Search
Close this search box.
Vildi verða bestur

Vildi verða bestur

Þórólfur Ingi Þórsson byrjaði að stunda hlaup af einhverri alvöru þegar hann varð fertugur. Markmiðið var að verða besti hlauparinn í hans aldursflokki, 40-44 ára, sem tókst og gott betur en það því hann stimplaði sig inn sem einn besti hlaupari landsins, óháð aldri. Þórólfur  Ingi á núna 7 aldursflokkamet í öldungaflokkum. 

„Ég byrjaði fyrst að hlaupa þegar ég var 25 ára og þá aðallega til að hreyfa mig reglulega. Ég hafði aldrei hreyft mig mikið og varð jafnvel móður við það eitt að ganga upp þrjár hæðir. Í kringum fertugsaldurinn urðu töluverðar breytingar í lífi mínu og í kjölfarið ákvað ég byggja mig upp sem manneskju. Ég vildi finna styrkleika mína og vissi að ég væri fínn hlaupari. Ég ákvað því að nota hlaupin til að rífa mig í gang og setti mér um leið það markmið að verða besti hlaupari í aldursflokknum 40-44 ára. Þetta var um áramótin 2015-2016 en síðan varð þróunin sú að ég hef náð að verða með bestu hlaupurum landsins, burtséð frá aldri,“ segir Þórólfur Ingi, þegar hann er inntur eftir því hvers vegna hann stundi hlaup.

„Ég setti mér líka langtímaplan til 40 ára, sem snýst um að gera allt sem ég get til að vera áfram við góða andlega og líkamlega heilsu þegar ég verð áttræður. Mig langar til að vera til staðar fyrir dætur mínar tvær þegar ég verð kominn á þann aldur,“ segir Þórólfur Ingi. 

„Ef maður finnur gleðina í því að hreyfa sig og sér árangurinn, þá kemur hitt að sjálfu sér og löngunin í að lifa heilbrigðara lífi eykst. Þetta snýst líka um þolinmæði, ætla sér ekki um of og breyta bara einu í einu,“ segir Þórólfur Ingi.

Hver er lykilinn að þessum góða árangri í hlaupum?

„Það eru margir lyklar. Ég fór að æfa hjá Mörthu Ernstsdóttur, sem um árabil var ein fremsta hlaupakona Íslands. Hún, ásamt Jóni Oddssyni kenndi mér að hlaupa rétt, beita líkamanum rétt. Til að ná árangri þarf að byggja góðar undirstöður, ekki bara hlaupa og hlaupa. Ég nýti vel tímann á æfingum til að fá sem mest út úr hverri æfingu. Ef ég geri það ekki, gæti ég eytt tímanum í eitthvað annað. Í raun setti ég allan fókus á hlaupin og gerði lítið annað en að æfa hlaup og vinna. Ég vildi verða bestur,“ segir Þórólfur Ingi. 

Mataræðið tók líka smám saman breytingum „Í byrjun fór ég oft beint af æfingu á skyndibitastað og borðaði einhverja óhollustu. Svo kom að því að mig hætti að langa í óhollustuna og fór að borða hollari mat. Ef maður finnur gleðina í því að hreyfa sig og sér árangurinn þá kemur hitt að sjálfu sér og löngunin í að lifa heilbrigðara lífi eykst. Þetta snýst líka um þolinmæði, ætla sér ekki um of og breyta bara einu í einu. Síðustu misseri hef ég æft undir leiðsögn Arnars Péturssonar. Hvert æfingatímabil er sex mánuðir, í byrjun hvers tímabils finn ég mér eitthvað eitt til að bæta og vinn í því þangað til ég er búinn að ná góðu valdi á því. Dæmi um þetta er; auka skrefatíðni, huga að andlegu hliðinni, hvernig það er að hugsa eins og afreksíþróttamður, t.d. með lestri bóka, og núna síðast hvernig ég get bætt líkamsstöðuna mína á hlaupum. Lykilatriðið í þessu öllu er að þetta sé skemmtilegt og maður sé að þessu fyrir mann sjálfan en ekki einhvern annan,“ segir hann. 

Þórólfur fékk ýmsa styrktaraðila til liðs við sig eftir að hann setti sér háleit markmið í upphafi árs 2016 og fór að sýna árangur. Hann segir að það skipti sig miklu máli. „Þegar það er rigning og rok á sunnudagsmorgni og ég á leið út að hlaupa, þá er gott að vita af þessu góða baklandi sem hefur mikla trú á mér. Það hvetur mig áfram.“  

Þórólfur Ingi og dætur hans, Lilja Skarpaas (t.h.) og Sonja Skarpaas (í miðjunni), eftir Vormaraþonið sem fór fram fyrir stuttu. (Mynd: Rúdolf Adolfsson)

Hvað ertu að hugsa á meðan þú hleypur?

„Það er svo misjafnt. Á rólegum æfingum er ég afslappaður og hlusta á hljóðbækur. Á hraðari æfingum hugsa ég um góðan hlaupastíl og einbeiti mér að því að hlaupa fallega. Stundum hugsa ég um vinnuna, en ég vinn hjá Origo þar sem ég er vörustjóri yfir app-þróun í heilbrigðislausnum. Fyrir hlaupakeppni er gott að vera tilbúinn með hugsanir og hugsa um að brjóta hlaupið niður í nokkra búta, t.d. niður í vegalengdir eða áfangastaði. Þannig verður hlaupið ekki óviðráðanlegt,“ segir hann. 

Í hlaupakeppnum skiptir máli að fara ekki of hratt af stað og tala sjálfan sig til á erfiðum köflum hlaupsins. „Það er svo gaman við rásmarkið að margir fyllast kappi og fara of hratt af stað en ég mæli með að taka ekki endasprettinn strax í byrjun, þá er maður búinn þegar hlaupið er ekki hálfnað. Betra er að fara á réttum hraða af stað og eiga inni orku fyrir síðustu metrana. Hlaup er alltaf erfitt á einhverjum tímapunkti og það er gott að vera undir það búinn. Á slíkum stundum er gott að tala sjálfan sig til og hugsa jákvætt, eins og „ég get þetta“, „haltu áfram“. Svo er gott að hlusta á músík með jákvæð skilaboð,“ upplýsir Þórólfur Ingi. 

Í sumar ætlar Þórólfur Ingi að færa sig yfir í utanvegahlaup. „Ég keppi yfirleitt mjög mikið. Í júlí fer ég í nýjan aldursflokk, 45-49 ára, og stefnan er að standa á verðlaunapalli á Evrópumeistaramóti öldunga í 5 km eða 10 km hlaupi innan 5 ára. Í janúar, febrúar og mars tók ég þátt í hlaupaseríu FH og Bose og náði þar öðru sætinu. Í apríl tók ég þátt í vormaraþoni og náði að hlaupa á 2.34:49. Ég ætla að taka þátt í Hengill Ultra 25 km hlaupi í júní og með haustinu er ég opinn fyrir því að fara út og taka þátt í maraþoni.“ 

Þegar Þórólfur Ingi er spurður hvort hann geti gefið fólki ráð varðandi hlaup og hreyfingu segir hann að það sé aldrei of seint að byrja. „Finndu hvaða hreyfing hentar þér og hverju þú hefur gaman af. Hvort sem það er sundið, golfið eða hlaupið, ekki stoppa í anddyrinu og snúa við inn í sófa. Allir eru misupplagðir þegar farið er á æfingu en ég get lofað að þú kemur alltaf orkumeiri og hressari heim aftur.“ 

Hægt er að fyljast betur með Þórólfi Inga í gegnum Instagram Þórólfs.

NÝLEGT