Eftir Inga Torfa Sverrisson
Þegar þú leggur upp í ferðalagið sem á að leiða þig á draumastaðinn er mikilvægt að þú hafir nokkuð sterka mynd af því fyrirfram hvaða leið skal halda. Hver er þinn draumur?
Hvernig tökumst við á við áskoranir
Leiðin á þennan stað getur sannarlega tekið breytingum þegar ferðalagið er hafið enda er lífið óútreiknanlegt og síbreytilegt. Við höfum ekki alltaf fulla stjórn og ekki alltaf fulla yfirsýn. Stundum setur veðrið strik í reikninginn, stundum hælsæri og stundum hittum við einhvern á leiðinni sem dregur úr manni orku eða vill og reynir að beina okkur í aðra átt. Það eru þessi augnablik sem móta ferðalagið og lífið. En hvernig ætlum við að takast á við áskoranirnar sem verða á vegi okkar? Látum við þær stoppa okkur, snúa okkur eða höldum við okkar striki? Notum við jafnvel þessar hindranir til að styrkja okkur? Lærum við af þeim?
Eigum til að gleyma litlu sigrunum
Flest okkar hafa gengið í gegnum erfiða kafla í lífinu og tekist á við ýmis verkefni sem á einhverjum tíma virtust óyfirstíganleg. Og flest höfum við upplifað erfiðar tilfinningar. Ósigrum fylgja oft sorg, reiði, vonbrigði og vonleysi og þá hættir okkur til að dvelja of lengi við þessar tilfinningar og hættum ferðalaginu. Þá eigum við það til að gleyma öllum litlu sigrunum en það eru einmitt þeir sem halda okkur á réttri leið. Þeir minna okkur á hvert við stefnum og fá okkur til að halda áfram.
Ferðalagið sjálft sem stendur upp úr
Reistu vörður um alla litlu sigrana sem færðu þér staðfestingu á því að þú værir á réttri leið. Ef þú villist í þokunni getur verið auðvelt að rekja sig til baka að síðustu vörðu, hvíla sig og ná fyrri styrk og leggja svo af stað aftur. Mundu eftir sigrunum, mundu eftir góðu augnablikunum og tilfinningunum sem fylgdu. Ímyndaðu þér þessar vörður sem þú reistir með stolti og gleði, þar sem þú fannst viljann og öryggið til að halda áfram. Gerðu þeim hátt undir höfði og festu þær í minni þínu.
Þegar á ferðalagið líður muntu ef til vill átta þig á því að það er ferðalagið sjálft sem stendur upp úr og öll ævintýrin á leiðinni. Lífið er nefnilega ferðalag sem við ætlum að njóta. Munum að staldra við og líta í kringum okkur.

