Search
Close this search box.
Yfirvegun og þakklæti

Yfirvegun og þakklæti

Fæst okkar hafa upplifað tíma eins og þessa sem við erum að fara í gegnum núna. Nú ríkir tími mikillar óvissu, tími kvíða, tími streitu,  tími erfiðleika, en á sama tíma getur þetta líka verið tími, heilunar, bætinga, endurskoðunar, tengsla, sjálfræktar, slökunar og samvinnu. Á tímum eins og þessum þurfum við öll að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum og breyta ansi mörgu í okkar lífi. Okkur finnst þetta mis erfitt og þurfum við því oftar en áður að taka aukið tillit hvert til annars. Við erum í stríði, stríði við veiru sem herjar á allan heiminn, við erum öll í sömu baráttunni, við erum öll í sama liði, við erum öll að fylgja sömu reglum, nú skiptir máli að standa saman sem aldei fyrr.

Kjörorð okkar þessar vikurnar ættu að vera tvö, yfirvegun og þakklæti. Við þurfum að taka þessu öllu af eins mikilli yfirvegun og við getum og í góðri samvinnu við okkur sjálf og hvert annað. Við þurfum að vera yfirveguð yfir því að þurfa að vera fjarri þeim sem okkur þykir vænt um, yfirveguð yfir því að börnin okkar geti ekki knúsað eða hitt ömmur sínar og afa, yfirveguð yfir því að geta ekki hitt fólkið okkar, yfirveguð yfir því að geta ekki mætt til vinnu eða í skóla, hitt vini, farið í ræktina, stundað hóp íþróttir, látið klippa á okkur hárið o.s.frv. Það mun sannarlega reyna á fjölskylduböndin og vináttuna á þessum tímum. Nýtum tímann til þess að rækta tengsl við fólkið okkar. Það styrkir okkur og bætir líf okkar. Munum að þetta er tímabil, þetta mun taka enda.

Heimsfaraldurinn sem nú geysar verður líklega  til þess að við flest förum að líta hlutina öðrum augum. Við verðum þakklátari fyrir litlu hlutina, við förum að meta hvert annað á annan hátt og bera meiri virðingu fyrir störfum hvers annar, við lítum öðrum augum á starfsfólkið í kjörbúðunum, fjölmiðlafólkið og ræstitæknana, við sjáum betur hvað öll störf þjóðfélagsins skipta miklu máli. Við kunnum betur að meta heilbrigðisstarfsfólkið okkar sem reynir sitt allra besta í þessum erfiðu aðstæðum og setur sig sjálft í hættu fyrir okkur hin, takk heilbrigðisstarfsfólk. Stjórnendur landsins sem sofa lítið, en reyna dag og nótt að finna lausnir til þess að við komum sem best út úr þessu öllu, sem samheldin þjóð.

Við lærum að verða þakklátari fyrir að fá að hitta vini og ættingja, þakklát fyrir að mæta í ræktina og í annað íþróttastarf, þakklát fyrir að geta skellt okkur í heitu pottana eða fengið lánaðar bækur á bókasafninu, farið á tónleika, í leikhús, í bíó eða messu og allt hitt sem við gerum reglulega en gleymum kannski að vera þakklát fyrir.  Þakklæti er sú dyggð sem hefur hvað mest áhrif á lífshamingju okkar.

Með því að tileinka okkur þakklæti líður okkur betur. Reynum eins og við getum að vera jákvæð og draga að okkur jákvæðni, okkar jákvæðni hefur ekki bara góð áhrif á okkur heldur hefur hún líka góð áhrif á aðra. Það sem við nærum það vex, einblínum á það góða, einblínum á það sem skiptir okkur máli, einblínum á það sem við erum þakklát fyrir og viljum hafa í lífi okkar.

Veiran hefur víst ekki enn náð hámarki sínu svo nú þurfum við að vanda okkur ennþá frekar, öll sem eitt. Förum eftir reglunum sem okkur er settar, tökum tillit til hvers annars. Pössum upp á okkur sjálf, pössum upp á fólkið okkar, tökum upp símann og hringjum í þá sem okkur þykir vænt um og bjóðumst til að hjálpa þeim sem á þurfa að halda. Margir eru einangraðir heima hjá sér og komast ekki út. Hugsum hvort einhver í okkar nærumhverfi þurfi jafnvel á okkur að halda. Það hefur nú þegar sýnt sig hversu mikill samhugur er í Íslendingum, það er frábært að sjá hversu margir eru tilbúnir að aðstoða aðra, tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að láta öðrum líða betur, vera innan handar með ferðir í búð eða apótek, söngur  á svölum, tónleikar fyrir utan heimili aldraðra og svo margt fleira sem lagt hefur verið að mörkum til að létta undir með öðrum, náungakærleikurinn í Íslendingum er dásamlegur. Þegar við gefum okkur tíma til að staldra við, horfa í kringum okkur og njóta litlu hlutanna þá áttum við okkur betur á hvað það er sem raunverulega skiptir okkur máli.

Núna þegar við þurfum að vera mikið heima, margir að vinna heima og með takmarkaðan tíma í leikskólum og skólum fyrir börnin þá þurfum við að haga hlutunum á annan hátt. Þessir tímar geta reynt mikið á fjölskyldur og þurfum við öll að aðlaga okkur að þessum breyttu aðstæðum. Það er um að gera að reyna að halda sem mestri rútínu, það er betra fyrir alla og þá sérstaklega börnin okkar. Pössum að snúa ekki sólarhringnum við, borðum hollt, hreyfum okkur daglega og höldum reglu. Við þrífumst öll best í reglu og þá sérstaklega börnin og þess vegna er mikilvægt að reyna að halda henni eins og við getum. Höfum ávaxta stund á morgnana, setjum upp allskonar leikstöðvar, útbúum heima íþrótta tíma, förum í útiveru, setjum upp kennslustundir/vinnustundir o.s.frv. Þetta auðveldar veruna heima og lætur öllum líða betur. Njótum þess að eiga þennan tíma með fólkinu okkar, förum í göngutúra, spilum, púslum, spjöllum, semjum dansa, förum í leiki, gerum allt það sem okkur dettur í hug að gera til að stytta okkur stundirnar og  styrkja fjölskylduböndin. Við vitum ekki hvenær við fáum svona mikinn tíma til þess aftur.

Ég er þess fullviss að þessir erfiðleikar og þetta ástand sem við erum að upplifa núna mun gera okkur að betri einstaklingum, við munum koma sterkari út úr þessu öllu, samheldnari sem aldrei fyrr og þakklátari fyrir litlu hlutina.

Höfundur: Lilja Björk Ketilsdóttir

NÝLEGT