprett er mikilvægt að fara úr blautum sundbol og síðan í þurran. Það sem við erum allar konur á best aldri og okkur finnst einnig mikilvægt að sundbolirnir séu góðir til sund en líka klæðilegir og fallegir eins og Speedo sundbolirnir eru.


Hvað var undirbúningurinn langt ferli?
Birna: Undirbúningurinn er búin að eiga sér stað síðan haustið 2017. Þá kom upp sú hugmynd að það væri skemmtileg áskorun og lífsmarkmið að setja saman öflugt kvennalið til að synda yfir Ermarsundið. Um langtímamarkmið var að ræða enda Ermarsundsleiðin oft kölluð Mount Everest sjósundfólks, kröfur um hæfni sundfólks eru miklar og áskorunin það vinsæl að tveggja ára bið er eftir því að komast að. Eftir að hafa skoðað báta og lesið umsagnir frá Ermarsundsfólki, varð báturinn Rowena með feðgunum Peter og Peter jr. fyrir valinu og dagsetning negld eftir tvö ár. Æfingar hófust svo af fullum krafti síðasta vor þegar liðið sem fékk nafnið Marglytturnar, var fullmannað. Við lögðum áherslu á að undirbúa okkur bæði andlega og líkamlega. Einnig var mikilvægt að efla liðsheildina. Við reyndum að búa okkur undir það að synda í öllum aðstæðum og æfðum okkur í miklum öldugangi, kulda, myrkri og syntum með marglyttum. Stóra áskorunin hér á Íslandi var að synda tveggja tíma samfellt sund í sjónum allar saman. Þegar við höfðum lokið við það vissum við að við vorum færar í flestan sjó.
Hvernig undirbjuggið þið ykkur andlega?
Silla: Það sem hjálpaði okkur mikið andlega var að klára tveggja tíma sjósundsprófið í 15 gráðum köldum sjó í Nauthólsvíkinni í lok júlí sem er forkrafa fyrir Ermarsundið. Við kviðum flestar fyrir því prófi sem er í senn andleg og líkamleg þrekraun og það var frábært að ljúka því allar saman og standast prófið. Jafnramt að synda yfir Skerjafjörðinn (frá Ægissíðunni yfir á Bessastaði) í enn kaldari sjó og miklum öldugangi gaf okkur sjálfstraust og kraft um að við gætum þetta alveg. Svo höfðu nokkrar mætt marglyttum á sundi í Grundarfirði á einni samsundsæfingunni yfir fjörðinn og það var góður andlegur undirbúningur líka. Við fengum fund með reyndum íþróttasálfræðingi sem fór yfir margt gagnlegt með okkur, t.d. varðandi liðsheild, samvinnu, hvað við höfum stjórn á og hvað ekki o.fl. Það gaf okkur tækifæri til að tala betur saman sem og að hlusta hvor á aðra og ég held að það hafi þjappað okkur betur saman. Minn persónulegur undirbúningur: Hugleiðsla og núvitund hefur síðastliðin ár veitt mér mikinn andlegan styrk, yfirvegun og skýrleika sem kom sér svo sannarlega vel að hafa í þessari áskorun. Síða að geta leitað til sjósundsreynsluboltana í hópnum, fengið ráð, leiðsögn og hvatningu, hjálpaði mér líka mikið í andlega undirbúningnum.


Hvað er þetta löng vegalengd í heildina sem þið syntuð allað saman?
Halldóra: Vegalengdin frá Dover í Englandi til Cap Gris Nez í Frakklandi er í beinni loftlínu 34 km. Við syntum rétt tæpa 40 km. út af straumum, þá er ekki synt beint yfir. Við náðum að klára sundið á 15 klukkustundum sléttum.


Hverjar voru helstu hindranirnar?
Sigrún: Helstu hindranirnar á svona sundi er veðrið því það breytist ótrúlega fljótt í Ermarsundinu. Einnig getur hausinn verið versti óvinur manns í sundinu því aðstæður geta verið erfiðar, tilhugsunin um hin margvíslegu sjávardýr sem geta orðið á vegi okkar líkt og marglyttur, álar og höfrungar. Svo er myrkrið gríðarlega mikið, en ég er mjög myrkfælin. Það var því mjög erfitt að hoppa út í sjó í kolsvörtu myrkri og synda í klukkutíma, því þessi klukkutími getur verið ansi lengi að líða. Mínar helstu hindranir voru að þegar ég er búin með minn annan sundsprett þá dett ég um borð í bátnum og bráka á mér olnbogann. Ég fann strax að eitthvað mikið hafði gerst í fallinu en ég sagði þó ekkert því ég vissi að ég ætti einn sundsprett eftir og ef ég gæti ekki synt hann þá yrði boðsundið flautað af. Ég tók því verkjalyf og undirbjó mig undir að synda aftur eftir 5 klst. Þá synti ég minn erfiðasta sundsprett, það var komið svarta myrkur, haugasjór og ég mikið verkjuð og þetta allt reyndi á. Tíminn ætlaði aldrei að líða og fystu 30 mínúturnar voru mjög erfiðar, sérstaklega andlega en síðan gerðist eitthvað og seinni helmingurinn gekk betur.
Hvað skiptir mestu máli á meðan á sundinu sjálfu stóð?
Sigrún: Það sem skiptir öllu máli er að hafa hausinn rétt skrúfaðan á sig, þ.e. að andlega hliðin sé í lagi. Það er oft talað um að við erfiðar aðstæður sé andlegi þátturinn 70% og sá líkamlegi 30%. Sundmaður verður að vera eins hvíldur og hægt er og vel nærður því orkan skiptir öllu máli. Í svona sundi verður að synda eins hratt og hægt er og halda dampi og því skiptir það miklu máli. Muna samt eftir því að reyna að njóta þess að synda því það eru forréttindi að fá að taka þátt í svona verkefni og hafa heilsu til þess.
Hvað var erfiðast?
Silla: Það sem var erfiðast fyrir mig var þriðji sundleggurinn minn, sérstaklega seinni hálftíminn sem mér fannst aldrei ætla að líða. Þá var komið myrkur og mikill öldugangur og ég gleypti töluvert af sjó. Og svo að koma aftur upp í bátinn sem vaggaði töluvert í öldunum, búin að missa sjóndeildarhringinn út af myrkrinu og verða sjóveik. Það var mikil ógleði og vanlíðan sem kom upp hjá mér þá sem lamaði mig hálf partinn í dágóðan tíma.
Hverju viljið þið skila til almennings?
Birna: Það var líka einstakt fyrir okkur að finna þessa jákvæðu og góðu strauma frá öllum þeim sem fylgdust með hérna heima. Við erum þakklátar þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem höfðu trú á okkur og hétu á okkur yfir Ermarsundið. Þau framlög skiluðu sér óskert til umhverfissamtakanna Bláa hersins. Markmiðið með sundinu var að vekja athygli á mengun í hafi. Við vonum innilega að okkur hafi tekist að hreyfa við umræðunni með sundinu okkar og nú í plastlausum september, þar sem samhliða því er verið að hvetja fólk til að draga úr notkun plast og ganga vel um jörðina. Við eigum líka traust og gott bakland eru erum einnig þakklátar fjölskyldu og vinum sem stóðu þétt við bakið á okkur allan tímann og studdu okkur í því að láta drauminn rætast. Þegar unglingsdóttir mín hringdi í mig strax eftir sundið sagði mér hvað hún væri stolt af mér og þætti ég fyrirmynd fyrir hana, fannst mér björninn unninn!


Af hverju völduð þið þetta málefni til að safna fyrir og vekja athygli á?
Þórey: Það er auðvitað ómetanlegt að geta verið í umhverfisvænum fatnaði frá fyrirtæki eins og Houdini sem tekur samfélagsábyrgð alvarlega. Fyrir utan það þá hentaði fatnaðurinn okkur sérstaklega vel þar sem hann er bæri hlýr, praktískur og sniðin fyrir aktívt útivistarfólk eins og okkur. Svo má ekki gleyma því að þetta eru virkilega falleg hönnun sem fer öllum vel.
Við ákváðum snemma í ferlinu að við vildum vekja athygli á heilsu hafsins og þá sérstaklega á þá umhverfisvá sem plastmengun í hafi er. Það er enginn með tærnar þar sem Blái herinn hefur hælana í þessum efnum og því var þetta „perfect match“ frá upphafi. Blári herinn hefur í 25 ár unnið með allt að 6000 sjálfboðaliðum við að hreinsa rúmlega 1400 tonn af rusli af strandlengunni í kringum Ísland. Þau eiga skilið athygli og stuðning o við erum afar stoltar af því að hafa náð að safna 1.7 milljón sem rann beint í þeirra góða starf og á sama tíma að vekja athygli á þeirra starfi og þessu mikilvæga málefni
Hvað er næst á dagskrá hjá ykkur Marglyttunum?
Halldóra: Ég er að fara að taka þátt í fjallahlaupinu GRAND RAID REUNION á frönsku eyjunni Reunion sem er í Indlandshafi, austan við Madagaskar í Afríku 18. október næstkomandi. Hlaupið er 100 mílur eða um 168 km með um 10.000 metra hækkun. Tímamörkin eru 70 klst. Þetta er víst mjög krefjandi 100 mílna utanvegahlaup og er ég full tilhlökkunar að takast á við það verkefni með gleðina að leiðarljósi allan tímann.
Birna: Við erum miklar ævintýrakonur og eftir þessa upplifun þá erum við rétt að byrja. Við erum með augastað á flottum og metnaðarfullum verkefnum, sem ekki er tímabært að greina frá að svo stöddu.
Brynhildur: Þessi hópur er svo flottur og sterkur að það væri synd að halda ekki áfram. Enda er nóg af skemmtilegum áskorunum þarna úti sem einhver þarf að fórna sér í að takast á hendur. Ég og nokkrar aðrar úr hópnum stefnum meðal annars á að þvera Vatnajökul næsta vetur. Við erum líka byrjaðar að ræða hugmynd að næstu sundáskorun sem verður algjört dúndur en enn er of snemmt að kíkja ofan í þann pakka!

