Search
Close this search box.
Virkni eða vetrardvali?

Virkni eða vetrardvali?

Sumir líta á veturinn og það sem honum fylgir sem hressandi tilbreytingu á meðan aðrir sjá síður kostina við þessa árstíð. Það getur aftur skýrt hvers vegna sumir hreyfa sig meira á sumrin en á veturna. En er það ekki bara allt í lagi?

Af hverju getum við ekki lagst í vetrardvala eins og birnir?

Á Vísindavef Háskóla Íslands er að finna svar við spurningunni „Hvaða dýr sefur mest?“. Bjarndýr eru nefnd sem dæmi um dýr sem leggjast í langan vetrardvala vegna óhagstæðra aðstæðna í umhverfinu, svo sem fæðuskorts og kulda. Algengt er að þau safni fituforða seint á sumrin og geta brúnbirnir t.d. safnað allt að 18 kg af fitu á einni viku. Líkamsstarfsemi bjarndýrsins fer einnig í nokkurs konar orkusparandi ástand á meðan á dvalanum stendur; líkamshitinn fellur um 3-7 °C og hjartsláttartíðnin lækkar úr 40-70 slögum/mínútu í 8-12 slög/mínútu.

Það þarf ekki að hugsa sig lengi um til að sjá að þetta fyrirkomulag er ekki hvorki nauðsynlegt né æskilegt fyrir okkur mannfólkið. Umhverfið býður upp á gnótt matar, upphitað húsnæði og utandyra kemur klæðnaður í samræmi við veður í stað náttúrulegs loðfeldar bjarnarins. Síðast en ekki síst hefur langvarandi kyrrseta neikvæð áhrif á heilsu okkar og líðan.

Kyrrseta frystir líkama og sál

Mannslíkaminn er hannaður fyrir hreyfingu en bregst að sama skapi illa við mikilli kyrrsetu. Öll hreyfing er betri en engin hreyfing en almennar ráðleggingar miða við að fullorðnir hreyfi sig rösklega í minnst 30 mínútur samtals daglega og börn hreyfi sig í minnst 60 mínútur daglega.

Með hreyfingu smyrjum við liðamót og losum um andlega og líkamlega spennu. Við færum líkamanum súrefni og næringarefni og losum hann við úrgangsefni. Með tímanum styrkjast bein og vöðvar og hjarta- og æðakerfið verður afkastameira. Allt þetta stuðlar að því að við höfum meiri orku og styrk til að takast á við verkefni daglegs lífs og til að gera það sem okkur finnst skemmtilegt. Algengir fylgifiskar langvarandi kyrrsetu eru hins vegar stirðleiki, kraftleysi, verkir og vanlíðan ásamt því að líkurnar á ýmsum sjúkdómum aukast til muna.

Virk að vetrarlagi

Eins og komið hefur fram upplifa sumir fleiri hindranir fyrir hreyfingu á veturna en á sumrin. Snjór, kuldi, hálka og skortur á birtu eru dæmi um áhrifaþætti sem geta dregið úr hreyfingu. Við þær aðstæður er því enn mikilvægara en ella að vera vakandi fyrir því að uppfylla daglega hreyfiþörf. Hægt er að vera virk/-ur á fjölmargan hátt innan dyra svo sem með því að stunda ýmiss konar íþróttir, leikfimi eða jóga. Ef hálka er hindrun eru fjölnota íþróttahús og verslunarmiðstöðvar dæmi um hentugt svæði til gönguæfinga. Það er hins vegar ekki síður gott að drífa sig reglulega út og fá ferskt loft í kroppinn. Veðrið er sjaldan það slæmt að klæðnaður við hæfi sé ekki nægileg vörn. Börn eru klædd upp til að þola flest veður og hinir fullorðnu ættu ekki að vera í vandræðum með að gera slíkt hið sama.

Útivist bætir og kætir

Það er fátt huggulegra en að sitja í heita pottinum eftir sundsprett á köldum vetrardegi og yfir dimmasta tímann er gott að njóta birtunnar t.d. með gönguferðum í hádeginu. Skauta er hægt að stunda innandyra og jafnvel utandyra, allan veturinn og ef nægur snjór er til staðar er hægt að skella sér á gönguskíði, skíði eða bara renna á þotu og búa til snjókarl. Þeir sem vilja nýta eigin orku og hjóla til og frá vinnu geta með fremur litlum tilkostnaði og fyrirhöfn fjárfest í nagladekkjum og ljósum. Umfram allt ættum við að leggja áherslu á virkar samverustundir í faðmi fjölskyldu og vina. Þá njótum við þess enn betur að kúra í hlýjunni við kertaljós á kvöldin og fyrr en varir er sólin farin að hækka á lofti.

  • Hreyfum okkur daglega, allan ársins hring.
  • Hreyfing veitir aukna orku og slökun.
  • Virkjum alla fjölskylduna.
  • Klæðum okkur í samræmi við veður.
  • Njótum birtunnar með útivist í hádeginu.
  • Jóga, skíði, snjókarlagerð… Virkjum hugmyndaflugið.
  • Nagladekk eru fáanleg fyrir reiðhjól.
  • Notum endurskinsmerki.

Höfundur: Gígja Gunnarsdóttir

Þessi grein birtist upprunalega á vef embætti Landlæknis.

NÝLEGT